Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:53:47 (314)


[13:53]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir er lagt fram í framhaldi af samþykkt Alþingis 28. des. 1994 á þáltill. um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem undiritaður var af Íslands hálfu í Marakess í Marokkó 15. apríl 1994. Fullgildingarskjöl voru afhent í árslok 1994 en samningurinn tók gildi 1. jan. 1995.
    Þann 3. mars 1994 skipaði ríkisstjórnin samstarfsnefnd sex ráðuneyta til að undirbúa nauðsynlegar breytingar á löggjöf um innflutning og vöruviðskipti sem leiða að fullgildingu samningsins. Þau ráðuneyti sem áttu fulltrúa í nefndinni voru forsrn., fjmrn., iðn.- og viðskrn., landbrn. og utanrrn. Nefndin starfaði undir forustu Ólafs Davíðssonar ráðuneytisstjóra í forsrn.
    Frv. það sem hér er lagt fram er unnið af nefndinni og starfsmönnum hennar. Ýmis önnur frv. um breytingar á lögum vegna aðildarinnar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni verða lögð fram sérstaklega.
    Upphaf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má rekja til stofnráðstefnu Alþjóðabankans og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins í Bretton Woods í Bandaríkjunum árið 1944. Þar var gert ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar alþjóðleg viðskiptastofnun og var gerður þar um sérstakur samningur. Ekkert varð hins vegar af gildistöku þess samnings en á hinn bóginn var gerður almennur samningur um tolla og viðskipti, ,,General Agreement on Tariffs and Trade`` eða GATT eins og það er skammstafað. Innan þessa samnings hafa nokkrum sinnum farið fram viðræður, svonefndar viðskiptalotur, í þeim tilgangi að stuðla að auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum. Áttunda viðskiptalota GATT og jafnframt sú umfangsmesta hófst árið 1986 í Úrúgvæ. Einn þáttur þessara viðræðna var stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, ,,World Trade Organisation``, WTO eins og hún er skammstöfuð. Einnig var gerður viðamikill samningur um landbúnað en reglur GATT höfðu verið nánast óvirkar að því er laut að viðskiptum með landbúnaðarvörur fram að því.
    Í ályktun Alþingis 28. des. sl. um heimildir ríkisstjórnarinnar til að fullgilda samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ítrekar að þrátt fyrir fullgildingu samningsins gildi óbreytt skipulag á innflutningi landbúnaðarvara þar til lögum hefur verið breytt með hliðsjón af samningnum. Þær lagabreytingar, þar með taldar tollabreytingar, skulu gerðar með hliðsjón af GATT-tilboði Íslands til að veita innlendri framleiðslu nauðsynlega vernd. Landbúnaðarráðherra verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.`` --- Tilvitnun lýkur í ályktun Alþingis frá 28. des. um heimild til þáverandi ríkisstjórnar til að fullgilda samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
    Fullgilding samningsins kallar á ýmsar lagabreytingar, einkum á tolla- og búvörulögum. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt skrifstofu Alþjóðviðskiptastofnunarinnar hvenær fullar efndir landbúnaðarþáttarins geti hafist. Samkvæmt því eiga tollskuldbindingar og skuldbindingar um tollkvóta að koma til framkvæmda 1. júlí 1995 að því tilskildu að nauðsynlegar lagabreytingar hafi þá verið gerðar. Mikilvægt er að svo verði. Þau efnisatriði samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem kalla á breytingar á lögum og fjallað er um í þessu frv. eru í fyrsta lagi þau að breyta þarf öllum innflutningstakmörkunum og innflutningsgjöldum í tolla sem uppfylli ákvæði samningsins. Einnig þarf að tryggja heimildir, þ.e. tollkvóta til innflutnings með ívilnandi tollum í samræmi við samninginn. Þetta er gert með breytingum á tollalögum.
    Í öðru lagi þarf að lögfesta ákvæði um úthlutun tollkvóta og ákvörðun sérstakra innflutningsheimilda og um beitingu sérstakra öryggisráðstafana samkvæmt samningnum. Ákvæði þess efnis eru sett í búvörulög.
    Í þriðja lagi þarf að breyta ákvæðum laga um varnir gegn dýrasjúkdómum og laga um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum og fella úr gildi lög um tilbúning og verslun með smjörlíki og lög um innflutningsbann á niðursoðinni mjólk og þurrmjólk.
    Efnissvið frv. er í samræmi við framangreint skipt í nokkra kafla. Í I. kafla þess eru breytingar á tollalögum. Í II. kaflanum eru breytingar á búvörulögum. Í III. og IV. kafla breytingar á lögum um varnir gegn sjúkdómum í plöntum og dýrum. Í V. kafla eru ákvæði um niðurfellingu laga og lagaákvæða og að lokum er kafli með gildistökuákvæði og ákvæði til bráðabirgða.
    Frv. er að öllu leyti í samræmi við áðurnefnda þál. um fullgildingu samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Samkvæmt þeim samningi er ekki heimilt að beita innflutningsbanni ef frá eru taldar innflutningshömlur sem byggjast á sjúkdóma- og smitvörnum. Enn fremur heimilar samningurinn einungis álagningu venjulegra tolla á innflutning en útilokar beitingu verðjöfnunargjalda eða annarra breytilegra gjalda svo og álagningu hvers kyns sérgjalda. Þetta leiðir til þess að nú þarf að setja toll á þær vörur sem áður lutu innflutningsbönnum eða magntakmörkunum og breyta þarf ýmsum sérgjöldum í fasta tolla. Þá þarf og að breyta nokkrum almennum áhrifum tollalaganna um tollmeðferð og álagningu tolla, svo og lögfesta ákvæði samningsins um hámarkstolla eða svokallaðar tollabindingar.
    Samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina og almenna samningnum um tolla og viðskipti fylgja ýmsir sérsamningar og gera sumir þeirra breytingar á tollalögum nauðsynlegar. Er þar um að ræða endurskoðun ákvæða um tollverð, ákvæði um heimildir tollyfirvalda til ráðstafana gegn brotum á hugverkaréttindum og heimild til að setja almennar upprunareglur. Sérsamningur um hugverkaréttindi í viðskiptum felur í sér að rétthafi hugverka muni eiga þess kost að kæra meint brot fyrir dómstólum og samningurinn kveður á um hvernig leysa eigi mál af þessu tagi milli ríkja. Sú breyting á tollalögum sem þessu tengist veitir tollyfirvöldum heimild til þess að stöðva tollafgreiðslu á vörum ef rétthafi vörumerkis eða annarra hugverkaréttinda telur gildar ástæður til að ætla að þær hafi verið framleiddar í trássi við réttindi hans og hann óskar eftir að innflutningur verði stöðvaður.
    Veigamikill hluti samningsins um tolla og viðskipti eru skuldbindingar samningsaðilanna um hámark þeirra tolla sem þeir leggja á innflutning og eru þær yfirleitt kallaðar tollabindingar. Slíkar tollabindingar að því er varðar iðnaðarvörur hafa jafnan verið í GATT-samningum. Í samningaviðræðunum lögðu aðilar hver um sig fram tilboð um þessi hámörk og breytingar á þeim á aðlögunartíma samningsins, þ.e. til ársins 2000. Skuldbindingar þessar eru misjafnar eftir löndum og eins er misjafnt að hve miklu leyti einstök lönd nýta þessar bindingar, þ.e. leggja á tolla að fullu í samræmi við þær.
    Hvað Ísland varðar hefur það verið svo að rauntollar á iðnaðarvörur, þ.e. tollar sem lagðir eru á samkvæmt tollskrá, eru í nær öllum tilvikum lægri en tollabindingarnar og munar þar oft miklu. Meðaltal tollabindinga á iðnaðarvörur var um 18,2% fyrir samningsgerðina en rauntollar á þessar vörur eru 3,7% að meðaltali. Þetta hafði í för með sér að þrátt fyrir lækkun tollabindinga á iðnaðarvörur í tilboði Íslands í um 11,5% eru áhrifin á rauntolla óveruleg. Tollabindingin er þannig sú samningsstaða sem við höfum hverju sinni í tollasamningum og gerir okkur kleift að gera tilslakanir í þeim tilgangi að ná hagstæðari kjörum hjá öðrum samningsaðilum.
    Tollabindingar á landbúnaðarvörum í 1.--24. kafla tollskrárinnar hafa sérstöðu í samningi þessum að því leyti að fallist var á þá meginreglu að einstökum löndum skyldi heimilt að ákveða tollabindingarnar sem ígildi innflutningstakmarkana í hverju landi um sig eftir ákveðnum reglum. Skuldbinda ríki sig síðan til þess að lækka þessar bindingar í áföngum til ársins 2000 um 15% að lágmarki og að jafnaði um 36%.
    Í frv. er þessum skuldbindingum Íslands gerð skil með þeim hætti að þær eru lögfestar sem sérstakur viðauki, viðauki II, með tollalögunum. Er viðauki þessi tvískiptur að formi og efni. Tollabindingar á vörur í 1.--24. kafla tollskrárinnar er í fyrri hluta hans. Eru þær í formi magntolls í mynteiningunni SDR á kg og verðtolls í prósentu fyrir hvert áranna 1995 til ársins 2000. Má nota þá bindingu sem hærri toll gefur.
    Í síðari hluta viðaukans eru bindingar á aðrar vörur. Eru þær í formi verðtolls og breytast ekki á tímabilinu. Við tollafgreiðslu verður kannað í þeim tilfellum sem ástæða er til hvort álagður tollur fer yfir tollabindingu og hann lækkaður ef svo er.
    Eitt vandasamasta verkið við undirbúning þessarar lagasetningar var að ákveða hvaða tolla skyldi leggja á þær vörur sem sætt hafa innflutningstakmörkunum í formi leyfa eða banna. Eins og fram hefur komið var ákveðið að breyta þessum takmörkunum í tolla og samið um hámark þeirra eftir tilteknum meginreglum. Í því efni var miðað við að hámarkstollurinn yrði sá munur sem var á innanlandsverði og heimsmarkaðsverði á árunum 1986--1988, sem eru viðmiðunarár samningsins í þessum efnum eins og ýmsum öðrum efnum.
    Við ákvörðun rauntolla á þessar vörur komu ýmsar leiðir til álita. Í fyrsta lagi þurfti að ákveða hvort leggja skyldi á fullan toll samkvæmt hámarksheimildum, þ.e. tollabindingunum, eða hvort farin skyldi sú leið, sem annars er almennt notuð, að ákveða rauntollana út frá öðrum sjónarmiðum og þá eftir atvikum lægri en tollabindingarnar. Væri það gert þurfti í öðru lagi að ákveða hvaða verndarstig ætti að veita innlendri framleiðslu gagnvart innflutningi sem ekki hafi verið frjáls og í þriðja lagi hvaða tolla skyldi leggja á vörur sem borið hafa verðjöfnunargjöld eða önnur sambærileg gjöld.
    Við athugun sýndi sig að miklar breytingar hafa orðið á verðlagi, bæði á heimsmarkaði og ekki síður á innanlandsmarkaði frá því sem var á viðmiðunarárunum. Tollabindingarnar eru því ekki raunhæfur mælikvarði á þann verðmun sem er á milli þessara markaða og gefa í mörgum tilvikum ýkta mynd af honum. Notkun tollabindinganna hefði í þeim tilvikum leitt til mjög hárra tolla sem gefið hefði óraunhæfa mynd á verðlag og verið óþarfir með tilliti til þess verndarmarkmiðs sem tollarnir eiga að þjóna. Við þetta bætist að verðlagsþróunin frá því á árunum 1986--1988 hefur verið misjöfn eftir því hvaða vörutegundir eiga í hlut. Tollar í samræmi við tollabindingar hefðu því gefið ranga mynd af þeim verðmun sem nú er til staðar og veitt einstökum vörutegundum mismikla vernd. Þannig hefði einstökum greinum landbúnaðar í raun

verið mismunað.
    Nálgun aðildarríkjanna í þessu efni er að sjálfsögðu misjöfn eftir aðstæðum. Fyrst er þess að geta að þau lönd sem okkur standa næst, Noregur og 15 aðildarríki Evrópusambandsins, ætla að láta hina nýju tolla á landbúnaðarvörur taka gildi 1. júlí nk. Þetta er sama dagsetning og gert er ráð fyrir í frv. þessu. Norðmenn völdu þá leið að ákvarða tollana nú þegar í samræmi við tollabindingarnar eins og þær verða árið 2000. Áfangalækkunin, sem er að meðaltali 36% á sex árum, er þannig öll tekin út í upphafi. Stjórnvöld hafa síðan heimild til þess að lækka tollana enn frekar eftir þörfum til þess að stýra innflutningnum, t.d. ef skortur er á einhverri vörutegund eða af öðrum ástæðum. Stjórnvöld geta einnig hækkað tollana aftur ef þörf er á upp að hámarkstollum.
    Þegar Norðmenn kynntu þessi áform í upphafi árs lýstu ýmis aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar strax áhyggjum sínum yfir því að þessi aðferð kynni að vera á skjön við samninginn um stofnunina. Gallinn við hana væri sá að tollarnir væru ekki nægilega skýrir og fyrirsjáanlegir sem er ein meginregla samningsins. Slíkt kerfi byði einnig upp á breytilega tolla í reynd sem er andstætt samningnum. Ljóst er að náið verður fylgst með framkvæmd samningsins í einstökum aðildarríkjum.
    Ef við lítum nú til þess hvernig Evrópusambandið ætlar að framkvæma skuldbindingar landbúnaðarsamningsins, þá er sú leið meira og mjög í ætt við þá sem hér er lögð til. Evrópusambandið hefur sameiginlegt tollkerfi og því sameiginlega framkvæmd í þessu efni. Tilboð Evrópusambandsins í GATT-viðræðunum var að því leyti frábrugðið tilboði Íslands og Noregs að í því var ekki miðað við verðmismun á árunum 1986--1988. Evrópusambandið og áður Evrópubandalagið hafði um langt skeið haft kerfi breytilegra innflutningsgjalda sem tók mið af þeim mun sem var á hverjum tíma á innflutningsverði og verði innan bandalagsins. Í tilboði Evrópusambandsins var þessum gjöldum breytt í fasta magntolla miðað við það verð er gilti þegar tilboðið var lagt fram og við þá tolla bætist í mörgum tilvikum allt að 20% verðtollur eins og reyndar hafði áður verið. Rauntollar Evrópuríkjanna innan Evrópusambandsins verða frá 1. júlí nk. í samræmi við tilboð þeirra og munu því endurspegla mismun á heimsmarkaðsverði og verði innan bandalagsins að viðbættri ákveðinni vernd. Rauntollarnir verða því almennt þeir sömu og hámarkstollar en lækka síðan í áföngum um 36% að jafnaði til ársins 2000.
    Við ákvörðun tolla í frv. er leitast við að meta aðstæður eins og þær eru nú og ákveða tollana í samræmi við þær og þá vernd sem nauðsynlegt er talið að innlend búvöruframleiðsla njóti. Heimsmarkaðsverð á landbúnaðarafurðum hefur farið hækkandi frá viðmiðunarárunum 1986--1988 en verð innan lands hefur farið lækkandi. Tollar samkvæmt viðauka I með frv. eru ákveðnir samkvæmt þeirri meginreglu að tollur á innfluttar vörur verði þannig að eftir að honum hefur verið bætt við innkaupsverð vörunnar verði hún um 30% dýrari en sambærileg innlend vara. Þessi 30% munur miðast við að innkaupsverð sé í samræmi við heimsmarkaðsverð. Sé innkaupsverðið hærra eða lægra getur munurinn eftir atvikum orðið meiri eða minni. Tolli þessum er hins vegar skipt í tiltölulega háan magntoll og 30% verðtoll sem leiðir til þess að veruleg vernd helst jafnvel þótt innkaupsverðið lækki umtalsvert frá því heimsmarkaðsverði sem miðað er við. Reglu þessari var beitt á þær vörur sem verið hafa í innflutningsbanni, svo sem kjötvörur og mjólkurvörur.
    Að því er varðar blóm og grænmeti sýndi sig að reglu þessari varð í mörgum tilvikum ekki við komið vegna þess að með henni fór tollurinn upp fyrir bindinguna. Fyrir þessar vörur er lagt til að tollurinn svari til magntollabindingar fyrir viðkomandi vöru en verði skipt upp í magntoll og 30% verðtoll.
    Með þeirri aðferð við útfærslu tolla sem hér hefur verið lýst er í aðalatriðum farin sú leið sem almennt hefur verið notuð í Evrópu og ætla má að viðurkennd verði innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Verndin verður nokkru meiri en hjá Evrópusambandinu, enda kerfisbreytingin hér mun meiri vegna þess að algert innflutningsbann hefur verið á mörgum vörum en hjá Evrópusambandinu hafa þessar vörur verið fluttar inn en lögð á þær verðjöfnunargjöld.
    Framangreindar reglur tóku til ákvörðunar á tollum á þær vörur sem innflutningstakmarkanir hafa gilt um. Hvað þær vörur varðar sem verið hafa í frjálsum eða lítt heftum innflutningi var við það miðað að hækka ekki álögur frá því sem verið hefur. Eru tollar á þær vörur því hinar sömu og þeir voru áður. Í þeim tilvikum að heimild er til að leggja á þær verðjöfnunargjöld samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamninga voru verðjöfnunargjöldin endurreiknuð miðað við núverandi markaðsverð og magntollar miðaðir við það.
    Að því leyti sem þessar vörur báru verðtoll hefur honum verið haldið og bætist þá við magntollinn.
    Samkvæmt ákvæðum búvörulaga hafa sérgjöld verið lögð annars vegar á fóður og hins vegar á kartöflur og vörur unnar úr þeim. Báðum þessum gjöldum er breytt í venjulega tolla sem leggjast á sömu vörutegundir og áður. Annars staðar í frv. er ákvæði þess efnis að andvirði tolls af fóðurvörum renni í sjóð sem ráðstafað verður með sama hætti og fóðurgjaldi til þessa.
    Samkvæmt GATT-samningunum höfum við skuldbundið okkur til að heimila tiltekið magn innflutnings búvöru á lægri tollum en almennt gerist. Innflutningsheimildir á ívilnandi tolltöxtum eru nefndir tollkvótar. Samningsbundnir tollkvótar eru annars vegar svokallaður lágmarksaðgangur fyrir vörur sem ekki hefur verið heimilt að flytja inn eða þá aðeins í mjög takmörkuðum mæli, svo sem kjöt og mjólkurvörur. Tollkvótarnir eru við það miðaðir að innflutningur gæti í upphafi aðlögunartímans orðið um 3%

af innanlandsneyslunni og farið vaxandi í um það bil 5% í lok tímabilsins. Tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt þessum kvótum skal því með samningnum eigi vera hærri en 32% af tollígildi viðkomandi vöru, þ.e. bindingunni, áður en hún tekur samningsbundinni lækkun og er miðað við það í frv.
    Hins vegar eru í samningnum ákvæði um tollkvóta á aðrar vörur sem flestar hafa verið fluttar inn en háðar magntakmörkunum, svonefndur ríkjandi markaðsaðgangur. Er þar fyrst og fremst um að ræða blóm og grænmeti. Viðmiðun fyrir þessa tollkvóta er innflutningur á árunum 1986--1988 og tollar á vörum samkvæmt þessum kvótum mega ekki vera hærri en þeir voru á þessum árum. Í frv. er miðað við að þessir tollar verði eins og þeir hafa verið í reynd á síðustu árum. Í flestum tilvikum er tollur þessi 30% en á viðmiðunarárunum var algengt að tollur á þessum vörum væri 40%.
    Lista yfir þær vörur sem tollkvótarnir taka til, svo og vörumagnið og tolltaxtana er að finna í Viðauka III með frv. Í síðari hluta frv., breytingu á búvörulögum, er að finna ákvæði um hvernig staðið verður að úthlutunum tollkvótanna. Tollkvótar vegna lágmarksaðgangs og ríkjandi aðgangs eru miðaðir við innflutning áranna 1986--1988 eins og áður sagði, en síðan hafa aðstæður breyst á ýmsum sviðum og ástæður kunna að vera til meiri innflutnings en þá var. Getur margt komið til að svo sé, breyttar neysluvenjur, sveiflur í framboði af innlendri framleiðslu eða að æskilegt sé að veita verðaðhald. Var af þessum ástæðum talið æskilegt að gera ráð fyrir þeim möguleika að heimila viðbótarinnflutning á ívilnandi tollum. Er í frv. gert ráð fyrir því með þeim hætti að úthluta megi tollkvótum allt að tilteknu magni fyrir nánar tilgreinda vöruflokka.
    Sé um að ræða vörur sem verið hafa í banni, þ.e. kjöt og mjólkurvörur, er í frv. gert ráð fyrir að tollurinn verði 75% af fullum tolli samkvæmt frv. en það svarar nokkurn veginn til verðjöfnunar án verðverndar eða að tollurinn verði hinn sami og fyrir lágmarksaðganginn. Hvað varðar aðrar vörur er miðað við að tollurinn verði 0,25%, 50% eða 75% af fullum tolli. Listi yfir þær vörur sem frjálsi tollkvótinn tekur til svo og vörumagið er að finna í viðauka IV með frv.
    Í breytingum að búvörulögunum er að finna ákvæði um það hvernig staðið verður að úthlutun tollkvótanna. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að um úthlutun tollkvóta fari eftir ákvörðun búvörulaganna og að landbrh. ákveði að hve miklu leyti kvótarnir verða notaðir til og á hvaða tolltöxtum.
    Af breytingum á tollalögunum er að lokum að geta heimildar til að leggja á viðbótartoll af ástæða er talin til að grípa til öryggisráðstafana. Samkvæmt GATT-samningunum má grípa til öryggisráðstafana við tiltekin skilyrði. Þau eru annars vegar að innflutningsverð vöru lækki niður fyrir viðmiðunarverðið sem notað var við gerð tilboðsins um tollabindingar eða hins vegar að innflutningur vöru vaxi verulega milli ára. Sé annaðhvort þessara skilyrða fyrir hendi má til viðbótar við tollabindingar leggja á toll sem reiknast eftir ákvæðum samningsins.
    Við þær breytingar sem lagðar eru til á búvörulögum og dýrasjúkdómalögum er farið eftir þeim ákvæðum þáltill. um fullgildingu ríkisstjórnarinnar á samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina að landbrh. verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli ályktunarinnar.
    Svo ég víki nánar að búvörulögum er aðalbreyting þeirra í fyrirliggjandi frv. fólgin í að afnumdar eru heimildir landbrh. til að takmarka innflutning landbúnaðarvara af viðskiptaástæðum. Þessi takmörkun nær þó einungis til ríkja sem eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Ekki þykir rétt, eins og mál standa, að afnema möguleika á að takmarka innflutning frá ríkjum sem standa utan við stofnunina. Þau ríki hafa ekki undirgengist skuldbindingar samningsins um takmörkun styrkja til landbúnaðarins. Þau hafa því eftir sem áður óbundnar hendur við greiðslu útflutningsbóta og hvers konar styrkveitinga.
    Samkvæmt breytingu sem gerð var á búvörulögunum í apríl 1994 er óheimilt að flytja inn vörur sem tilgreindar eru í viðauka með lögunum nema til komi leyfi landbrh. og er honum gert að leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins áður en ákvörðun er tekin. Í viðaukanum er aðallega að finna ferskar, frystar eða soðnar kjötvörur með að lágmarki 20% innihald af kjöti og auk þeirra mjólkurafurðir og egg. Á sama hátt er innflutningur á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum háður leyfi landbrh. samkvæmt gildandi lögum.
    Til að leyfa innflutninginn þarf landbrh. að fá meðmæli nefndar sem starfar á vegum landbrn. og í eiga sæti fulltrúar framleiðenda og innflytjenda garð- og gróðurhúsaafurða. Nefndin skal gefa ráðherra rökstutt álit um hvort innflutningsins sé þörf eða ekki. Bæði þessi ákvæði verða felld úr lögum með þeim breytingum sem frv. felur í sér. Landbrh. verður aðeins heimilt, eins og áður er nefnt, að takmarka innflutning frá löndum sem standa utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Takmörkun innflutnings frá löndum sem eiga aðild að stofnuninni kemur aðeins til greina vegna heilbrigðis manna, dýra eða plantna.
    Í frv. er lagt til að landbrh. skipi nefnd þriggja manna sem skal vera til ráðuneytis um ákvæði laganna um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Formaður verði skipaður af landbrh. án tilnefningar en viðskrh. og fjmrh. tilnefni hver fyrir sig fulltrúa í nefndina og er það óbreytt fyrirkomulag frá gildandi lögum. Hlutverk nefndarinnar verður að gera tillögur um úthlutun tollkvóta, breytingu verðjöfnunargjalda við inn- og útflutning samkvæmt ákvæðum fríverslunar og öðrum milliríkjasamningum, svo og beitingu viðbótartollkvóta og tolltaxta í þeim tilvikum.
    Nefndinni ber að afla nauðsynlegra upplýsinga um þau atriði er framkvæmd þessara verkefna varðar.

    Í reynd sinnir nefndin þeim verkefnum sem Framleiðsluráð landbrn. og nefnd um innflutning garð- og gróðurhúsaafurða gegndi áður. Til viðbótar er henni ætlað að gera tillögur um beitingu tolltaxta fyrir viðbótartollkvóta.
    Hvað varðar tillögur um beitingu verðjöfnunargjalda við inn- og útflutning landbúnaðarvara er verksvið nefndarinnar óbreytt frá gildandi lögum. Skylda landbrh. til að bera mál upp í ríkisstjórn verði ágreiningur í nefndinni fellur niður enda er það atriði óeðlilegt og ekki í anda þáltill. um staðfestingu samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um forræði landbrh. í þessum málum.
    Í frv. er lagt til að framkvæmd á úthlutun tollkvóta fyrir svonefndan lágmarksmarkaðsaðgang og ríkjandi markaðsaðgang verði í höndum landbrh. og fari eftir ákvæðum búvörulaga. Landbrh. birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta þar sem fram komi hvaða vara er til úthlutunar, í hvaða magni, innflutningstímabil, tolltaxtar og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að vera. Stefnt er að því að hafa úthlutun tollkvóta sem einfaldasta. Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal aðalreglan vera sú að hlutkesti ráði úthlutun. Við úthlutun tollkvóta samkvæmt viðauka III verður landbrh. heimilt að skipta tollkvótum upp í vörutegundir nánar en nú er gert þar sem tollskrá verður nákvæmar sundurliðuð en var í samningstilboði Íslands. Við þessa sundurliðun er höfð hliðsjón af upplýsingum um innflutning á viðmiðunarárunum eftir því sem unnt er. Þá verður landbrh. enn fremur heimilt í stað úthlutunar tollkvóta að veita almenna tímabundna heimild til innflutnings á hliðstæðan hátt og gert var á viðmiðunartíma samningsins.
    Í frv. er gert ráð fyrir að landbrh. geti úthlutað viðbótartollkvótum þeim sem eru í viðauka IV. Þessir tollkvótar ná til innflutnings á takmörkuðu magni af fersku, frystu eða soðnu kjöti, mjólk og mjólkurvörum, smjöri og ostum og garð- og gróðurhúsaafurðum. Tollkvótum þessum verður úthlutað ef skortur er á umræddri vöru á markaði og við þá úthlutun verður farið eftir þeim reglum sem áður hafa verið nefndar um úthlutun þeirra tollkvóta sem skylt er að úthluta samkvæmt samningnum. Landbrh. tekur ákvörðun hverju sinni um hvaða tolltaxta verður beitt við innflutning á vörum samkvæmt viðauka IV.
    Þá felur frv. í sér að bætt er ákvæði við búvörulögin um að landbrh. geti ákveðið með reglugerð að lagður verði á tollur við innflutning með tilvísun til verndarákvæða í 5. gr. samningsins um landbúnað í viðauka með samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina, það ákvæðanna til vara sem merkt er með skammstöfuninni SSG í viðauka IIA. Til að unnt verði að beita verndarákvæðum þarf magn eða verð vörunnar að víkja á tiltekinn hátt frá ákveðnu viðmiðunarstigi. Við þessi skilyrði skal hækka toll vörunnar í hámarkstoll samkvæmt tollabindingu í viðauka IIA að viðbættum viðbótartolli samkvæmt þeim reglum sem er að finna í 5. gr. landbúnaðarsamningsins. Í samningnum er tekið fram að viðbótartollur sem lagður er eftir þessum reglum skuli einnig vera í gildi út það ár sem hann er lagður á.
    Þá vil ég, herra forseti, víkja að lögum um dýrasjúkdóma. Þessum lögum er breytt á þann hátt að bann gegn innflutningi tiltekinna vara og búnaðar er í gildi til að hindra að smitsjúkdómar berist til landsins. Hins vegar er landbrh. veitt heimild til að víkja frá banni telji yfirdýralæknir það sannað að smitefni sem veldur dýrasjúkdómum berist ekki til landsins.
    Í Úrúgvæ-samningnum þótti nauðsynlegt að setja reglur til að koma í veg fyrir að undanþáguákvæðið sem þar er veitt heimild fyrir til að vernda heilbrigði dýra og plantna verði ekki notað sem hindranir í alþjóðaviðskiptum. Í þessum nýju reglum, sem voru samþykktar eftir þriggja ára samningaþóf og eru mjög ítarlegar, er megináhersla lögð á samræmingu og að allar ráðstafanir um heilbrigðisvernd dýra og plantna byggist á vísindalegum rökum og sé ekki við haldið án fullnægjandi vísindalegra sönnunargagna. Þegar ákvæði samningsins koma til framkvæmda verður nauðsynlegt að koma á auknu eftirliti með innflutningi því hingað til hefur sáralítill innflutningur sláturafurða átt sér stað vegna viðskiptalegra takmarkana samkvæmt búvörulögum.
    Eftirlitið mun m.a. fela í sér að nauðsynlegt verður að afla upplýsinga um heilbrigðisástand dýra í viðkomandi útflutningslandi með tilliti til smithættu. Þá þarf að kanna aðferðir við uppeldi sláturdýra, meðferð og aðbúnað við slátrun.
    Herra forseti. Í frv. eru nokkur ákvæði er taka til annarra vara en landbúnaðarafurða. Þannig er fallið frá innflutningstakmörkunum vegna innflutnings á burstum. Innflutningstakmarkanir þessar voru upphaflega settar til að vernda starfsemi blindra á þessu sviði. Í reynd hefur verndun þessi einungis verið í orði en ekki á borði þar sem ógerningur hefur verið fyrir tollyfirvöld að fylgjast með því hvaða bursta er verið að framleiða af blindum hér á landi á hverjum tíma. Þannig hefur a.m.k. frá 1979 aldrei verið hafnað innflutningsleyfi á burstum. Mun vænlegri leið til að veita framleiðslu blindra vernd gegn innflutningi er að beita tollum. Því hefur með frv. verið gerð tillaga um að tollar á innfluttum burstum verði hækkaðir úr 10% í 15% vegna bursta frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ýmsar lagabreytingar tengjast fullgildingu samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina aðrar en þær sem fjallað er um í þessu frv. Frv. þar að lútandi verða lögð fram sérstaklega.
    Þá er einnig rétt að geta þess að í ráðuneytunum er verið að kanna til hlítar hvort hugsanlegt sé að fleiri lögum en nú er séð fyrir þurfi að breyta í framhaldi af aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Komi slíkt í ljós verða frv. þar um lögð fram á haustþingi. Einnig þarf að taka fram að erfitt er að sjá fyrir ýmis vandkvæði sem kunna að koma upp við framkvæmd frv. þegar það verður orðið að lögum. Það þarf því að fylgjast mjög vel með framkvæmdinni og bregðast við ef vandræði verða.

    Herra forseti. Með Úrúgvæ-samningnum eru gerðar veigamiklar breytingar á hinu alþjóðlega viðskiptakerfi fyrir landbúnaðarafurðir. Þessar breytingar munu vafalítið hafa margvísleg áhrif á alþjóðaviðskipti með þessar vörur og á landbúnað einstakra landa. Þessi áhrif munu koma smám saman í ljós á næstu árum eða jafnvel áratugum en ekki er búist við neinum stökkbreytingum í þeim efnum. Þannig ríkir til að mynda talsverð óvissa um verðþróun á landbúnaðarafurðum í heiminum í kjölfar þessara samninga. Nú er ekki lengur heimilt að banna innflutning á búvörum á viðskiptalegum forsendum en það er áfram heimilað að vernda landbúnað með tollum.
    Með þessu frv. er íslenskum landbúnaði tryggð nauðsynleg vernd á skýran hátt þannig að engin óvissa ríkir nú um starfsskilyrði landbúnaðarins að þessu leyti á næstu árum. Jafnframt er landbúnaðinum veitt aðhald með nokkrum innflutningi á lægri tollum sem mun koma neytendum til góða bæði í auknu vöruvali og lægra verði. Ég tel að með þeirri framkvæmd sem kveðið er á um í þessu frv. sé tekið tillit til hagsmuna bænda og neytenda á sanngjarnan hátt miðað við aðstæður í okkar þjóðfélagi.
    Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. og geri jafnframt ráð fyrir því að sú nefnd óski eftir umfjöllun og umsögn hv. landbn. og eftir atvikum hv. utanrmn.