Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 15:15:54 (411)


[15:15]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er á dagskrá eitt stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar, lögin um stjórn fiskveiða. Um þessi lög ríkir ekki sátt í þjóðfélaginu og því kemur alls ekki á óvart að þau skuli sett á dagskrá þessa vorþings og það hefur heldur ekki gengið þrautalaust. Nú loksins um það leyti sem vorþinginu átti að vera að ljúka samkvæmt upphaflegri áætlun birtist frv.
    Það var alveg ljóst þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar var birt að ekki var að vænta neinna stórbreytinga á stefnu ríkisstjórnarinnar í stjórn fiskveiða. Þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér endurspegla örfá óánægjuatriði og þau frv. sem nú hafa verið lögð fram taka eingöngu á nokkrum þeirra. Hér er ekki tekið á ýmiss konar gagnrýni á það kerfi sem er notað við stjórn fiskveiða og þar vil ég fyrst nefna hið mikla brottkast á fiski sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur að nemi að andvirði tugum milljarða. Í öðru lagi er ekki vikið að þeim vandamálum sem hljótast af því að stórtækum veiðarfærum er beitt á hrygningarstöðvar á grunnslóð. Í þriðja lagi er ekki tekið á braskinu með veiðiheimildir sem ríkið færir útgerðarmönnum ókeypis á silfurfati. Hér er um veiðiheimildir að ræða upp á 40--50 milljarða samkvæmt því gangvirði sem nú er á kvóta og það skyldi því engan undra þó að um þessi mál sé deilt og að almenningi og Morgunblaðinu og ýmsum fleiri aðilum sé farið að blöskra.
    Sjómenn hafa verið látnir taka þátt í kvótabraskinu með þeim afleiðingum að nú er hlutaskiptakerfi þeirra komið í rúst eins og yfirstandandi sjómannaverkfall er til vitnis um með tilheyrandi atvinnuleysi í landi og í fiskvinnslu.
    Ég er ekki ein um þá skoðun að það að úthluta aflaheimildum með þeim hætti sem nú er gert, án endurgjalds, stríði gegn ákvæðum 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem kveður á um að nytjastofnarnir

á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Kvennalistinn leggur mikla áherslu á að þessi 1. gr. laganna sé virk og verður ekki séð að neitt sé gert í þessu frv. til að tryggja það. Núgildandi fiskveiðistjórnun hefur m.a. leitt til þess að veiðiheimildir hafa safnast á fárra manna hendur og réttindi til fiskveiða, sem öldum saman hafa verið lifibrauð fólks í sjávarþorpum, eru núna frá því tekin.
    Kvennalistinn vill sjá róttæka endurskoðun á núverandi fiskveiðistjórnun til að ná þeim markmiðum að þjóðin öll njóti þess afraksturs sem af auðlindinni kemur, tryggð sé verndun og uppbygging fiskstofnanna og að fiskiskipastóll landsmanna sé rekinn á sem hagkvæmastan hátt.
    Höfundar aflamarkskerfisins og talsmenn þess leggja oft áherslu á að það kerfi sé líklegast til að skila mestum arði og helst vilja þeir hafa aflamark á öllu kerfinu, líka á smábátum. Það kom fram hjá einum talsmanni, einum fræðimanni á ráðstefnu Fiskifélagsins í gær að vænlegustu leiðirnar til að auka hagkvæmnina í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi séu að fækka undanþágum, þ.e. að hafa eitt kerfi fyrir alla, líka fyrir krókaleyfisbátana, að taka upp aflagjald og að ríkið selji kvóta til hæstbjóðanda. Ég vil taka það fram að ég er ekki að taka undir þetta álit viðkomandi fræðimanns heldur er ég aðeins að vekja athygli á áliti fræðimannsins. En aflamarkskerfið er hins vegar eins og hér hefur komið fram mjög mikill þyrnir í augum krókaleyfiskarla og þetta er kerfi sem stríðir gegn þeirra réttlætiskennd og þeir óska eftir að fá að vera á róðrardagakerfi og halda sínum krókaleyfum því annars er hætta á að þeirra mati, og ég skil það fyllilega, að þessi útgerð, smábátaútgerðin, leggist hreinlega af. Að þeir ríku og stóru kaupi þeirra kvóta.
    Það val sem þetta frv. býður smábátaeigendum upp á verður þeim vafalaust mjög erfitt, ekki síst ef afleiðingar valsins ráða úrslitum um þeirra lífsafkomu síðar sem ekki er mjög ljóst af þessum frv. Hér virðist því verið að takast á um hrein arðsemissjónarmið annars vegar --- samanber sjónarmið fræðimannsins --- og byggðapólitísk sanngirnisrök hins vegar. Ég tel fullkomlega eðlilegt að um þessi sjónarmið sé deilt, hvort sem það er úti í þjóðfélaginu eða hér á Alþingi.
    Við kvennalistakonur höfum lagt til aðrar leiðir til að sætta þessi sjónarmið, nefnilega að tengja veiðiheimildir byggðarlögum sem ég tel mun vænlegri leið en hér er lögð til. Í stefnuskrá Kvennalistans er mælt með að sjútvrh. úthluti heildarafla ársins með tilliti til þjóðarhagkvæmni annars vegar og byggðasjónarmiða hins vegar. Við viljum skipta miðunum upp í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið og að grunnsjávarmiðin verði nýtt af íbúum nærliggjandi svæða og byggðarlaga. Ákvörðun um nýtingu grunnsjávarmiða verði síðan í höndum kjörinna fulltrúa byggðarlaga. Kannski er komið að þeim tímapunkti í þessari deilu um fiskveiðistjórnunina að hætt verði að miðstýra útfærslunni á stjórn fiskveiða og að komið sé að því að færa þessar útfærsluleiðir út til byggðarlaganna.
    Hvort það skipulag sem hér er lagt til eða róðrardagakerfið, sem hv. þm. Einar Guðfinnsson virðist mæla með, reynist eins farsælt og það kerfi sem Kvennalistinn mælir með, verður að koma í ljós og ég vona svo sannarlega að þessi mál fái ítarlega og góða umfjöllun í sjútvn. þingsins.
    Ef sú málamiðlun sem stjórnarflokkarnir hafa náð er nægileg til þess að fullnægja réttlætiskennd smábátaeigenda út um allt land þá er það vel. En ég leyfi mér stórlega að efast um að svo sé og tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að það voru yfirboð í gangi til smábátaeigenda fyrir kosningar bæði á Reykjanesi og á Vestfjörðum og það voru yfirboð miðað við þau frv. sem hér liggja fyrir. En eitt er ljóst að þessi frv. fullnægja ekki minni réttlætiskennd sem fulltrúa almennings í landinu. Hvernig ætla stjórnvöld að tryggja það að áðurnefnd 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sé virk? Það er nefnilega eitt að hafa skilvirkt kerfi sem stuðlar að mikilli framleiðni og annað að ákveða hvert ágóðinn rennur. Það er til lítils að hafa hagkvæmt kerfi ef arðurinn rennur í vasa örfárra fjölskyldna í landinu.
    Það gengur einfaldlega ekki lengur að stefnu íslenskra stjórnvalda í fiskveiðistjórnunarmálum sé stýrt af LÍÚ. Það er mál að linni. Ég hef trú á því að þessi lög eigi eftir að koma hér aftur og aftur inn í þingið á komandi kjörtímabili þangað til meiri sátt næst um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar en ríkir nú.