Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:07:20 (466)


[15:07]

     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og fram kom í andsvari mínu er málið enn til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Ég tel eðlilegt að haft sé samráð og samvinna við námsmenn í þessu máli. Um einstök efnisatriði í málinu ætla ég ekki að tjá mig á þessu stigi. Ég legg á það áherslu að allar breytingar á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna verði ákvarðaðar með hliðsjón af kostnaði þannig að sjóðnum verði ekki stefnt í sama voða og var þegar hv. fyrirspyrjandi stjórnaði málefnum hans. Þann arf glímdi síðasta ríkisstjórn við til þess að bjarga sjóðnum frá greiðsluþroti eins og kunnugt er og ég vil ekki að sjóðnum verði stefnt í sama voða og hann var í þegar við tókum á málum hans 1992.