Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 13:42:55 (575)


[13:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Fáein orð af tilefni þessa frv. Ég vil í fyrsta lagi segja það að ég tel eðlilegt að ný ríkisstjórn og nýr hæstv. landbrh. þurfi einhvern tíma til þess að skoða aðstæður þegar komið er að málum með þeim hætti sem nú gerist þó að þau séu svo sem löngu kunn og hafi verið fyrirsjáanleg. Þeim sem fylgst hafa með málum ætti ekki að koma neitt á óvart í þessum efnum, allra síst þeim sem áttu aðild að síðustu ríkisstjórn eins og á við um meiri hluta þingmanna, stuðningsmanna núv. ríkisstjórnar. Engu að síður er það eðlilegt að nýr ráðherra þurfi tíma til að meta stöðu mála og ég lýsi þess vegna stuðningi við það að sú frestunarheimild sem 3. gr. frv. felur í sér varðandi ákvörðun greiðslumarks fyrir verðlagsárið 1996--1997 verði veitt þannig að ekki komi til þess að það verði ákvarðað með miklum flötum niðurskurði strax á hausti komanda. Sérstaklega gerir maður það í trausti þess að vilji sé fyrir hendi til þess að taka á því vandamáli sem þar er á ferðinni.
    Það verður að vísu um leið að átelja það mjög harðlega að síðasta hæstv. ríkisstjórn horfði á þessi vandamál hlaðast upp án þess að aðhafast nokkurn skapaðan hlut og skildi við málin í því óefni sem komið er.
    Að öðru leyti er efni frv. fyrst og fremst það að veita heimild til verðjöfnunargjalda vegna sameiginlegra aðgerða í útflutningi ef ég hef skilið ákvæði 1. gr. rétt og má það sjálfsagt eðlilegt teljast einnig. Hitt væri náttúrlega miklu uppbyggilegra að hér gætu farið fram einhverjar umræður um þennan vanda, hinn efnislega vanda sem að baki liggur og hér lægi eitthvað fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um þau mál og kemur nú hæstv. fyrrv. landbrh. í salinn. ( Samgrh.: Og fyrrv. landbrh. stendur í stórræðum.) Og er þá orðið mikið af bæði fyrrv. og núv. landbúnaðarráðherrum þannig að það ætti að vera hægt að ræða þessi mál af einhverju viti. Ég tel ágætt að hæstv. fyrrv. landbrh. og núv. hæstv. samgrh. sé viðstaddur því að honum er málið skylt.
    Staðreyndin er náttúrlega sú að hér er á ferðinni gífurlega erfitt vandamál sem hefur sársaukafullar afleiðingar úti í þjóðfélaginu fyrir fjölda manna og fjölskyldna. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að draga það inn í þessa umræðu að um leið og sölusamdráttur innan lands hefur skapað sauðfjárframleiðslunni mikinn vanda þá hefur hún sparað ríkissjóði peninga. Ég held að það sé rétt að það komi hér fram af því að síðasti hv. ræðumaður var að spyrja um útgjöld í þessu sambandi að það er öðru nær. Staðreyndin er sú að vegna eðlis búvörusamningsins sem tengir stuðning ríkisvaldsins við það magn sem selst á innlendum markaði þá hefur þessi sölusamdráttur haft í för með sér mikla lækkun á útgjöldum ríkissjóðs til sauðfjárræktarinnar. Ég benti á þetta á síðasta vetri og í fskj. með þáltill. þingflokks Alþb. um aðgerðir í landbúnaðarmálum er það reiknað út að miðað við spár sem þá lágu fyrir þá stefnir í að samdráttur í sölu kindakjöts á innlendum markaði umfram það sem forsendur búvörusamningsins gerðu ráð fyrir spari ríkissjóði á samningstímanum 1 milljarð kr. Sá sparnaður er þegar orðinn umtalsverður vegna áranna sem liðin eru. Þetta bætist við það að það standa upp á ríkið verulegar vanefndir á skuldbindingum samkvæmt þessum samningi og er ekki hægt að fjalla í öðru orðinu um mikinn vanda sauðfjárbænda en sleppa því í hinu orðinu að ríkið hefur ekki staðið við sinn hlut. Það hafa ekki verið lagðir þeir fjármunir í aðra atvinnuuppbyggingu í gegnum Byggðastofnun sem samningurinn kveður skýrt á um samkvæmt viðauka I og undirritað er af tveimur fyrrv. ráðherrum. Það hefur ekki verið sýndur litur á því að standa við það átak í landgræðslu og skógrækt sem bókun með samningnum gerði ráð fyrir og sérstaklega var ætlað til að skapa sveitafólki störf, ekki litur, ekki vottur. Ef eitthvað er þá hafa fjárveitingar til þess málaflokks tæplega haldið í horfinu undanfarin ár.
    Ég tel þess vegna að hæstv. landbrh. verði að hafa þetta með í farteskinu svo óskemmtilegt sem það er. Hann tekur við þeim arfi frá forvera sínum að þarna er um verulegar vanefndir að ræða. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að eðlilegt sé að horft sé til þeirra fjármuna sem reiknað var með að gengju

til stuðnings sauðfjárræktinni í gegnum búvörusamninginn þegar hann var gerður en hafa núna sparast eða mundu sparast vegna minni sölu innan lands. Þar er á ferðinni milljarður króna og það má gera mikið fyrir slíka fjármuni og þó ekki væri nema einhvern hluta þeirrar upphæðar. Ég held að það hafi aldrei verið ætlunin og ekki verið í neins manns huga sem stóð að gerð búvörusamningsins á sínum tíma að gengið yrði lengra í samdrætti ríkisútgjalda gagnvart greininni en þar var áætlað. Ég minni á í þessu sambandi að búvörusamningurinn er að spara ríkissjóði núna milli 3 og 4 milljarða kr. á hverju ári miðað við útgjöldin eins og þau voru áður í gamla kerfinu. Það hefur engin ein aðgerð í ríkisfjármálum á síðari árum sparað ríkissjóði jafnmikla fjármuni. Þrátt fyrir allt talið um sparnað, aðhald og niðurskurð annars staðar þá er það staðreynd að engin ein aðgerð hefur náð jafnmiklum árangri í þeim efnum eða tekið ríkisútgjöldin jafnmikið niður og þessi samningur eða um fjárhæðir af þessari stærðargráðu og munar um minna. Menn geta þess vegna sett þetta í samhengi við rekstur grunnskólanna eða Ríkisspítalanna eða eitthvað því um líkt og sjá að þetta er fjárhæð af næstum svipaðri stærðargráðu.
    Þess vegna finnst mér það þeim mun sjálfsagðari krafa að við samninginn sé að hinu leytinu til staðið af hálfu ríkisins og ég vona að hæstv. núv. landbrh. standi betur í ístaðinu en forveri hans hvað það snertir að brjóta ekki lög og svíkja ekki samninga á bændum með þessum hætti því að búvörusamningurinn hefur lagastoð og hefur verið fullgiltur með margvíslesgum hætti hér í formi heimildarákvæða og lagabreytinga. ( EgJ: Hann er skráður í búvörulögunum.) Já, þess þá heldur að vera ekki að brjóta hann, hv. þm. Egill á Seljavöllum, þar sem hann er skráður í búvörulögunum. Það er ekki rismikil frammistaða þeirra sem studdu síðustu hæstv. ríkisstjórn að væla um vandann á fundum en hafa sjálfir borið pólitíska ábyrgð á því í fjögur ár að þessi samningur hefur verið vanefndur. Menn geta sagt ýmislegt um hann, að hann sé landbúnaðinum erfiður og reynt að kenna honum um hluti eins og þá að neysla á kindakjöti hefur minnkað, sem er ekki merkileg röksemdafærsla að vísu. Ég veit ekki til þess að menn hafi almennt séð hætt við það að kaupa kindakjöt úti í búðunum af því að það er til einhver búvörusamningur. Ætli það sé nú svo? En þetta hefur svo sem verið reynt í pólitísku skyni og ýmsir sem þóttust ætla að slá keilur á því við næstsíðustu kosningar að vera á móti þessum samningi fengu síðan það hlutskipti að standa að framkvæmd hans í fjögur ár með þessum hætti eins og kunnugt er. En þess þá heldur að taka inn í reikningana, taka inn í umræður um þessi mál stöðuna að þessu leyti, annað er ekki hægt.
    Ég hlýt að lýsa hér eins og allir aðrir miklum vonbrigðum með það hvernig þessi þróun hefur orðið. Það er af tveimur ástæðum mjög óhagstætt hvernig það hefur gengið til. Annars vegar er ljóst að stórversnað atvinnuástand í landinu, tilkoma atvinnuleysisins í tíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, fyrsta ráðuneyti núv. hæstv. forsrh., hafði auðvitað afgerandi áhrif á þá aðlögun sem menn höfðu bundið vonir við að yrðu í framleiðslunni vegna þess að bændur áttu ekki að neinu öðru að hverfa frekar en aðrir yfirleitt sem hefðu ella haft hug á því að skipta um atvinnu og urðu að reyna að hanga á þeim framleiðslurétti sem þeir þó höfðu eftir. Og það er enginn vafi á því að þessar óhagstæðu aðstæður og tilkoma atvinnuleysisins hafði mikil áhrif á það að þróunin varð óhagstæðari og öðruvísi en vonir höfðu staðið til.
    Hins vegar er svo þessi mikli sölusamdráttur á innanlandsmarkaði þvert ofan í það sem menn höfðu bundið vonir við, að sú kerfisbreyting að hætta að láta ríkið bera ábyrgð á sölunni heldur framleiðendurna og vinnsluaðilana mundi hafa í för með sér örvandi áhrif á aðgerðir framleiðenda og úrvinnsluaðila til að auka söluna vegna þess að þar með væru þeirra hagsmunir orðnir algerlega bundnir við það að varan seldist, en það hefur því miður ekki gengið eftir. Um gamla kerfið þarf ekki að ræða. Það var gersamlega dauðadæmt að þeir sem stunduðu framleiðslustarfsemi væru svo algerlega teknir úr samhengi við gengi vörunnar úti á markaðnum eins og gamla fyrirkomulagið var. Ríkið ábyrgðist fullt verð fyrir tiltekið magn algerlega burt séð frá því hvort það seldist eða seldist ekki og það var löngu tímabært að afnema það. Vonir voru vissulega bundnar við það að með þessari kerfisbreytingu, að færa þetta yfir í eðlilegt horf, væri salan þar með á ábyrgð þeirra sem framleiðsluna stunda og/eða vinna við að vinna úr og dreifa og selja vöruna en þær vonir hafa ekki ræst, a.m.k. ekki að þessu leyti að orðið hefur mikill samdráttur í sölu kindakjöts eftir tímabil í aðdraganda búvörusamningsins þegar salan var tiltölulega stöðug eða 8.000--8.600 tonn og hélst í þeim mörkum samfellt í þrjú ár í aðdraganda búvörusamningsins.
    Síðan hefur þetta verið mjög óhagstæð þróun og ég sé í fskj. með frv. að þar er spáð enn meiri sölusamdrætti en spá Framleiðsluráðs gerði ráð fyrir sem var lögð til grundvallar útreikningum í tillögu þingflokks Alþb. um aðgerðir í landbúnaðarmálum á sl. vetri. Þar var þó ekki verið að tala um að salan færi neðar en í 7.000 tonn á árinu 1997 og 7.200 á árinu 1996. En hér eru sýndar tölur á verðlagsárinu 1996--1997 og 1997--1998 upp á 6.700 og 6.500 tonn sem eru í raun og veru ekkert annað en hrun að þessu leyti. Það þýðir hins vegar að útreikningar okkar á því hversu mikið sölusamdrátturinn sé að spara ríkissjóði er vanmat og það stefnir í að ríkissjóður spari enn meiri peninga en ella og þá væntanlega eitthvað á annan milljarð kr. frá því sem forsendur búvörusamningsins gerðu ráð fyrir. Þegar menn ræða um spurninguna um útgjöld eða ekki útgjöld í þessu sambandi þá er rétt að hafa þessar stærðir í huga.
    Það er ekki svo eins og stundum hefur heyrst að haldið sé fram, t.d. á fundum á Austurlandi, að búvörusamningurinn bindi hendur ríkisstjórnar gagnvart því að grípa til ráðstafana til stuðnings bændum. Það er ekki svo. Fyrir það fyrsta er það þannig að lögum er hægt að breyta. Í öðru lagi stendur hvergi í búvörusamningnum að ríkisstjórnin megi ekki vera betri við bændur heldur en þar greinir. Það er ekki bannað að víkja einhverju góðu að landbúnaðinum umfram það sem ríkið er samningsbundið til í búvörusamningnum. Það er nefnilega ekki svo. Góðsemi og greiðasemi er ekki bönnuð í búvörusamningnum eins og sumir virðast halda.
    En fyrst er ástæða til að efna hann. Fyrst er ástæða til að svíkja ekki það sem þar er samið um vegna þess að landbúnaðurinn hefur staðið við sitt sem hefur verið sársaukafullt eins og kunnugt er. Þar hefur verið reynt að hagræða, þar hefur verið náð tökum á framleiðslunni og þar er horfin sú offramleiðsla sem áður var. Menn hafa sætt sig við það að Ísland er eitt fárra ríkja í heiminum sem hefur hætt með öllu að greiða útflutningsuppbætur. Við höfum algerlega horfið frá því og höfum að því leyti til einhliða og fyrir fram uppfyllt, og miklu meira en uppfyllt, okkar skuldbindingar samkvæmt GATT-samningunum að því leyti. Það er því ekki svo að það standi að mínu mati upp á landbúnaðinn í þessum efnum og hann hafi ekki axlað sínar byrðar og staðið við sitt. Það hefur hann fullkomlega gert og þrátt fyrir það að aðstæður til þess hafa verið miklu erfiðari en menn vonuðu vegna þess að aðrir atvinnumöguleikar hafa ekki verið fyrir hendi, kaupmáttarstigið í landinu hefur farið lækkandi og það á sinn þátt í minni neyslu eins og allir hljóta að sjá og skilja. Það hefur jafnan verið svo að þegar kaupmáttur hefur lækkað í landinu þá hefur dregið úr sölu á dýrari hluta neysluvörunnar og hluti búvörunnar er þar með talinn þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt eða neitt sem ætti að koma mönnum á óvart.
    Ég tel óhjákvæmilegt að grípa til víðtækra ráðstafana og þingflokkur Alþb. mótaði á sl. vetri stefnu í þeim efnum. Við lögðum til í þáltill. að gripið yrði til fjórþættra aðgerða: Í fyrsta lagi að gerð yrði tímasett áætlun um það hvernig staðið yrði að málum landbúnaðarins út það sem eftir lifir gildistíma núverandi búvörusamnings, þar með talið hvernig yrði tryggt að við hann yrði staðið og að fyrirheit og skuldbindingar í samningnum yrðu efnd á samningstímanum. Til þess þarf að verja á því sem eftir lifir samningstímans a.m.k. 300 millj. kr. í framlögum til Byggðastofnunar til atvinnusköpunar í sveitum og í sauðfjárræktarhéruðum og til þess þarf að gera stórátak í landgræðslu og skógrækt eða á því sviði og að bændum eða fólki í sveitum verði veittur forgangur að störfum sem við það verkefni skapast. Um það er fjallað í búvörusamningnum.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að gera tillögur um stuðning við hinar hefðbundnu greinar og þá sérstaklega sauðfjárræktina. Þar er eðlilegt að horft sé til þeirra fjármuna sem að óbreyttu sparast vegna minni sölu á innanlandsmarkaði en búvörusamningurinn gerði ráð fyrir. Mér finnst það eðlilegt að samningsaðilar taki slíkt mál upp til viðræðna þegar forsendur breytast eins og þar hefur gerst. Það var ekki ætlunin, það var ekki í neins manns huga, eins og ég hef sagt, að ríkið sparaði þarna mikla viðbótarfjármuni vegna þess að mun minni sala yrði á ferðinni en áætlanir gerðu ráð fyrir.
    Inn í þær viðræður er eðlilegt að taka spurninguna um það hvort breyta eigi þessu fyrirkomulagi og klippa a.m.k. að einhverju leyti á tengingu stuðningsins við söluna á innanlandsmarkaði, þ.e. að hverfa í einhverjum mæli frá því fyrirkomulagi, til að mynda gagnvart sauðfjárræktinni, að minni sala þýði sjálfkrafa minni stuðning við greinina eins og var frá þessu gengið. Mér er fullljóst að í ljósi þessara breyttu forsendna er óhjákvæmilegt að skoða það mál þó að það sé að mínu mati markmið og keppikefli að stuðningurinn verði a.m.k. að hluta til áfram á því formi að hann sé stuðningur við raunverulega framleiðslu, við raunveruleg umsvif í greininni en ekki bara föst greiðsla óháð því hvort menn séu að stunda atvinnustarfsemi á þessu sviði.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að okkar mati að gera ítarlega úttekt á starfsskilyrðum og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra miklu breytinga sem hann hefur gengið í gegnum, bæði af innlendum orsökum og vegna þeirra alþjóðasamninga sem við höfum á skömmum tíma gerst aðilar að og koma væntanlega til með að hafa mikil áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins. Er þá átt við bæði viðaukann við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, sem varðar landbúnað, og GATT-samningana.
    Í fjórða og síðasta lagi er að okkar mati nauðsynlegt að hefja þegar undirbúning að mótun landbúnaðarstefnu til næstu ára og það hefur hæstv. landbrh. reyndar upplýst að standi til og sé þegar í undirbúningi með upptöku viðræðna við Bændasamtökin. Auðvitað er furðulegt að slíkar viðræður skyldu ekki vera í gangi á síðari hluta síðasta kjörtímabils og enn eitt dæmi um sinnuleysi þeirrar ríkisstjórnar í þessum málum að ekkert talsamband skyldi í raun og veru vera á milli bændastéttarinnar og landbúnaðarins í landinu annars vegar og forsvarsmanna þeirrar ríkisstjórnar í málefnum landbúnaðarins. Auðvitað hefðu þær viðræður átt að vera komnar í gang þó ekki væri nema vegna þess að þá var samningstími búvörusamningsins hálfnaður en einnig vegna þess að forsendur höfðu breyst eins og hér hefur verið farið yfir.
    Þessa fjórþættu áætlun teljum við mikilvægt að setja í gang og kæmi auðvitað til greina af okkar hálfu að endurflytja tillögur okkar í þeim efnum en okkur fannst eðlilegt að beðið yrði með það að hæstv. núv. og nýskipaður landbrh. sýndi á spilin í þessum efnum og fram kæmi hvað væri á dagskrá af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur komið fram að það er verið að byrja að vinna að þessum málum. Tíminn er ekki mikill til þess að taka á þessu og er ákaflega nauðsynlegt að unnið verði ötullega að þessu starfi.
    Það er afar óhagstætt til að mynda að þurfa að fresta jafnlengi og hér er lagt til ákvörðun um greiðslumark á verðlagsárinu 1996--1997, færa þá ákvörðun langt aftur fyrir næstu sláturtíð því að þeir sem hafa svolitla nasasjón af framleiðsluferlinu í landbúnaði vita að það er langt og stofnað er til tilkostnaðar vegna framleiðslu jafnvel einu og hálfu ári áður en hún fellur til í þessu tilviki. Þess vegna hefðu bændur þurft að vita hvað er í vændum á þessu verðlagsári þegar þeir taka ákvörðun um ásetning sinn á komandi hausti. Sennilega er það samt betri kostur að fresta ákvörðuninni en að láta hana ganga yfir að óbreyttum aðstæðum. Því er ekki um annað að ræða vegna aðstæðna í málinu en að styðja það.
    Herra forseti, ég hef lokið máli mínu.