Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:33:38 (611)


[18:33]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavari Gestssyni var tíðrætt um þá ágætu hugmynd og tillögu að setja ÁTVR stjórn. Hugmyndin og ástæðan fyrir þessari tillögu hefur verið útskýrð. Það virðist sem ekki hafi komið fram mörg mótrök við þeirri hugmynd, helst þau að núverandi fyrirkomulag hafi gilt í 73 ár, en ég vil vekja athygli hv. þm. á því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verður verslunarfyrirtæki sem stundar smásölu og heildsölu og mun greiða skatta sem innheimtir verða af tollstjóra í gegnum innflutning þannig að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verður ekki deild í Þjóðminjasafninu og ekki eitthvert fyrirbæri sem þarf að varðveita óbreytta í kannski önnur 70 ár eins og manni finnst að hv. þm. sé að ýja að að gæti hugsanlega verið nauðsynlegt.
    Það er einfaldlega þannig að það er til mjög víðtækur ,,litteratúr`` sem ,,jafnlitterer`` maður og hv. þm. ætti að vita um sem fjallar um stjórnskipulag fyrirtækja og hvernig því er best fyrir komið og þar er almennt talið að heppilegt sé að það sé stjórn í fyrirtækjum og ég skil satt að segja ekkert í því að hv. þm. skuli ekki hafa fjallað um þetta mál og kynnt sér það sérstaklega með tilliti til þeirrar bókar sem hann hefur nýlega gefið út en í henni var mjög litið til framtíðarinnar í og er ástæða til að óska honum til sérstakrar hamingju með. Ég vil hvetja hv. þm. þegar hann heldur áfram bókaskriftum að kynna sér nú þetta mál sérstaklega því að við gerð síðustu bókar má ætla að hann hafi breyst úr því að vera sósíalisti yfir í sósíaldemókrata og kannski verður hann bara kapítalisti með því að halda áfram bókaskriftum.