Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:29:02 (724)


[22:29]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Hjálmars Jónssonar er það rangt að ég hafi vitnað í minni ræðu til Þórðar Friðjónsson varðandi það að landbúnaður hefði gott af aðhaldi. Honum hefur þá misheyrst líklega þegar ég ræddi um að einn forsvarsmanna úr verkalýðshreyfingunni talaði um að ofverndun væri ekki heppileg fyrir íslenskan landbúnað.
    Annað vil ég leiðrétta hjá þingmanninum. Þegar Þórður Friðjónsson ræddi um áhrif GATT-samnings, þá var hann að lýsa skýrslu frá árinu 1992, en ekki að meta það frv. sem nú liggur fyrir. Og eins og ég benti á í minni ræðu, þá er þetta frv. allt öðruvísi en þær forsendur voru sem menn lögðu upp með þegar sú skýrsla var unnin 1992.
    Í þriðja lagi var rangt hjá þingmanninum að við séum að setja okkar tolla eins og aðrar þjóðir. Við erum að setja hér miklum mun meiri tollvernd en langflestar aðrar þjóðir.
    Í fjórða lagi er rangt hjá þingmanninum þegar hann talar um að GATT-samningurinn sé að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Þetta frv. er að gæta hagsmuna lélegrar landbúnaðarstefnu.