Útvarpslög

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:13:52 (645)


[13:13]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Erindi mitt í ræðustól er einungis að þakka hv. formanni menntmn., hv. 4. þm. Reykn., fyrir afgreiðslu þessa máls. Þegar ég kom að málinu í nefnd hafði hv. 12. þm. Reykv., Bryndís Hlöðversdóttir, lagt fram greinargóða skýrslu um málið þar sem hún vakti athygli á því að eðlilegt væri að þetta frv., sem hæstv. menntmrh. lagði fram, félli inn í útvarpslögin og þar var ég henni alveg sammála.
    Við bentum á það fleiri hv. þm. í nefndinni og það er ekki allt of oft sem það tekst að stjórnarandstaða hafi afgerandi áhrif á afgreiðslu máls. Í þessu tilviki tók hv. formaður nefndarinnar, hv. 3. þm. Reykn., vel í þessa málaleitun stjórnarandstöðunnar í nefndinni og hún á heiður skilið fyrir það, enda held ég að hér sé á ferðinni miklu eðlilegra frv. en hið upphaflega. Ég hef raunar oft bent á í ræðustóli áður að vanda beri til löggjafar og sérlög um smáatriði sem varða stærri lagabálka eiga auðvitað ekki að sjást í lagasafni.
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni fyrir að hafa tekist að ná samkomulagi um að málið hlyti þessa afgreiðslu og við munum að sjálfsögðu styðja það.