Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:18:53 (471)


[15:18]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. flutningsmanni þessa frv. að í nýliðinni kosningabaráttu komu málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna mjög oft til umræðu enda um mikilvægt mál að ræða fyrir alla landsmenn, ekki aðeins námsmenn sjálfa. Á það vil ég leggja mikla áherslu því að Lánasjóður ísl. námsmanna

er eitt mikilvægasta tækið sem við höfum til að stuðla að jafnrétti til náms sem að mínu mati er einn af hornsteinum lýðræðisins.
    Í stefnuskrá Kvennalistans er kveðið skýrt á um það að við viljum að námslán dugi til framfærslu, að Lánasjóður ísl. námsmanna tryggi jafnrétti til náms og að endurgreiðslur námslána verði viðráðanlegar. Við kvennalistakonur getum því tekið heils hugar undir það sjónarmið að það beri að endurskoða lögin um lánasjóðinn í heild sinni. Það frv. sem hér er til umræðu tekur aðeins á hluta vandans. Þá breytingu sem hér er lögð til um að taka upp samtímagreiðslur námslána á ný tel ég verulega til bóta og mjög mikilvæga því það er fullkomlega óeðlilegt að námsmenn þurfi að fjármagna sína framfærslu með bankalánum þangað til að þeir fá námslánin. Það sem mér finnst hins vegar að þessu frv. er að ekkert skilyrði á að vera fyrir því að lán verði veitt jafnvel í mörg ár nema námsárangur á fyrsta missiri. Ég get ekki túlkað þenna texta öðruvísi því að lagt er til að fyrstu þrjár málsgreinar 6. gr. núgildandi laga falli brott en þar segir í 3. mgr.:
    ,,Námslán skal ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti.``
    Ég er alls ekki viss um að það sé ætlan flutningsmanns að hafa lögin svona víð en ég get ekki túlkað þennan frumvarpstexta öðruvísi. Ég tel það fullkomlega eðlilegt að lán sé eingöngu veitt í samræmi við námsframvindu, að hún sé einhver, eða að hún sé eðlileg og að vissulega megi skilgreina eðlilega námsframvindu á mismunandi hátt. En það sem hér er lögð megináhersla á, að taka upp samtímagreiðslur, er mjög mikilvægt og það vil ég styðja. Því vil ég gjarnan spyrja hv. flutningsmann hvort það sé ætlan hans með frv. að taka í burt öll skilyrði um námsframvindu nema á fyrsta missiri fyrsta árs.
    Að lokum vil ég fagna að það stendur til samkvæmt upplýsingum frá menntmrh. að endurskoða lögin um lánasjóðinn á næstunni og það er von mín að stjórnarandstaðan fái tækifæri til að koma að því máli og að þessi vinna fái forgang því um mjög brýnt mál er að ræða. Menntamálin eiga að fá nokkurn forgang á komandi kjörtímabili sem vissulega er fagnaðarefni og löngu tímabært og lánasjóðurinn er þar einn mjög mikilvægur hlekkur.