Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:53:24 (692)


[15:53]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Það er verið að festa í sessi lög sem gera ráð fyrir því að það sé refsivert að vera góður fiskimaður. Það er verið að setja í gildi ákvæði sem gera það að verkum að síðustu frjálsu veiðimennirnir á Íslandi verða ekki lengur til. Það er verið að lögfesta ákvæði sem gerir það að verkum að heilu byggðarlögin, og þar nefni ég sérstaklega þorp og bæi í Vestfjarðakjördæmi, munu leggjast í auðn vegna þess að trillukarlar sem þar stunda útgerð eru ekki aðeins að vinna fyrir sjálfa sig og fjölskyldur sínar heldur standa þeir undir allri fiskverkun á flestum þessara staða frá vori og til hausts. Þetta eru daprir dagar, virðulegi forseti. Ég vona það að menn skoði sinn hug á milli 2. og 3. umr. og standi við stóru orðin. Ég segi nei.