Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:09:38 (415)


[16:09]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Skjótt skipast veður í lofti. Nú hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. haldið afar góðar ræður í röð og í máli beggja kemur fram ósk til hv. sjútvn. um að hún reyni nú þegar við vinnslu frv. að athuga hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um það að róðrardagakerfinu, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson reifaði mjög glögglega í sinni jómfrúrræðu áðan, verði komið á nú þegar. Ég skildi ræður beggja þannig að það væri verið að óska eftir því að kannað yrði hvort ekki væri hægt að koma róðrardagakerfinu á þannig að það hæfist þegar í byrjun næsta fiskveiðiárs, þ.e. í september. Ég tek undir þetta. Ég er hlynntur þessu kerfi og ég tek undir þær óskir sem hér koma fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og Einari Oddi Kristjánssyni um að sjútvn. reyni að ná samstöðu um það að hrinda þessu kerfi í framkvæmd þegar á næsta fiskveiðiári. Mér þykja þetta góð tíðindi sem hér koma fram.