Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 14:08:40 (489)


[14:08]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin og vildi bara segja það að mér kemur í hug að ég gæti átt það til að nefna það við hæstv. forseta utan fundar að komið verði á einhverjum reglum varðandi það hvernig farið er með mál sem lögð eru hér fram t.d. þannig að einhverjir aðilar eða aðili verði fenginn til að lesa yfir öll frv. sem koma hér inn út frá málfarssjónarmiði, m.a. stjórnarfrv., þannig að það sé tryggilega á hlutum haldið með þeim hætti að þau séu örugglega á eins góðu íslensku máli og kostur er. Ég gæti átt það til eins og ég segi að nefna það við hæstv. forseta utan þessa fundar eða jafnvel að skrifa honum bréf. Vegna þess að það er ekki burðugt í rauninni að vera undir tímapressu, eins og við erum víst núna í þessu máli, ég veit ekkert um það, og að þurfa að flæma það í gegnum þingið á einhverri meira og minna lítið skiljanlegri hrárri þýðingu, ekki einu sinni stofnanaíslensku vegna þess að hún er oft skiljanleg, þannig að það sé útilokað að skilja í raun og veru textann án þess að snara honum á einhverja aðra tungu. Það var sagt um ýmsa forvera mína í pólitík sem höfðu lært í Þýskalandi að það væri útilokað að skilja greinar eftir þá nema kunna að þýða þær fyrst á þýsku. Ég prófaði þetta og þetta var rétt að það var mikið betra að svara þeim á þýsku og átta sig þannig á efni þeirra. Mér finnst að við getum ekki látið bjóða okkur þannig vinnubrögð að við verðum að snara þessu á erlendar tungur til að botna í því sem fer í gegnum þessa stofnun.