Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:21:23 (509)


[17:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er til marks um það að hæstv. sjútvrh. veit að hann hefur vondan málstað að verja í þessu máli og fleiri viðræðum við Norðmenn að hann skuli koma hér upp með þessa ræðu, þessa ásakana- og dylgjuræðu, þegar bæði ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum ekki tækifæri til að svara honum nema í stuttu andsvari. Það eitt er víst að þær fullyrðingar, sem hér voru settar fram af hálfu hæstv. sjútvrh., verða ekki til þess að greiða fyrir meðferð málsins í þinginu án þess að ítarlega verði ofan í það farið. Ræða hæstv. sjútvrh. skapar líka tilefni til þess að rifja upp, þó við höfum ekki gert það hingað til af tillitssemi við hagsmuni Íslendinga, afstöðu og yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. gagnvart hagsmunamálum Íslands í samskiptum við Noreg.
    Hvaða hæstv. ráðherra var það sem mæltist til þess að Íslendingar færu ekki að veiða í Smugunni á sínum tíma? Hæstv. sjútvrh. Hvaða hæstv. ráðherra var stoppaður af fyrrv. utanrrh. og hæstv. forsrh. í þeirri afstöðu sem hann hafði í upphafi þar sem hann vildi taka slíkt tilliti til kröfugerðar Norðmanna að það skaðaði beinlínis hagsmuni Íslendinga? Hæstv. núv. sjútvrh. Hvaða sjútvrh. sagði ekki orð nema að spyrja hvar kósettið væri samkvæmt opinberum frásögnum af viðræðufundinum sem fór fram milli Íslendinga og Norðmanna í þeirri hagsmunagæslu annar en hæstv. sjútvrh.?
    Hver hefur verið stefna hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar varðandi kröfugerð Íslendinga í veiðum Íslendinga á hagsmunasvæðum þar sem Norðmenn hafa talið sig hafa einhvern rétt, bæði í síldinni og öðrum stofnum? Hefur verið eitthvert samhengi í þeirri línu sem hæstv. sjútvrh. hefur fylgt í þeim málum á sl. tveimur til þremur árum? Svarið er nei. Ásakanir hæstv. sjútvrh. í ræðunni áðan, langt út fyrir efnisumræðu þessa máls, eru auðviðað með þeim hætti að það verður alveg óhjákvæmilegt í meðferð málsins að taka rækilega til umfjöllunar afstöðu, framgöngu og viðhorf hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, varðandi viðræður Íslendinga og Norðmanna á meðan hann hefur gegnt embætti.