Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:52:42 (560)


[22:52]

     Kristján Pálsson (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar um þau orð sem ég lét falla um þær tillögur sem hér eru frammi, að við hefðum miklar efasemdir og værum jafnvel komnir á band þeirra minnihlutamanna varðandi úrlausnir þeirra og það helst ekki seinna en strax, vil ég bara segja að það sjávarútvegskerfi sem er til umræðu og hefur verið við lýði síðustu tvö árin er hannað af þeim sömu mönnum sem hér gagnrýna okkur fyrir það að hlaupa ekki frá því sem nú er til umræðu og yfir í alveg nýtt kerfi sem að mati sjútvrn. getur ekki tekið gildi fyrir næsta fiskveiðiár svo þeir treysti sér til að fylgja því eftir að lögum. Ég sagði áðan að þó svo að ég hefði efasemdir um það að hugmyndirnar gengju alveg nógu langt þá er ég samt sem áður fyllilega sannfærður um það að hæstv. sjútvrh. talar þar af þekkingu og samkvæmt ráðum sinna bestu manna um það að róðrardagakerfið geti ekki komist á fyrir 1. sept.
    Ég treysti því líka og lýsti því yfir að ég mun styðja það frv. sem hefur verið lagt hér fram og mun að sjálfsögðu beita mér fyrir aðgerðum sem nauðsynlegar eru með sjútvrn. þannig að róðrardagakerfið komist á sem allra fyrst og þá náttúrlega með þeim aðferðum og þeim lausnum sem hæstv. sjútvrh. finnur í sambandi við sína reglugerð og útgáfu reglugerðar þegar þar að kemur. Ég vil ekki að menn fari neinar grafgötur með það að ég styð þær aðgerðir sem ríkisstjórnin og hæstv. sjútvrh. hefur lagt hér til.