Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:36:17 (549)


[21:36]
     Einar Oddur Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Í þessum umræðum hafa komið fram frásagnir af gangi mála frá því að 1. umr. átti sér stað og af eðlilegum ástæðum hefur umræðan fyrst og fremst snúist um 2. gr. sem er til umfjöllunar. Við sjálfstæðismenn á Vestfjörðum höfðum uppi málflutning í vetur fyrir kosningarnar um margþættar breytingar á fiskveiðistjórnuninni en fengum bágt fyrir hjá mörgum eins og gengur. Eitt af því sem við vorum að berjast fyrir og töldum mjög brýnt var að hverfa frá banndagakerfinu og koma á róðrar- eða sjódagakerfi í staðinn sem væri til muna bærilegra fyrir alla sem að þessum veiðum stæðu.
    Nú hafa mál þróast svo vel þessa dagana að ég tel liggja fyrir að nær allur þingheimur, a.m.k. þeir sem ég þekki og hef talað við, er orðinn mjög sammála um það að þetta sé leiðin sem eigi að fara. Þetta er mikið fagnaðarefni, herra forseti, vegna þess að lögin sem við búum við í dag eru rétt eins árs gömul. Ekki var ég hér þá, herra forseti, en einhverjir hljóta að hafa samþykkt lögin. Hér hlýtur að hafa verið fullt af mönnum. Ég er alveg viss um að þetta var stjfrv., örugglega stutt af þáv. stjórn og ég efast ekki um af þáv. ráðherrum. Þessi barátta hefur þegar skilað verulegum árangri og ég fagna því.
    Í umræðum í sjútvn. var farið yfir þá möguleika að hverfa nú þegar frá banndagakerfinu og snúa sér að róðrarkerfinu og þá voru margir menn kallaðir til vitnisburðar. Eftir þá yfirheyrslu taldi ég ljóst að

allar forsendur væru fyrir því að gera þetta nú þegar 1. september þegar nýtt fiskveiðiár byrjar. Ég tel líka að nefndin hafi verið ákaflega sammála í megindráttum. Að vísu voru menn kannski ekki alveg sammála og ýmsir hnökrar á því hvað menn vildu helst leggja áherslu á o.s.frv. en í megindráttum voru menn þessu sammála og vildu stuðla að þessu.
    Á tímabili meðan nefndin starfaði gerði ég mér m.a. vonir um að hún gæti kannski skilað sameiginlegu áliti, sameiginlegum brtt. Svo var nú ekki eins og allir þekkja. Nú liggur fyrir ágætt álit minni hlutans, mjög gott álit minni hlutans í flestum atriðum, svo og álit okkar sem skipum meiri hluta nefndarinnar.
    Nú kemur að því, hv. 15. þm. Reykv., að ég tel rétt og skylt að skýra frá því hvers vegna ég skrifa undir þá brtt. Það er vegna þess að það kom mjög skýrt fram í afstöðu hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, að þrátt fyrir að flestir nefndarmenn hefðu fyrir því góð rök og mikla sannfæringu að hægt væri og ætti að hverfa að þessu róðrardagakerfi 1. sept. þá taldi hann sig ekki hafa fyrir því vissu og sannfæringu. Það var sjónarmið hans að það væri óbærilegt fyrir starfandi sjútvrh. að láta samþykkja í stjfrv. ákvæði sem hann sem ráðherra teldi sig ekki hafa fyrir sannfæringu og vissu að væri framkvæmanlegt. Það var af tillitsemi við hæstv. sjútvrh. sem ég ákvað að styðja álit meiri hlutans og sjónarmið hans. En ég geri það í fullvissu þess að þá þegar hann skoðar þessa hluti jafngrannt og við höfum gert í sjútvn. sjái hann jafnskýrt og ég tel mig sjálfan sjá að þetta eru mjög auðveldlega framkvæmanlegir hlutir og þarf ekki að óttast um það. Enda tel ég, herra forseti, mjög knýjandi fyrir viðkomandi ráðherra nú þegar haustar að koma þessari skipan á. Hið skelfilega banndagakerfi með þeim viðbótarbanndögum sem annars mundi öðlast gildi er óbærilegt bæði fyrir sjómenn sem ætla að stunda þessa róðra svo og fyrir þann sem á að stjórna og bera ábyrgð á þessum hlutum. Þess vegna er ég þess fullviss að ráðherrann stendur við það sem hann hefur sagt í pontunni að hann ætli af mikilli alvöru að beita öllum sínum mætti til þess að þetta nái fram. Svo þekki ég ekki hið óorðna frekar en aðrir hér inni.
    Komi síðan í ljós að menn treysti sér ekki til að gera þetta þá er það skelfilegt fyrir okkur öll. Miðað við allar aðstæður og við það sem við erum að glíma við tel ég og það er mín vissa að við fengjum þetta ekki fram með öðrum hætti. Það er mjög brýnt fyrir okkur öll að fá þetta fram og það er aðalatriði málsins að við náum þessu fram efnislega. Svo geta menn deilt um það, hælt sér af því eða skammað aðra hverjum það sé meira að þakka eða minna.
    Það sem kemur fram í frv. er merkilegt að því leyti að núna er verið að taka á vanda þessara báta sem við hefur blasað í tíu ár og allir hafa vitað og séð en um leið hefur löggjafinn og allir aðrir látið fram hjá sér fara. Það máttu allir vita fyrir meira en tíu árum að sóknarmark þessara skipa væri að aukast. Frá því að núgildandi lög voru samþykkt hafa á milli 40 og 50 mjög afkastamiklir slíkir bátar komið inn í kerfið þannig að allir máttu allan tímann vita að við vorum að stefna í óefni og einhverjir hljóta að bera ábyrgð á því. Nú ætla ég ekki að deila um það heldur tel réttara að benda á að betra er seint en aldrei, nú erum við að reyna að taka á þessu og það skiptir öllu máli. Það skiptir öllu máli að við getum séð í tiltölulega náinni framtíð að við höfum vald á málinu þannig að þeir menn sem hafa atvinnu sína og líf af þessari vinnu geti nokkurn veginn stundað hana þokkalega. En eins og þetta var áður þegar afkastagetan var sífellt að aukast stefndi ævinlega í meiri vandræði með hverju árinu.
    Nú er það svo að miklar fréttir af afla á grunnslóð vekja hroll hjá sumum. Þetta eru hin skelfilegustu tíðindi. Aflinn er svo mikill að menn vita ekki hvað á næst að gera. Þetta er nú eitthvað annað en einhvern tímann áður á Íslandi þegar ekki hefðu aðrar fréttir þótt meira fagnaðarefni en mikill fiskur við grunnslóðina. Menn hafa rætt töluvert um fiskveiðistjórnun og hvernig við skulum standa að þessum málum og ekki óeðlilegt að menn hafi ólíkar skoðanir. Ég hef margsinnis lýst því yfir á undanförnum vikum, mánuðum og árum að ég hef fyrir því mikla sannfæringu að hvort veitt er einhverjum 10 eða 20 þús. tonnum meira eða minna við strendur landsins á þessa krókabáta getur ekki skipt nokkrum sköpum fyrir lífríkið hér í kring. Þrátt fyrir að menn þykist margir hverjir kaþólskari en páfinn og hafa uppi stór orð um að það sé mikið ábyrgðarleysi hvert tonn sem fram yfir einhverjar reglur fari efast ég nú um að öllum sé þetta svo heilagt, a.m.k. hafa menn látið þetta viðgangast. Nú erum við að fiska að ég ætla yfir 20 þús. tonn á krókabátana meira en löggjöfin gerir ráð fyrir og allir vita í hjarta sínu að varla stafar nein hætta af þessu. Ég held að það væri betra fyrir menn, betra fyrir þingheim allan, að huga að hinum alvarlegri hlutum sem eru að gerast og það er sóunin sem fer fram við strendur landsins. Það er þó skárra til þess að vita að einhver tonn, 10,15 eða 20 þús. tonn, komi að landi til að efla vinnu og bágan efnahag landsins en vita af öðrum eins fiski og jafnvel meira sem er kastað í sjóinn vegna rangra stjórnunarhátta. Það væri nær af hafa af því áhyggjur.
    Hv. 15. þm. Reykv. hefur nú í kvöld svo og við fyrri umræðu málsins sýnt mér þau vinarhót að vilja hvetja mig til dáða. Haft uppi ljóð eftir góðskáldin og vakið aðdáun mína og annarra. Nú er það svo, herra forseti, því hann má heyra mál mitt, að aðalefni sem krókaveiðimenn eiga við að stríða í dag er það að í lögum um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir að veiðidagar þeirra séu ákveðnir miðað við 21.500 tonn af þorski. Sama hvernig við röðuðum þessum dögum, með núgildandi ákvæði mundi þetta alltaf verða þeim til mikilla vandræða á komandi fiskveiðiári því við eigum langt í land að draga svo úr flotanum að þeir geti miðað við þá fiskgengd sem er við landið lifað við þetta. Og nú er það spurningin: Treysta menn sér raunverulega til að koma á móts við þessa menn? Það liggur alveg fyrir að hver sá sem kemur með tillögur um það og segir opinberlega að ekki skipti meginmáli hvort þeir veiði 10 þús. tonnunum meira eða minna verður fordæmdur af mjög mörgum sem segja: ábyrgðarlausir menn. ( SJS: Ég þori þó að segja . . .  Davíð sagði þetta.) Því spyr ég héðan úr pontunni hv. 15. þm. Reykv., þú sem óttast svo mjög um minn kjark, eða kjarkleysi eftir atvikum: Ef þér er mikil alvara með þinni miklu og löngu ræðu og hvatningum þá átt þú kost á því við 3. umr. málsins að standa við hlið vinar þíns, sem hér stendur, og flytja tillögu um það, ákvæði til bráðabirgða, að næstu tvö, þrjú eða fjögur árin eða hvað sem við kæmum okkur saman um væri dagafjöldi krókabáta miðaður við hærri tonnatölu en í lögum kveður. Við þurfum báðir til þess kjark en ef ekki skortir kjark þinn, herra forseti, hjá hv. 15. þm. þá mun minn ekki bresta. Þingheimur tekur eftir því að ég er að reyna að læra og fara eftir settum reglum hér, legg mig fram og fæ ábyggilega eitthvað fyrir viðleitni. Nú veit ég að hv. 15. þm. Reykv. tekur þetta til athugunar og við eigum þá völina og kvölina saman.
    En þessi mál öll eru hin minni mál. Ákveðið var að taka þau fyrir núna í þessum vorönnum. Hin meiri mál bíða og það er stjórn fiskveiða. Ég held að hið háa Alþingi geri fátt betra en að hugleiða á hverjum tíma hversu óskaplega brýnt þjóðinni er að varðveita þá miklu rentu sem sjávarútvegurinn getur gefið henni og mun gefa henni ef við höldum rétt á málum. Því er þetta ekki eins og kom fram í ræðu einhvers að menn séu að valda óstöðugleika með því að taka þau mál á dagskrá. Þau mál verða alltaf að vera á dagskrá og við verðum alltaf að vera reiðubúin til að gera betur og betur, bæði við fiskveiðistjórnunina svo og að hugleiða opnum huga hvernig við metum og förum með þá fiskveiðiráðgjöf sem við eigum kost á á hverjum tíma. Þetta eru stóru málin. Til þeirra mála skulum við hugsa og vera reiðubúnir til að koma vaskir með hausti. Takk fyrir.