Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:24:00 (472)


[15:24]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. flutningsmanni að það er ástæða til að rifja upp hvað menn sögðu að því er varðaði lánsaðstoð við námsmenn í nýliðinni kosningabaráttu. Hv. þm. Svavar Gestsson, flutningsmaður þessa máls, sem er að vísu gamalt mál, gerði atrennu að því; veittist jafnframt að fyrrv. ríkisstjórn fyrir aðhaldsaðgerðir hennar í þessu máli. Hann hélt því reyndar fram að það hefði engin nauður rekið til neinna aðhaldsaðgerða, fjárhagsstaða sjóðsins hefði verið hin prýðilegasta og engin ástæða til slíkra aðgerða og reyndar væri það svo að fjárhagsstaðan væri lakari nú en áður var.
    Nú vill svo til að hv. þm. er að sönnu ekki óskrifað blað í þessum málum. Og það er líka ástæða til að rifja upp um leið og menn rifja upp kosningaloforðin hvað stóð á því óskrifaða blaði. Það er staðreynd að í tíð ríkisstjórnarinnar 1988--1991 var rýmkað um réttindi lánasjóðsins og í samræmi við það var aukin fjárþörf. En gallinn var sá að þessu var ekki fylgt eftir með auknum framlögum. Á sama tíma og fjárþörfin fór vaxandi fóru fjárframlögin minnkandi. Lánasjóðnum var þess vegna vísað í vaxandi mæli á dýr erlend skammtímalán á háum vöxtum. Það fé var síðan lánað út til langs tíma á engum vöxtum. Það var alveg fyrirsjáanlegt að ef þetta héldi áfram þá mundi Lánasjóður ísl. námsmanna komast í þrot og verða að engu gagni til að sinna hlutverki sínu, að tryggja þessa námsaðstoð og meint jafnrétti til náms á næstu árum. Það er þess vegna staðreynd að aðhaldsaðgerða var þörf.
    Til þeirra aðhaldsaðgerða var gripið á fyrri hluta sl. kjörtímabils og það sem gerðist í kosningabaráttunni var að ýmsir urðu til þess að lýsa því yfir að þeir væru reiðubúnir til að endurskoða ákveðin ákvæði í ljósi fenginnar reynslu. Það sem sagt var af hálfu Alþfl. í þessu máli, svo það verði nú endurtekið hér með skýrum og skilmerkilegum hætti, var tvennt:
    Í fyrsta lagi. Við sögðum að við værum reiðubúnir til þess að endurskoða gildandi ákvæði um eftirágreiðslur námslána að því skilyrði fullnægðu að það ætti við að loknu fyrsta námsári, eftir að menn hefðu sannað sig í námi á fyrsta námsári með því að standa undir þeim kröfum um námsframvindu sem gerðar eru. Og það stóð aldrei til að hverfa frá námsframvindukröfunum. Þegar menn andmæltu því, t.d. af hálfu hæstv. fjmrh. eða stjórnar lánasjóðsins, og sögðu að þetta mundi hafa í för með sér stóraukin útgjöld þá vefengdum við þær forsendur vegna þess að þessi breyting, þessi skilyrta breyting, þ.e. að fenginni reynslu um námsframvindu fyrsta árs þýddi auðvitað að þar var haldið í aðhaldskerfi þannig að við mátum þær tölur um kostnaðarauka óraunsæjar og ekki réttar.
    Í annan stað var það spurningin um eftirágreiðslurnar. Það sem við sögðum í því efni var þetta: Frá því að þær reglur voru hertar hafa líka orðið ýmsar aðrar breytingar í þjóðfélaginu sem gera mönnum erfiðara fyrir að standa undir greiðslubyrði lána. Þar má nefna til bæði húsbréfakerfið og framkvæmd þess sem og auðvitað ýmsar aðrar aðstæður fólks í þjóðfélaginu á þrengingartímum. Við sögðum: Við erum þess vegna reiðubúnir til þess að fá hóp óháðra sérfróðra manna til að fara ofan í saumana á því máli og að endurskoða það í ljósi niðurstaðna slíkrar úttektar.
    Þetta tvennt var sagt og þetta tvennt viljum við standa við. Ég vek athygli á því að í þessu máli

er einungis vikið að samtímagreiðslunni og þá að loknu fyrsta missiri. Þar er gengið lengra en við lofuðum. Hins vegar er þarna ekki vikið að spurningunni um endurgreiðslu. Þess vegna er ástæða til að ætla að þetta mál verði aftur tekið upp á haustþingi og þá í ljósi þeirrar staðreyndar sem fram kom í máli hv. framsögumanns að fulltrúar allra flokka hafa gefið yfirlýsingar um breytingar í ljósi reynslunnar.
    Það á að sjálfsögðu við um annan stjórnarflokkinn, Framsfl. Það er reyndar mjög minnisstætt úr kosningabaráttunni að það gekk enginn eins framarla í loforðum og stóryrðum um það hversu sjálfsagt það væri að kippa þessu í liðinn, hversu mikið mannréttindamál það væri, og hvílík afturhaldssjónarmið það væru sem hefðu ráðið því að grípa til aðhaldsaðgerðanna. Sá hv. þm. situr nú hér í grænum fötum, hæstv. viðskrh., vistvænn mjög, og er komið að því að hann standi nú við stóru orðin. Því ég hygg að ef orðtekið væri orðasafn hans í þessum málaflokki á liðnum árum þá mundi það verða ansi þykkt og ansi þykkt smurt. Honum verður haldið við efnið.
    Síðan er það að í kosningabaráttunni gerðist það að sá trúnaðarmaður Sjálfstfl., sem hvað mest hefur um þessi mál fjallað í reynd í verki, borið ábyrgð á framkvæmdinni sem formaður stjórnar lánasjóðsins á breytingunum, gekk fetinu framar en hæstv. fjmrh. í sínum yfirlýsingum og kvaðst aðspurður á fjölmennum fundi með námsmönnum ekki vera að lýsa persónulegum skoðunum sínum heldur talaði hann í nafni flokksins. Það er því mikill vilji til að líta á þessar breytingar. Í því felast af hálfu okkar alþýðuflokksmanna engin yfirboð eða ábyrgðarleysi. Það var nauðsynlegt að grípa til aðhaldsaðgerðanna. Við höldum því fram að ef þeim er haldið á fyrsta námsárinu mjög stranglega og ekki er fallið frá eðlilegum kröfum um námsframvindu þá séu slíkar tillögur ekki til þess fallnar að stofna fjárhagsgrundvelli sjóðsins í hættu.
    Að því er varðar endurgreiðsluhlutfallið og endurgreiðslureglurnar þá er afar eðlilegt í ljósi slíkrar löggjafar og reynslu á fjórum árum að það sé tekið til endurskoðunar. Þá verði ekki stuðst við tölur eingöngu frá stjórn lánasjóðsins eða embættismönnum í fjmrn. og menntmrn. heldur verði hlutlausir aðilar fengnir til þess.
    Herra forseti. Um þetta mál hefur oft og lengi verið deilt í þingsölum og utan og í íslenskri pólitík. En um eitt í því efni ættu menn væntanlega að geta orðið sammála um og það er þetta: Það er afar æskilegt að friður gæti skapast um grundvallarreglur og forsendur þessa námsaðstoðarkerfis. Allt sem gert er til þess að kippa fótunum undan því fjárhagslega er á kostnað komandi kynslóða ef menn spenna bogann of hátt; ef menn ætla að fjármagna þetta í núinu með erlendum skammtímalánum og háum vöxtum þá eru menn að slá sig til riddara eða afla sér vinsælda hjá þeim sem eru nú viðskiptavinir sjóðsins á kostnað þeirra sem eiga að verða það í framtíðinni. Það er ekki gæfuleg stefna. Menn eiga þess vegna að ganga fram í þessu máli út frá þeim sjónarmiðum að þetta námsaðstoðarkerfi geti staðið nokkurn veginn á eigin fótum.
    Það er jákvætt að samanburður sem gerður hefur verið á því við námsaðstoðarkerfi flestra annarra þjóða leiðir í ljós að þetta er hagstætt námsaðstoðarkefi ef það stenst fjárhagslega. Við eigum að reyna að skapa festu um fjárhagsgrundvöll kerfisins vegna þess að því aðeins að það verði gert kemur það að notum.
    Það er hins vegar alveg laukrétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að það er svo margt tilefnið eftir síðustu kosningabaráttu að spyrja spurningarinnar: Hvað er lýðræðið? Hver eru vinnubrögð lýðræðis og til hvers erum við hér? Vegna þess að orðasafnið, dálkmetrarnir af kosningaloforðum sem gefin voru ekki síst af hv. þm. Framsfl., ekki síst af þeim sem nú prýða ráðherrabekki voru ,,legíó``. Það á við um háspennt kosningaloforð, misvísandi eftir kjördæmum, í sjávarútvegsmálum og reynir nú á það þessa dagana, þessi dægrin, þessi missirin, hvort kjósendur standa uppi sem ginningarfífl, hafandi verið blekktir af ábyrgðarlausum frambjóðendum. Það á við í sjávarútvegsmálunum. Það á einnig við að því er varðar GATT-málið þar sem svo háttar til að tugþúsundir kjósenda kusu Sjálfstfl. í trausti þess að þeir væru að kjósa flokk sem gætti af sanngirni hagsmuna frjálslynds og umbótasinnaðs fólks sem einkum býr í þéttbýli og er launþegar.
    Reyndar má segja að fylgismenn Sjálfstfl., 45 þúsund eða þar um bil í Reykjavík og á Reykjanesi, hafi verið að kjósa sér þingmenn til þess að gæta hagsmuna síns fólks, þ.e. borgarbúa, neytenda, launþega í okkar þjóðfélagi. Enginn maður byggði upp þær væntingar að GATT-samkomulagið væri til þess fallið að lækka verðlag þegar í stað. En hitt er ljóst að ákvæði þess um lágmarksmarkaðsaðgang og spurningin um leiðir við útfærslu er spurning um það hvort menn ætla yfirleitt að festa í sessi einokunarkerfi sem er algjörlega stýrt af sjónarmiðum framleiðenda, skammtímasjónarmiðum þeirra eða hvort menn ætla að taka eitthvert sanngjarnt tillit til langtímahagsmuna og hagsmuna neytenda. Þessi dægrin standa menn á því prófi, allir þingmenn Sjálfstfl. sem kosnir voru í Reykjavík og á Reykjanesi --- og reyndar ný framsókn sem sló sig til riddara hér sem eitthvert nýtt afl. Nú er spurningin hvort gamla andlitið, andlit framsóknarkefisins, gömlu kerfiskarlanna, gamla einokunarkerfisins, verður hið rétta andlit. En þá er niðurstaðan þessi: Að kjósendur hafi verið blekktir í stórum stíl til fylgilags við þessa flokka og að þessi ríkisstjórn sé þar af leiðandi mynduð á grundvelli svikinna kosningaloforða eða á grundvelli pólitískra blekkinga sem ekki er sæmandi. Það er mjög afdrifaríkt og lærdómsríkt fyrir kjósendur að hugleiða þetta og hugleiða það sem viturlega hefur verið sagt, reyndar af frambjóðanda Sjálfstfl. á Vestfjörðum, að menn kjósa ekki eftir á.