Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 17:57:45 (600)


[17:55]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég kippi mér nú lítið upp við það þó að hv. þm. reyni að stimpla afstöðu mína, ef það var ætlunin, sem eitthvað gamaldags eða útúrborulega í þessu. Ég er alvanur slíkum röksemdum manna sem eru komnir í rökþrot, ekki síst í umræðum um þessi mál. Það er mjög gjarnan reynt að afgreiða alla þá sem vilja aðhaldssama stefnu í þessum efnum einmitt með þessum hætti, gera jafnvel grín að því og reyna að gera það gamaldags og hallærislegt að menn reyni að vera sjálfum sér samkvæmir og hafa einhverja stefnu sem þeir framfylgi varðandi það að í þessum efnum þurfi menn að framfylgja aðhaldssamri stefnu. Það á ekkert skylt við einhverjar nýjungar eins og litasjónvarp eða annað slíkt enda kannast ég ekki við að hafa nokkurn tíma látið eitt einasta hnjóðsyrði falla til tækniframfara af því tagi. Hv. þm. verður því bara að hafa fyrir sig orðalepp af þessu tagi.
    Hinu mótmæli ég enn þá kröftuglegar að ég sé með mínum orðum og minni umfjöllun um þetta mál að vega á einhvern hátt að starfsheiðri sjálfstætt starfandi einstaklinga almennt séð. Það er rangt. Ég vísa því til föðurhúsanna að það sé svo. Eða er það þannig að menn þurfi alltaf að taka alla slíka hluti beint til sín? Þó að maður telji eitt fyrirkomulag heppilegra en annað af þessu tagi sé maður þar með að varpa rýrð á þá einstaklinga sem stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi úti í þjóðfélaginu? Auðvitað er það ekki svo. Þetta er bara ekki boðlegur málflutningur. Það er allt annað mál hvort maður er því andvígur að gera viðskipti með tiltekna viðkvæma og sérstaka vöru af þessu tagi að gróðalind vegna þess að þar með koma ný öfl til sögunnar. Það er alveg greinilegt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur ekki skilið hugsunina á bak við það að ríkið sem ber kostnaðinn af ofneyslu áfengis annist jafnframt söluna, kannski ekki fyrst og fremst til þess að ná til sín hagnaðinum af henni, því að það er hægt með ýmsu móti, heldur sérstaklega til þess að tryggja að hagnaðarvon einkaaðila drífi hana ekki áfram. Þetta þarf hv. þm. að reyna að skilja. Með því er ekkert verið að vega að starfsheiðri sjálfstætt starfandi einstaklinga, það er bara rangt.