Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:01:54 (603)


[18:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég kunni ekki við það að forseti væri að gera athugasemd við beitingu mína á rétti til andsvara áðan. Forseti lýsti því sjálfur yfir að andsvör væru til þess að gera athugasemdir eða koma með fyrirspurnir. Það gerði ég, virðulegi forseti, og ég tel það vera misskilning á eðli þessa þingskapaákvæðis að menn þurfi að vera andstæðingar þótt menn vilji beita rétti sínum til andsvara. Það hefur að vísu tíðkast sú venja í þinginu að það eru aðallega menn úr ólíkum flokkum sem beita andsvarsréttinum hver gegn öðrum.
    En andsvarsrétturinn var settur líka fram á sínum tíma að menn gætu borið fram stuttar fyrirspurnir og fengið við þeim svör. Ég gerði það áðan vegna þess að mér fannst mikilvægt upp á framhald umræðunnar að fá að vita hvaðan þessi tillaga um að breyta stjórnskipulagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins væri ættuð og ég fékk í þessum andsvörum svör við þeirri spurningu. Hún er ekki ættuð frá fjmrh. heldur er hún ættuð frá fulltrúum Framsfl. og fulltrúum Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. Það sagði formaður nefndarinnar áðan. Ég tel því að þessum andsvarsrétti hafi verið beitt alveg réttilega í umræðunni til þess að fá þetta mikilvæga atriði skýrt án þess að menn þyrftu að vera að halda langar ræður, virðulegi forseti, og ég bið forseta þess vegna að endurskoða athugasemd sína við það hvernig ég beitti andsvarsréttinum áðan. Ég tel mjög hættulegt ef forsetadæmið ætlar að fara að beita sér fyrir þeirri túlkun að það megi ekki veita andsvör nema menn séu í andstæðum flokkum.
    Ég vil svo til viðbótar geta þess að fyrst nú er búið að upplýsa að það hafi verið fulltrúar Framsfl. og fulltrúar Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. sem komu með þessa tillögu þá er mjög erfitt að ræða það mál áfram vegna þess að það vantar algerlega þá fulltrúa Framsfl. sem stóðu að þessari tillögu. Hvorugur þessara fulltrúa Framsfl. er við umræðuna og reyndar hvorugur í húsinu. Kannski er annar þeirra með fjarvistarleyfi, látum það vera, en hinn hefur farið af vettvangi. Þetta er að mínum dómi svo stórt atriði að ég tel útilokað að ræða það nánar fyrir okkur, m.a. mig og hæstv. fjmrh. og aðra á þingi sem hafa borið ábyrgð á því að stjórna þessu fyrirtæki um nokkurra ára skeið og hvers vegna nú er allt í einu talin þörf á því að breyta þessu fyrirkomulagi. Er það vegna þess að yfirstjórn okkar hefur mistekist? Einhverjir gallar á framgöngu hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar í eftirlitshlutverki hans með rekstrinum á sl. fjórum árum eða mínum í þrjú ár þar á undan eða Þorsteins Pálssonar og hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar þar á undan?
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mér finnst nauðsynlegt að a.m.k. þeir fulltrúar Framsfl. í efh.- og viðskn. sem stóðu að þessari tillögu og þessu nefndaráliti verði kallaðir til umræðunnar og ef þeir koma ekki á vettvang þá verði umræðunni frestað.