Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 19:55:00 (533)


[19:55]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég vildi byrja á því að spyrja hvort hv. þm. Kristján Pálsson er í húsi og ef svo er hvort hægt væri að fá flutning á honum hingað inn í þingsal.
    Herra forseti. Þessi umræða hefur nú staðið með talsvert daufara móti af hálfu hv. stjórnarliða en ég taldi. Í þeirri fyrri umræðu sem hérna fór fram má heita, með örfáum undantekningum þó, að hver einasti stjórnarliði sem talaði hefði gefið fyrirheit um það að á milli umræðna yrði reynt að breyta frv. sem liggur fyrir frá hæstv. sjútvrh. í þá veru að þeir bátar sem voru örlítið til umræðu í andsvörum millum tveggja síðustu ræðumanna fengju aukinn slaka. Ég minni sérstaklega á afskaplega góða ræðu hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni sem nánast tætti með mikilli rökfimi í sundur lið fyrir lið flest það í frv. ríkisstjórnarinnar sem lýtur að takmörkun á veiðum krókabáta. Ekkert af þessu tel ég að hafi séð ljós í þeim breytingartillögum sem fæddust eftir umfjöllun nefndarinnar.
    Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Kristján Pálsson gægðist inn um dyr. Hann er einn þeirra manna sem höfðu ýmsar yfirlýsingar uppi fyrir síðustu kosningar en hann var þó ekki einn af þeim sem hafði hvað mest uppi af gylliboðum. Ýmsar þær greinar sem ég hef séð eftir hv. þm. bera þess hins vegar merki að hann er skarpskyggn og glöggskyggn á þá menn sem hann er nú með í ríkisstjórn.
    Herra forseti. Þegar hv. þm. Kristján Pálsson vaknaði einn morguninn og renndi augum yfir blaðið Víkurfréttir, þá sá hann þar stefnu hv. núv. þingmanna Framsfl. á Suðurnesjum. Stefnu sem hann hafði reyndar margoft lent í rökræðum um á fundum og hann brá sér á bak Pegasusi og skrifaði grein. Og þessi ágæta grein heitir ,,Framsóknarmenn á Reykjanesi í blekkingarleik``. Ég vil hrósa hv. þm. fyrir hvað hann er glöggur því að flest af því sem hann segir þar get ég tekið undir. Þar segir m.a. í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,Það er ótrúlegt að sá flokkur sem einna mestan þátt á í niðurnjörvun á kvótakerfinu skuli leyfa

sér að leggja fram mismunandi tillögur í sjávarútvegsmálum í hinum ýmsu kjördæmum málsins.`` Hér á hv. þm. auðvitað við þær tillögur sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hv. þm. Hjálmar Árnason riðu á út alla kosningabaráttuna og vöktu mikla athygli. Síðan segir, herra forseti:
    ,,Tillögur þeirra framsóknarmanna á Reykjanesi eru hiklaust lagðar fram á fundum í nafni flokksins og þar sagt fullum fetum að formaðurinn hafi samþykkt þær. Síðan kemur Halldór Ásgrímsson fram á sjónarsviðið og segir tillögurnar ekki samrýmast sínum hugmyndum. Virðist sú yfirlýsing ekki skipta frambjóðendur flokksins í Reykjanesi nokkru máli og áfram er rullan flutt um breytta stefnu Framsfl. í sjávarútvegsmálum.``
    Svo heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þvílíkur skollaleikur. Í lýðræðisríkjum er þetta kallað lýðskrum og blekkingarleikur af verstu gerð.``
    Herra forseti. Ég vildi gjarnan úr því að hv. þm. Kristján Pálsson sýnir okkur þann sóma að vera við þessa umræðu andstætt ýmsum stjórnarliðum af Suðurnesjum að hann tjáði þingheimi hér á eftir í ræðu þá skoðun sem hann hefur á efndum þeirra loforða sem hann af svona mikilli skarpskyggni skilgreindi fyrir kosningar. Hann kallaði loforð þeirra manna sem hann situr nú með í ríkisstjórn blekkingarleik, skollaleik, lýðskrum.
    Herra forseti. Nú liggur það fyrir hvað það er sem þeir hv. þm. af Suðurnesjum ætla sér að samþykkja eftir meðhöndlun sjútvn. Af því að þessi grein hv. þm. Kristjáns Pálssonar gefur tilefni til að ætla að hann sé með allra skörpustu mönnum í þessum þingsal þá vildi ég spyrja hann hvort hann sé ekki enn þá sama sinnis og fyrir kosningar. Ef hann er ekki enn þá sama sinnis þá vildi ég gjarnan leita liðsinnis hans við að skýra fyrir mér hvað það er í þeim frumvörpum og tillögum sem nú koma frá hv. þm. meiri hlutans í sjútvn. sem er í samræmi við þau gífurlegu yfirboð sem hv. þm. Framsfl. á Suðurnesjum lýstu yfir fyrir kosningar. Ég veit að hv. þm. er hjálpsamur maður. Ég veit að hann mun veita mér þessa aðstoð. (Gripið fram í.)
    Herra forseti. Hv. þm. Egill Jónsson er hissa á því að ég skuli leita liðsinnis glöggra manna til þess að skilja hugsanir Framsfl. Ég sé það á öllu látæði, fasi og frammíköllum hv. þm. Egils Jónssonar að hann telur að það sé borin von að nokkur maður finnist á jarðríki sem geti skilið það sem býr innra með framsóknarmönnum. Herra forseti. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni en vil þó gera þann fyrirvara að ég þekki ekki framsóknarmenn jafn vel og hv. þm. Egill Jónsson.
    Herra forseti. Það gladdi mig óumræðilega að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson stakk hér inn nefi en er jafnskjótt farinn. Ég tók líka eftir því að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson er ekki lengur á meðal vor í þessum þingsal. Þess er þó að vænta að hann snúi einhvern tíma til baka og þá er kominn í þingsalinn sá maður sem ég vildi gjarnan eiga orðastað við með leyfi hæstv. forseta.
    Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er yfirlýstur andstæðingur kvótakerfisins. Fáir menn hafa af jafnmikilli rökfimi bent á ágalla kvótakerfisins og á veikum stundum hafa jafnvel þeir sem eru traustir á velli eins og hv. þm. verið að falli komnir fyrir þeim rökum. Hv. þm. lýsti því yfir í kosningabaráttunni fyrir sína hönd og annarra vandamanna í Sjálfstfl. á Vestfjörðum að hann væri algerlega andstæður þeirri stefnu sem hæstv. sjútvrh. hefur uppi í sjávarútvegsmálum og hann hafnaði henni fyrir hönd allra manna á listanum. Nú hefur það komið fram, herra forseti, í fyrri umræðu um þetta mál að þeir eru skjótir að skipta um skoðun, Einararnir, hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum, og bogna þá jafnvel þau tré sem menn töldu traustust áður. Lengi er þó von í einum og í DV mánudaginn 3. apríl er það haft eftir hv. þm. að hann hafni algerlega stefnu Þorsteins Pálssonar sjútvrh.
    Ég tel nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu hvort þessi afstaða hv. þm. sé breytt. Styður hv. þm. stefnu hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar? Ef hann gerir það þá vildi ég gjarnan fá að sjá rökin fyrir því, einkum og sér í lagi tína fram það sem er að finna í frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar sem nú eru til umfjöllunar sem gera það að verkum að hann treystir sér eftir allt það sem hann hefur áður sagt við sína kjósendur til þess að styðja þau. Úr því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er á mælendaskrá þá mun hann væntanlega lýsa afstöðu sinni til frumvarpanna. Sérstaklega tel ég mikinn feng sökum þeirrar reynslu sem hv. þm. býr yfir að hann skýri út fyrir okkur, ef hann ætlar að lýsa yfir stuðningi við frv., hvernig hann getur rökstutt stuðning við þá grein tillagnanna sem lýtur að breytingum á krókakerfinu. Hvernig hann kemur því heim og saman við fyrri yfirlýsingar sínar.
    Herra forseti. Ég er ekki einn af þeim mönnum sem leggja það í vana sinn að tefja fyrir afgreiðslu þingmála og ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Mig langar aðeins að drepa á þeim frumvörpum sem við erum að véla hér um. Hv. þm. stjórnarandstöðunnar og sjútvn. hafa gert glögga grein fyrir megindráttum þeirrar afstöðu sem minni hlutinn hefur og lýst þeim tillögum sem við flytjum til breytinga á frv.
    Herra forseti. Ég hef áður í þessum ræðustól lýst því yfir að mér þykir í lagi að með einhverjum hætti sé reynt að stemma stigu við aukinni afkastagetu smábáta. Eins og þingheimur veit þá hafa smábátamenn sjálfir tekið undir nauðsyn þess. Ég verð hins vegar að segja það í fullri vinsemd, herra forseti, að mér finnst að það sé tekið ansi grimmúðlega á krókaflotanum í 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég á erfitt með að fallast á það að um svo brattan úreldingarstuðul sé að ræða, þ.e. að í hvert skipti sem menn ætla að úrelda bát, þá þurfi þeir að kaupa annan bát eða jafnmörg tonn og þeir ætla að úrelda. Herra forseti. Þetta mun væntanlega leiða til þess að verð á krókabátum mun hækka. Það kann að vera að það sé jákvætt í sjálfu sér en það er líklegt að fáir verði til þess að selja vegna þess að hæstv. sjútvrh. hefur gefið mönnum góðar væntingar um það að árferði fari nú batnandi í sjónum og innan skamms, raunar svo fljótt sem fiskveiðiárið 1997--1998 muni kvóti aukast. Það er því líklegt að menn muni reyna að halda sínum bátum. Afleiðingin verður sú að annað tveggja mun gerast, að á tiltölulega skömmum tíma, kannski 11--15 árum mun krókabátum fækka um 50% eða meðalstærð krókabátanna mun minnka um helming. Ég lít svo á, herra forseti, að með 1. gr. frv. sé í rauninni verið að löggilda aðferð til þess að eyða krókaflotanum. Ég er alveg sannfærður um að fæstir hv. þm. taka undir það. Ég er jafnsannfærður um það að hæstv. sjútvrh. lítur á það sem jákvæða þróun og ég er fullviss um það að sá sem stundum er kallaður skuggaráðherra í sjútvrh., þ.e. Kristján Ragnarsson, forstjóri LÍÚ, mun hoppa hæð sína af fögnuði þegar þingheimur samþykkir þetta að lokum vegna þess að með þessu er loksins náð fram því langþráða og margyfirlýsta markmiði LÍÚ og stórútgerðarinnar að skrúfa fyrir krókaveiðar. Þeir hafa vitaskuld sín rök. Ég er þeim fullkomlega andstæður.
    Herra forseti. Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er jafnframt að finna ákvæði sem bendir til þess að á næstu missirum eigi að vinda sér í það verk að breyta reglum og herða reglur um úreldingar annarra skipa sem eru innan aflamarkskerfisins. Í nefndaráliti minni hluta sjútvn. er lagst gegn slíkum fyrirætlunum. Það er hins vegar vert að geta þess að sú breyting sem meiri hlutinn gerir við 1. gr. er framfaraspor sem vert er að styðja. En ég verð, herra forseti, þó það kunni að hljóma skrýtilega úr mínum munni eftir að hafa undið mér í Kristján Ragnarsson, forstjóra LÍÚ, að taka undir með honum að því leyti til að ég held ekki að hið opinbera, framkvæmdarvaldið, eigi að vera að vasast með sínar miðstýrðu hendur í aflamarksskipunum. Þau eiga að ráða því sjálf hvernig þau taka þann afla sem þeim er úthlutað. Ég vil líka taka undir það sem fram hefur komið hjá Kristjáni Ragnarssyni og LÍÚ að ef slík ákvæði hefðu verið í gildi, sem ýmsir í hópi hv. þingmanna stjórnarliðsins hafa verið að tala um, þá hefði sennilega aldrei orðið til neinn úthafsveiðifloti og við hefðum ekki í dag verið að sækja þann auð sem við öflum í Smugunni eða á útmiðum Reykjaneshryggjar.
    Herra forseti. Það er eitt smáatriði í frv. sem mér finnst í rauninni lýsa vel þeirri miðstýringaráráttu kvótasinnanna sem öllu vilja ráða og öllu stjórna úr ráðuneyti. Það er að finna í athugasemdum um 2. gr. á bls. 8 þar sem segir:
    ,,Er líklegt að nauðsynlegt verði í framtíðinni að binda rauðmagaveiðar tilteknum skilyrðum.``
    Ég spyr, herra forseti. Er það kannski líka á verkefnaskrá hæstv. ríkisstjórnar að setja kvóta á rauðmagann?
    Virðulegi forseti. Annað smáatriði sem er mér líka fleinn í holdi er að finna í 2. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Á banndögum eru allar veiðar óheimilar.`` Ég hef áður rakið í umræðunni að krókaveiðisjómenn, á Vestfjörðum raunar telja, að þeir hafi lagastoð til þess að fara á banndögum og veiða utankvótategundir. Ég rifja það upp, herra forseti, sérstaklega fyrir hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að þeir létu á þetta reyna rétt fyrir kosningar og þá var því fagnað af sumum þeirra sem nú eru í hópi hv. þingmanna Vestfjarðaliðsins, sjálfstæðismanna, og sumir þeirra tóku á móti flotanum þegar hann kom. Í rauninni fól það ekki í sér neitt annað gagnvart okkur sem sáum þennan gjörning í sjónvarpi en yfirlýsingu um stuðning við þetta. Þess vegna spyr ég: Hvernig í ósköpunum stendur á því að jafnvel svona smáatriði er enn þá að finna í frv.? Hafa hv. þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum enga sjálfsvirðingu? Láta þeir bjóða sér hvað sem er, meira að segja þetta litla smáatriði? Á ég eftir að líða þá nauð að horfa á þessa hv. þm., sem ég lít á sem félaga mína, jafnvel láta valtra yfir sig í svona smámáli?
    Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er skroppinn fram á gang og þolir ekki að heyra hér örfá vinsamleg orð sem tjá þær skoðanir sem ég hef á háttsemi hv. þm. Ég er dapur í bragði yfir því sem mér finnast vera brigð hans á sínum eigin yfirlýsingum, líka varðandi þetta örsmáa atriði þó litlu máli skipti auðvitað. Hins vegar óska ég honum til hamingju með það að honum er að takast að ná rauðmaganum undir kvótann líka.
    Herra forseti. Meginefni frv. er 2. gr. sem lýtur að því að herða kjör krókabáta. Eins og ég sagði áðan er ég þeirrar skoðunar að það eigi einhvern veginn að koma böndum á afkastagetu krókabáta, draga úr henni ef kleift er. Það verður að gera með mildum hætti. Ég tel að í frv. hæstv. sjútvrh. um Þróunarsjóðinn séu einmitt þessi mildu tök. Þar er gert ráð fyrir því að krókabátarnir séu settir undir Þróunarsjóðinn, borgi þróunarsjóðsgjald og þeir krókamenn sem vilja úrelda sína báta geti gert það. Það kæmi vel til greina að örva til þess með því að beita einhvers konar yfirstuðlum við úreldingarstyrkinn sjálfan til þess að hvetja þá til þess að úrelda. Væri það ekki miklu mildari aðferð og væri hún ekki líka í anda þess frjálslyndis sem hv. þingmenn Sjálfstfl., ekki síst á Vestfjörðum, hafa jafnan? Ég held að það eigi fremur að beita markaðslögmálum til þess að gera þetta í staðinn fyrir að framkvæmdarvaldið láti sinn þunga hramm ríða á þeim.
    Allt stafar þetta af því að krókabátarnir hafa veitt allt of mikinn þorsk að dómi margra. Nú er það alveg rétt að afkastageta krókaflotans hefur aukist. Er það þeim að kenna? Að einhverju leyti. Það er ekki síst að kenna þessum ágæta manni sem þarna er kominn í gættina, hæstv. sjútvrh., vegna þess að hann hefur brugðist í því að framfylgja lögunum um úreldingu. Hann hefur látið það viðgangast að þegar menn hafa úrelt bát og keypt sér nýjan þá hefur ekki verið fylgt því ákvæði laganna sem kveður skýrt á um að það á að vera sambærilegt skip. Menn hafa verið að taka eitthvert horn, eins og einn ónafngreindur hv. þm. sagði, einhvern gamlan bát uppi í flæðarmáli með úrelta bensínvél og kaupa nýtísku hraðfiskibát eins og

þeir segja hjá LÍÚ og í sjútvrn. Er hægt að álasa mönnum fyrir að gera svona þegar hæstv. sjútvrh., vafalaust af misskilinni góðsemi á sínum tíma, leyfir þetta? Ég held ekki. Ég held að það sé hægt að deila þessari sök á tvo aðila, þ.e. á framkvæmdarvaldið og væntanlega krókakarlana sjálfa. Þess vegna þykir mér ekki sanngjarnt að refsivöndurinn ríði bara á hrygglengju sjómannanna. Mér þykir það ekki sanngjarnt, herra forseti. (Gripið fram í.) Aftur og aftur, hv. þm. Egill Jónsson, lögðu krókakarlarnir sjálfir fram tillögu um að minnka flotann. Ég vek eftirtekt á því að árið 1987 lögðu þeir fram svohljóðandi tillögu, með leyfi forseta:
    ,,Settar verði sömu reglur um endurnýjun báta undir 10 brl. og eru á bátum yfir 10 brl. Fylgst verði grannt með því að lögunum verði framfylgt og á það einnig við um innflutning nýrra báta. En menn virðast eiga furðu auðvelt með slíkan innflutning.``
    Menn virðast eiga furðu auðvelt með slíkan innflutning. Hver er það sem greiddi fyrir þessum innflutningi og gerði hann furðu auðveldan? Hann heitir Þorsteinn Pálsson, hæstv. sjútvrh.
    Það sem ég er að draga fram hérna er það að á undanförnum árum og fyrir hartnær áratug voru það krókakarlar sjálfir sem lögðu fram tillögu að það yrði ekki jafnauðvelt og þá var að auka afkastagetu flotans. Við því var ekki orðið. Ef menn hefðu ekki daufheyrst við þessu þá þá er líklegt að við værum ekki í dag í þeim erfiða vanda sem við erum.
    Herra forseti. Því er haldið fram, með nokkrum rökum vafalaust, að þorskafli krókaflotans hafi aukist allt of mikið. Við í sjútvn. fengum í dag töflu um þessa þróun. Þar kemur vissulega fram að frá árinu 1984 hefur hlutfallslegur afli smábátaflotans af heildarveiði í þorski aukist úr 5,89 og árið 1994 var hann kominn upp í 25,56%. En það veiðist fleira í sjónum en þorskur einn. Og á þessum tíma hefur heildaraflamark í þorskígildum talið stóraukist. Menn hafa sótt á ný mið, menn hafa farið að veiða nýjar tegundir. Menn hafa stóraukið afla sinn í loðnu, rækju, blálöngu og úthafskarfa, djúpkarfa. Það mætti vafalaust tína til einhverjar fleiri tegundir. Þegar allt þetta er saman talið þá kemur í ljós að hlutur smábátaflotans hefur frá 1984 aukist frá því að vera 5,66% af heildaraflamarki í þorskígildum talið í einungis 8,67%. Þetta er ekki jafnmikil aukning og menn eru alltaf að básúna. Það vill hins vegar svo til að hún liggur að mestu leyti í þorski.
    Á þessu sama tímabili, herra forseti, hefur hins vegar smábátum fjölgað alveg gríðarlega, úr 893 árið 1984 í 1.523 árið 1994, þ.e. um 70,5%. En aflaaukningin er í engu samræmi við þessa miklu aukningu í fjölda smábáta. Og ég ítreka það aftur, herra forseti, að þessi aukning var gerleg vegna þess að stjórnvöld settu engar hömlur á hana.
    Herra forseti. Við lukum 1. umr. eftir snarpar ræður hjá mörgum hv. stjórnarliða, eftir glæsilega jómfrúrræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þar sem hann tók sterklega undir sjónarmið þeirra sem vildu setja upp róðrardagakerfi sem fyrst. Og það var erfitt að skilja mál hv. þm. öðruvísi en svo að hann sæi ekki mikla örðugleika á að gera það. Ég skildi mál hans þannig að jafnvel þó að einhverjar tæknilegar forsendur, sem felast í miklum áhuga hans á gervihnöttum, væru ekki fyrir hendi þá væri hægt að gera það með öðrum hætti. Herra forseti. Í umræðunni kom sama viðhorfið fram hjá mjög mörgum þingmönnum stjórnarliðsins og í sjútvn. var farið yfir þetta og þar kom fram að tækninni er í sjálfu sér ekkert áfátt. Það vantar tíma til þess að setja upp búnaðinn. Það kom fram hjá þeim sem hafa verið að þróa tæknina að þá skortir fjármagn. Það kom t.d. fram hjá þeim að hæstv. samgrh. hefði lofað fjármagni á aðalfundi Slysavarnafélagsins í maí í fyrra. Það var ekkert gert úr því. Ef hæstv. samgrh. hefði staðið við það sem hann lofaði væru engir annmarkar á því að setja upp það tæknivædda fjareftirlit sem margir telja eiginlega forsendu þess að setja strax á róðrardagakerfi.
    Það kom hins vegar fram, herra forseti, í umfjöllun nefndarinnar að það er hægur vandi að setja upp þetta eftirlit með handvirkum hætti með því að láta löggilta vigtarmenn og hafnarverði sinna því. Gegn þessu töldu menn einkum að það væri kannski auðvelt að svindla á kerfinu. Og hvaða kerfi er ekki hægt að svindla á í dag? Ég verð að segja það, herra forseti, að ég sé ekkert sem kemur í veg fyrir að það sé hægt að fara í róðrardagakerfið. Það liggur fyrir a.m.k. í orði, það vilja nánast allir þeir hv. þm. stjórnarliðsins sem hér taka stundum til máls um sjávarútveg að það kerfi verði sett upp sem fyrst. Þess vegna verð ég að lýsa því með nokkurri hryggð, herra forseti, að ég tel að þetta sé sýndarmennska, blekkingaleikur og gylliboð, svo ég noti þau orð sem hv. þm. Kristján Pálsson notaði um stefnu Framsfl. á Reykjanesi. Ég tel að það megi nota sömu orðin yfir það þegar hv. þm. ætla í kvöld eða á morgun að fara að samþykkja tillögu sem felur það í sér að hæstv. sjútvrh. er réttur óútfylltur tékki, honum er veitt heimild til þess að ráða því sjálfur hvenær róðrardagakerfið verður sett upp vegna þess að það er hann sem á að meta hvenær tæknilegar forsendur eru til þess og það er líka hann sem á að meta hvenær fjárhagslegar forsendur eru fyrir því.
    Nú hefur ekkert komið fram, hvorki hjá meiri hlutanum né hæstv. sjútvrh. hvaða fjárhagslegu forsendur t.d er verið að tala um. Er verið að tala um kostnað ríkisins? Er verið að tala um kostnað krókakarlanna eða skipanna? Eru það einhver sérstök mörk sem menn ætla að reyna að vinna sig niður fyrir? Hvað er það? Svona hlutir hefðu þurft að koma fram í umfjöllun nefndarinnar en, herra forseti, það vannst enginn tími til þess. Það fór nánast engin efnisleg umræða fram. Ég er í sjálfu sér ekkert að ásaka meiri hlutann fyrir það. Kannski var ég bara sá bjáni að óska ekki eftir því að fá nánari útlistun á nákvæmlega þessu.

    Það kom hins vegar fram hjá nokkrum þeim sérfræðingum sem voru kallaðir á fund nefndarinnar, að verðið á þessu lækkar óðfluga og tæknin er fyrir hendi. Tæknilega ætti að vera hægt að ljúka þessu fyrir upphaf þarnæsta fiskveiðiárs. Hvað hefur gerst síðan? Mér sýnist að hv. þm. stjórnarliðsins sem hafa lofað hátt og í hljóði gildi og gæði róðrardagakerfisins ætli allir að ganga á bak þeirra yfirlýsinga sem þeir hafa gefið í kosningabaráttu og hér í þessum sal og annars staðar og samþykkja á morgun frv. sem gerir ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh. hafi þetta í hendi sér þó að það sé alveg klárt að það er hægt að koma á kerfinu nú þegar. Og svo þegar hæstv. sjútvrh. metur það e.t.v. þannig að rétt sé að koma á róðrardagakerfinu, ef stoltið skyldi nú aftur koma upp í hálsinn á hv. þm. sem eru að borða það á þessu kvöldi, sitt eigið stolt, kannski mundu þeir veita honum nægan þrýsting til þess að einhvern tímann á kjörtímabilinu tæki hann þetta upp.
    Það hefur ýmislegt gerst, herra forseti. T.d. hefur það gerst að krókakarlar standa frammi fyrir því vali að stunda veiðar með hertum banndögum, með viðbótarbanndögum eða fara eftir kvóta. Það er líklegt að þegar menn standa andspænis slíkum afarkostum sem nánast fela í sér nauðungarflutning inn í kvótakerfið fyrir suma þar sem þvingunar- og þumalskrúfan er hert banndagakerfi, þá munu ákveðnir aðilar fara þangað. Hverjir munu það vera? Það munu vera þeir sem hafa dágóða aflareynslu. Ekki þeir sem síðustu árin eða síðustu mánuði hafa verið að fjárfesta í nýjum bátum út á loforð hv. þingmanna. Það eru þeir sem hafa bærilega aflareynslu. Og ef maður reynir að horfa yfir sviðið og athuga hverjir það eru sem eru líklegastir til þess að fara þarna inn, þá eru það líklega þeir sem hafa þorskkvóta yfir 30 tonnum, 24 tonnum af óslægðum þorski. Hvað eru þeir margir? Þeir eru 256. Hvað hafa þeir mikinn part af samanlögðum aflanum sem krókaflotinn má veiða samkvæmt þessu kerfi? 56%, í kringum 11 þúsund tonn. Afgangurinn, 824 bátar, verða að slást um þau 10 þúsund tonn sem eru eftir með hertu banndagakerfi. Og hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað stórtherta sókn. Það þýðir stóraukna hættu á slysum. Og ég veit að það er ekki það sem hv. þm. stjórnarliðsins vilja. Það er allt annað. Það voru einmitt rök hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að kerfið sem hann vildi koma upp drægi úr slysahættu. Ætlar hv. þm. þá að fara að samþykkja annars konar kerfi? Ætla aðrir hv. þm. að gera það? Ég veit að þeir hafa ekki viljann til þess og ég segi að það eru forsendur til þess að taka upp róðrardagakerfið með öðrum hætti.
    Ég vek líka eftirtekt á því, herra forseti, að það er líklegt að margir einstaklingar hafi fjárfest miklar upphæðir í nýjum bátum sem hafa litla aflareynslu. Hvað verður um þá? Það var úttekt í Morgunblaðinu á þessu máli og þar kom í ljós að a.m.k. einhverjir munu einfaldlega verða gjaldþrota, þeir munu einfaldlega fara á vonarvöl.
    Herra forseti. Það hefur komið fram í skjali sem sjútvn. barst frá Landssambandi smábátaeigenda að það væri líklegt að allt að 400--450 sjómenn mundu missa atvinnuna ef þessar breytingar ná fram að ganga. Kostnaður ríkissjóðs af því þegar stuðst er við tölur Þjóðhagsstofnunar er í kringum 600 millj. á ári. Þetta hlýtur að skipta máli. Það hlýtur líka að skipta máli, herra forseti, sá afli sem krókabátarnir bera á land. Það er verðmætasta hráefnið, það er besta hráefnið, það er ferskasta hráefnið og það er einmitt þetta hráefni sem í hinum dreifðu byggðum stendur undir því sem ég kalla virka byggðastefnu. Ég kalla það virka byggðastefnu að reyna að efla krókaútgerðina. Gervallir Suðurfirðir, byggðarlög á Austurlandi, Grímsey, ég gæti haldið áfram, þau standa og falla með krókaveiðum og ég ber nokkurn kvíðboga fyrir afdrifum þessara byggðarlaga.
    Herra forseti. Bráðabirgðaákvæði I í því frv. sem hér liggur fyrir er mjög til góða og ég styð það. Það er rétt sem hv. þm. Magnús Stefánsson sagði hér áðan og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur áður rakið að auðvitað er þarna um að ræða skref í átt til efnda á þeim góðu orðum sem féllu í kosningabaráttunni. Það má deila um hvort það er nógu stórt. Ég tel það ekki nógu stórt, ég viðurkenni það, að því er varðar þann hóp flotans sem sennilega er verst staddur, en það er verið að gera þarna nokkra bót á.
    Ég lýsti því hér áður, herra forseti, að mér er það nokkurt þorn í auga að sjá ísfisktogarana líka fá úr þessum potti. Mér var bent á það af hv. þm. Hjálmari Árnasyni að hagur þeirra væri ekki mjög góður, þeir væru reknir með 4--5% tapi. Það er alveg hárrétt. Það vill svo til, hv. þm. Hjálmar Árnason, að bátaflotinn á milli 20--200 tonn er rekinn með 8,5% tapi. Hann var rekinn með 5% tapi í fyrra. Hann þarf enn meir á þessu að halda. Og aðeins til þess að ég dveljist við þessi ummæli, af því að mér þótti ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar við 1. umr. málefnaleg og góð, öll sú mikla áhersla sem hann lagði á ísfisktogarana þegar hann var að verja einmitt þennan þátt þessa ákvæðis var í sjálfu sér jákvæð, en var ekki það sem hv. þm. sagði í kosningabaráttunni. Þar var nákvæmlega talað um það að færa afla frá ísfisktogurunum yfir á bátana. Það var talað um það að togaraflotinn ætti einungis að fá 15% af þorskkvóta, þetta er allt annað. Þótt að öðru leyti megi finna rök í því sem hv. þm. sagði um ísfisktogarana þá var það bara annað sem hann sagði fyrir kosningar. Áhersla hans og hv. þm. Framsfl. á Suðurnesjum lá á bátaflotanum. Þannig var það nú.
    Herra forseti. Í þessari umræðu hefur verið innt eftir því hvort einhver í hópi hv. þm. telji í lagi að auka aflamark í þorski til þess að leysa það tímabundna vandamál sem kæmi upp við breytingar úr því gallaða banndagakerfi sem við búum við núna yfir í róðrardagakerfið. Í grein eftir hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson sem birtist í Morgunblaðinu var því haldið fram að enginn þingmaður hefði vogað sér að taka sér slík orð í munn. Eigi að síður, herra forseti, gerði ég í það þeirri umræðu og ég ætla að gera það aftur núna. Það er svo að sem betur fer er góðæri í sjónum. Við höfum séð það undanfarin ár í mörgum tegundum og við sjáum það alveg sérstaklega í þorskinum. Það er engin tilviljun að það er aukin þorskgengd á grunnslóð og ég hef mínar ákveðnu skoðanir á því af hverju það stafar. Ég sagði við 1. umr. að ég teldi að það væri í lagi að slaka örlítið á þarna, mig minnir að ég hafi tekið það fram, herra forseti, að ég teldi að undir þann örlitla slaka féllu þau 10 þús. tonn sem hæstv. forsrh. að mínu áliti a.m.k. gaf krókamönnum á bátaflotanum sterkar væntingar um.
    Mig langar aðeins að skýra það í örlitlu máli af hverju ég tel að þetta sé hægt. Það er til skýrsla sem heitir ,,Hagkvæm nýting auðlinda``. Sú skýrsla er merkileg vegna þess að hún er fóturinn undir öllu því sem hæstv. sjútvrh. er að gera núna varðandi svokallaða vísindalega stjórnun þorskstofnsins. Það er merkileg skýrsla. Ég er að vísu vanur að bryðja erfiðar skýrslur um efnafræði og annað slíkt og ég hef þaullesið þessa skýrslu en verð að viðurkenna það að efni hennar er fram sett með þeim hætti að mér tókst ekki að rekja mig til sömu niðurstöðu og höfundar skýrslunnar. En það skiptir ekki miklu máli. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. hafi skilið hvert einasta orð og viti hvers vegna hann byggir núna stjórn þorskstofnsins á aflareglu sem miðast við 25% veiðar. Ég gat ekki fundið þá tölu í þeirri skýrslu. Það er önnur saga.
    Herra forseti. Í þessari skýrslu er greint frá niðurstöðum flókinna útreikninga og þar er sagt, með leyfi forseta, að reikningarnir bentu einnig til að miðað við 175 þús. tonna afla væri líklegt að hrygningarstofninn héldist óbreyttur og sýndi engin batamerki á allra næstu árum. Af hermireikningunum mátti þó ætla að líkur á hruni væru litlar og stofninn rétti smám saman við þegar til lengri tíma væri litið. Hættumörkin eru sem sagt 175 þús. tonn og ef þeim er fylgt, þá væri líklegt að hrygningarstofninn héldist óbreyttur og sýndi lítil batamerki, veiðistofninn ekki heldur nema þegar til lengri tíma er litið. Þetta er skýrsla sem kom fram í fyrra sem hæstv. sjútvrh. byggir aflareglur sínar á. En hvernig er staðan núna? Herra forseti. Staðan er nákvæmlega þannig að hrygningarstofninn sem átti ekki að sýna nein batamerki á allra næstu árum, um hvað hefur hann stækkað? Hann hefur stækkað úr spá um 235 þús. tonn upp í 300 þús. tonn og veiðistofninn sem samkvæmt sama ferli átti á þessu ári að minnka niður í 510 þús. tonn er kominn í 560 þús. tonn. Með öðrum orðum hefur veiðistofninn sannarlega aukist um 10%. Af þessu má draga margar ályktanir. Ég dreg eina. Ég segi: Ef veiðistofninn hefur aukist um 10%, þá hlýtur líka að vera hægt að hækka hættumarkið, þ.e. þakið um 10%, þ.e. hækka 175 þús. tonnin um 10%. Samt, hv. þm., er ekki lagt til að það verði veidd 175 þús. tonn, ekki heldur 175+17,5 þús. tonn. Það er lagt til að það verði veidd 150 þús. tonn. Því segi ég að það eru ekki fiskifræðileg rök sem mæla gegn því að það verði eitthvað slakað til í aflaheimildum. Það er hins vegar hægt að finna önnur rök, efnahagsleg rök, ég fellst fúslega á það.
    Ég hef á hinn bóginn saknað þeirra raka úr þeirri umræðu sem áhugamenn um fiskveiðistjórnun hafa reynt að byggja upp við sjútvrh. og raunar hef ég líka saknað þess af hendi sérfræðinga hans þegar menn eiga orðastað með rökum við þá og benda á veikleika, að þeir skuli þá ekki sjálfir tína til þau fiskifræðilegu rök sem einhver eru, sem mæla gegn slíku. Auðvitað er það rétt að innstæðan í sjóðnum gefur betri rentu en Landsbankinn. Það er rétt. En ég bendi á það, herra forseti, að í þessari skýrslu sem er grunnur fiskveiðistjórnunar hæstv. sjútvrh., er skýrt tekið fram að þegar menn ætla síðan að ákveða aflamarkið þá eigi líka að taka tillit til annarra félagslegra þátta eins og atvinnu og annarra hluta.
    Ég gæti líka, herra forseti, tínt til ýmislegt annað úr skýrslum Hafrannsóknastofnunar sem bendir til þess að þetta sé allt í hinu allra besta lagi með örlítinn slaka, ég tek það fram. En ég vil líka taka það fram að um leið og ég segi að það séu ekki fiskifræðileg rök gegn því að leyfa slíkan slaka, þá viðurkenni ég að það eru pólitísk og efnahagsleg rök sem hægt er að tefla gegn þessu.
    Herra forseti. Fyrst ég er aðeins farinn að ræða hér stjórn fiskveiða, þá langar mig að benda á svolítið annað. Í þessari skýrslu sem hæstv. sjútvrh. byggir aflareglu sína á, er margt fróðlegt að finna. Sérfræðingar skýrslunnar reiknuðu sig fram að því að það megi veiða 21,5%. Ég veit ekki hvernig ráðherrann fór að því að hækka það upp í 25%, en það er svona heppileg nálgun, er það ekki? Ef menn, herra forseti, beittu svipaðri nálgunarfræði á kvótann, þá mætti segja að það væri líka heppileg nálgun að í staðinn fyrir að veiða 150 að veiða 170 þús. tonn með nákvæmlega sömu rökum. Og aflareglan sem hæstv. sjútvrh. notar til þess að sveipa vísindalegum hjúp um sína fiskveiðistjórnun byggir líka á því að það megi þá aldrei veiða minna en 150 þús. tonn. Þetta fann ég ekki í hinni vísindalegu skýrslu. Ég er þeirrar skoðunar að ef menn ætla að stjórna fiskstofnum, þá eigi þeir að sjálfsögðu að draga úr veiðinni þegar ástand stofnanna er sannanlega lítið og vont. Hvað mundi til að mynda gerast ef sá kaldi sjór sem nú dvelur við Norðurland mundi teygja sig lengra suður og umlykja landið um nokkurra ára bil? Það hefði voveifleg áhrif að sjálfsögðu á ástand þorsksins hér við Ísland. Það mundi fara fyrir honum alveg eins og við Austur- og Vestur-Grænland, þar sem stofninn hrundi upp úr 1960, ekki bara vegna ofveiði heldur vegna þess að sjórinn kólnaði. Hvað ætlaði þá hæstv. sjútvrh. að gera? Ætlaði hann samt að nota aflaregluna sína og leyfa að veiða 150 þús. tonn? Nei, vegna þess að þetta eru ekki vísindi og ekki nándar nærri eins góð vísindi og t.d. aflareglan sem beitt er á loðnustofninn. Það eru vísindi.
    Herra forseti. Í þessari skýrslu segir á einum stað eftir að fjöldi varnagla hefur verið sleginn um spárnar, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að vekja athygli á því að útreikningar að baki þessum leiðum eru flóknir og margs konar fyrirvara þarf að hafa á þeim.``

    Síðar fjalla skýrsluhöfundar um afskaplega umdeildan þátt í fiskveiðistjórnun og útreikningum á stofnstærð, þ.e. hinn náttúrlega dánarstuðul og þar segir einfaldlega, með leyfi forseta:
    ,,Áhrif þátta utan líkansins eru flest í þá veru að auka óvissu í niðurstöðum þannig að líkur aukast á frávikum frá meðaltölum. Nefna má náttúrulegan dánarstuðul sem dæmi. Hann er festur við 18% í reikningum.`` Og síðan kemur, herra forseti, sem er mergur þessa máls sem ég er nákvæmlega að flytja núna: ,,Ef hann væri gerður breytilegur innan þeirra marka sem raunhæf geta talist, þá aukast líkur á mjög hraðri uppbyggingu og einnig líkur á hruni.``
    Hvenær er nú líklegt að náttúruleg dánartíðni minnki í sjónum? Ég tel að það sé þegar ríkir góðæri, þegar er mikil áta eins og er jafnvel í kalda sjónum núna úti fyrir Norðurlandi, jafnvel þegar stofninn er lítill og samkeppni því minni en ella milli fiska um rými og fæðu. Og við þessar aðstæður er líklegt að náttúrlegi dánarstuðullinn sé mun minni heldur en í erfiðu árferði. Eins og skýrslan segir þá aukast líkur á hraðri uppbyggingu. Hvað erum við að sjá núna í sjónum? Við erum að sjá aukna þorskgengd á grunnslóð og smábátaeigendur segja að það sé meiri fiskur í sjónum. Þessu hefur hæstv. sjútvrh. eðlilega ekki viljað trúa því að honum ber að fara að ráðum sinna sérfræðinga og þeir hafa ekki viljað trúa því, þangað til síðasta skýrsla Hafrannsóknastofnunar kom fram. Þá kemur það fram eins og ég hef rakið að veiðistofninn hefur stækkað um 10%. Og hvar liggur þessi stækkun? Hún liggur í fiski sem þeir vissu ekki að væri til í fyrra. Núna, 5--6 árum eftir að árgangarnir 1989 og 1990 klöktust út, þá finna þessir ágætu menn allt í einu að það eru 30 millj. fleiri þorskar af 89-árganginum en þeir höfðu áður talið og 25 millj. fleiri af árganginum 1990 heldur en þeir höfðu áður talið.
    Herra forseti. Þetta er fiskurinn sem krókabátarnir eru að taka á sína öngla á grunnslóðinni. Hann er til. Þetta var bara ekki upplifun eða tilbúningur hjá þeim. Hvers vegna kemur hann ekki nema að litlu leyti fram í togararallinu? Það er erfitt að segja. En ef ég man rétt þá held ég að í rökræðum við sérfræðinga Hafró í sjútvn. hafi komið fram að það kunni að stafa af því að kynþroska fiskur kemur ekki fram með sama hætti og ókynþroska fiskur og svona ungur fiskur er ekki jafnkynþroska og eldri fiskur. Með öðrum orðum er þessi fiskur til en hann kemur ekki jafnsterkt fram í togararallinu og eldri fiskur.
    Í framhjáhlaupi, herra forseti. Það kom mér ekki á óvart að sjá það að árgangurinn frá 1990 var talsvert stærri heldur en sérfræðingar Hafró höfðu áður reiknað með. Hvers vegna ekki? Vegna þess að ég hef það mér til gamans á dapurlegum síðkvöldum að lesa skýrslur Hafrannsóknastofnunar. Og mér þótti dálítið merkilegt að bera saman tvær skýrslur þar sem í annarri skýrslunni var verið að spá fyrir um hlutdeild í fjölda þriggja ára þorsks árið 1993. Spáin var 8%. Raunverulegar aflatölur reyndust vera 24%. Ef maður reiknaði það saman út úr töflum þá komst maður að því að það höfðu verið veidd 28 þús. tonn af þriggja ára fiski sem samkvæmt skilgreiningu er ekki enn orðinn hluti af veiðistofni, allt saman tekið á togurunum. En maður velti því fyrir sér ef afli var 28 þús. tonn, hvað hentu þeir miklu af þessum smáþorski? Það er athyglisvert að velta því fyrir sér. En punkturinn er þessi: Strax 1993 veiddist svo mikið af þessum fiski þá þegar þriggja ára að það gaf fullt tilefni til að ætla að árgangurinn frá 1990 væri talsvert stærri heldur en metinn var eins og kom síðan á daginn í núverandi skýrslu. Ég er ekki að segja þetta, herra forseti, til þess að varpa vondu ljósi á sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég nefni þetta hins vegar til þess að sýna svart á hvítu hvað þessi vísindi eru ónákvæm. Ég verð að segja það að ég er fullkomlega sammála hæstv. forsrh. þegar hann sagði á fundinum á Húsavík að hann teldi að 10 þúsund tonn til eða frá skiptu ekki meginmáli fyrir uppbyggingu stofnsins, skiptu engu máli. En ef þau urðu kannski 50--60 þús., þá skipti það máli. Og það er ekki hægt að reikna út stærð fiska með þessum hætti, svona nákvæmlega. ( EgJ: Hver er tillaga þingmannsins?) Um? ( EgJ: Um aukna veiði.) Herra forseti. Spurt er hver sé tillaga mín um aukna veiði. Ef hv. þm. Egill Jónsson vildi stuðla að því að ég yrði gerður að sjútvrh. sem fyrst þá væri ég til í að kalla á hann og taka á kné mér og ráðgast við hann um það. Og þar sem menn hafa bent á að það kynni að vera erfitt að skipta um þessi kerfi þá hef ég einungis sagt það að ef nauðsynlegt er á yfirgangstímanum að slaka til um aflaheimildir, þá tel ég að það sé hægt að gefa örlítinn slaka. Ég tel 10 þús. tonn örlítinn slaka. Ég tel að það væri hægt að fara ofar þess vegna. Ég gæti fært skýrari og ítarlegri rök fyrir því en ég tel ekki að það hafi nein veruleg áhrif á uppbyggingu þorskstofnsins. Ég gæti svo sem rökstutt það með ítarlegra máli en ég ætla ekki að gera það.
    Herra forseti. Mér hefur dvalist nokkuð við umræður um stjórn fiskveiða. Að lokum vildi ég ræða sérstaklega eitt ákvæði í þeim brtt. sem minni hlutinn leggur til við þetta frv. Það er ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að lögin verði endurskoðuð fyrir ákveðinn tíma, þ.e. fyrir árslok 1996. Það má velta því fyrir sér, hvers vegna þetta er lagt til. Ég er alveg sammála þeim sem halda því fram að það sé nauðsynlegt að það ríki festa um starfsskilyrði atvinnugreinarinnar, sjávarútvegs og reyndar allra atvinnugreina. En það er hins vegar svo að sú verkefnaskrá sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og hæstv. sjútvrh. á að fylgja á næstu árum leiðir ekki til þess að festa aukist, hún leiðir ekki til þess að það skapist meiri kyrrð í kringum greinina. Það segir, herra forseti, í verkefnaskránni:
    ,,Gerð verði úttekt á mismunandi leiðum við fiskveiðistjórnun og bornir saman kostir og gallar ólíkra fiskveiðistjórnunarkerfa. Niðurstöðurnar verði nýttar við þróun fiskveiðistjórnunar.``
    Hér er það sagt berum orðum að það eigi að bera saman kosti og galla sóknarmarkskerfisins og aflamarkskerfisins. Ég þekki, herra forseti, mátt þeirrar rökfimi sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kann að beita og ég útiloka það ekki að honum takist svo vel upp að honum jafnvel takist að sannfæra hæstv.

sjútvrh. um að aflamarkskerfið væri verra heldur en sóknarmarkið. Ég a.m.k. gef mér það ekki að hæstv. sjútvrh., sem er maður alvörugefinn eins og þingheimur veit og gerir ekki að gamni sínu að óþörfu, ég geri ekki ráð fyrir því að hann sé að setja ákvæði eins og þetta inn í sína verkefnaskrá nema af því að honum er dauðans alvara. Hann ætlar að láta þennan samanburð eiga sér stað. Hann ætlar að hlíta niðurstöðunni og lýsir því yfir í verkefnaskránni að niðurstöðuna eigi að nota til að þróa áfram fiskveiðistjórnina. Þar með er sá möguleiki uppi, herra forseti, að niðurstaðan verði sú að aflamarkskerfið sé ekki hið æskilegasta og það sé nauðsynlegt að taka upp annað kerfi og þar með er með einu hnífsbragði sprett upp öllu kvótakerfinu. Það er ekki góð framtíð fyrir þá sem eiga afkomu sína undir því að búa við slíkt óöryggi. Til þess að reyna að setja endapunkt aftan við það teljum við nauðsynlegt að festa lok þessarar endurskoðunar og það er þess vegna sem þessi umræða er flutt. Til þess að skapa aukið jafnvægi og meiri festu í atvinnugreininni teljum við að það sé nauðsynlegt að hún viti hvenær niðurstaða þessarar úttektar liggur fyrir. Ég veit að hæstv. sjútvrh. er raunsær maður og hann skilur að það er rétt að samþykkja þetta.
    Herra forseti. Eitt af því sem er mér mikið hjartans mál varðandi breytingar á fiskveiðistjórnuninni er örlítið ákvæði. Það skiptir engu meginmáli um heildarlínur kerfisins en það varðar heimild hæstv. sjútvrh. til þess að breyta aflamarki í þorski.
    Hæstv. utanrrh. lét svo ummælt í dagblaði í síðasta mánuði að hann teldi að það væri örlítið svigrúm til þess að auka þorskkvótann. Ég var auðvitað sammála hæstv. utanrrh. aldrei þessu vant. En réttilega benti hæstv. sjútvrh. á það í Morgunblaðinu degi síðar að það gæti hann ekki vegna þess að eitt af ákvæðum gildandi laga um stjórn fiskveiða bannar ráðherranum að hreyfa úthlutun eftir 15. apríl. Þetta er sérstakt ákvæði vegna þess að í öllum öðrum tegundum getur hæstv. ráðherra, ef ég man rétt, breytt úthlutun. Jafnvel þó hægt væri að telja hæstv. sjútvrh. trú um það og fá hann til þess að fallast á rök þá getur hann ekki þó hann væri allur af vilja gerður breytt úthlutun í þorskaflamarki eins og hann kvartaði um í Morgunblaðinu. Það er ekki bara af sérstakri vinsemd við hæstv. sjútvrh. sem ég tel rétt að þessu væri breytt. Ég tel að það sé rökrétt. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. sjútvrh. fær ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar aldrei fyrr en í lok maí, svo að segja upp á nákvæmlega sama dag ár hvert. Sama dag ár hvert er honum afhent ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Og ef þjóðin er heppin og vinnur í lottói hafsins og þorskurinn hefur aukist og það dytti nú í hæstv. sjútvrh. að auka þorskvótann, þá getur hann það ekki. Ég tel að það væri mjög jákvætt, herra forseti, ef þingheimur aðstoðaði hæstv. sjútvrh. og hjálpaði honum til þess að gera góðverk, hjálpaði honum til þess að veita örlítinn slaka í úthlutun þorskaflamarks með því að afnema þetta. Í framtíðinni getur hann breytt því þegar stofninn fer að hækka, eins og hann hefur sjálfur spáð fyrir um eftir að hafa kíkt í kristalskúlu þeirra valva sem ráða ríkjum í Hafrannsóknastofnun. Hann hefur lýst því yfir að stofninn muni stækka. Stofninn er þegar farinn að stækka og ef það gengur eftir að árferðið í sjónum batnar áfram, þá gerist það sem ég var að lesa áðan upp úr skýrslu nefndar um nýtingu auðlinda hafsins, þá verður uppbygging stofnsins miklu hraðari. Þá kann það að gerast að það verði borð fyrir báru og það verði hægt að úthluta meiru, en þá getur ráðherrann það ekki.
    Og svona aðeins til gamans af því að ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur óskaplega gaman að hlusta á ræður mínar um stjórn fiskveiða, þá vil ég líka benda honum á það að í skýrslu Hafrannsóknastofnunar árið 1990 settu menn fram skemmtilegar spár um göngur þorsks af miðum við Grænland. Þessi þorskur átti að koma 1991, 25 millj. þorska og 36 millj. árið 1992, 7 og 8 ára gamall þorskur. Hann kom auðvitað aldrei vegna þess að þorskurinn við Grænland neitaði að hlýða vilja sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar og hann gekk fyrr. Hann gekk hingað 1990. Segjum svo að í framtíðinni mundi seiðarek frá Íslandi aftur byggja upp þorskstofn við Grænland og hann færi að ganga hingað til baka og sérfræðingarnir gerðu aftur þessi mistök, þá gæti hæstv. sjútvrh. ekki brugðist rétt við og úthlutað auknu aflamarki í þorski vegna þess að lögin banna það nema hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson taki höndum saman við sinn góða félaga í Alþfl. og breyti þessu.
    Herra forseti. Ég hygg að mál sé að linni.