Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:32:48 (726)


[22:32]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir síðasti ræðumaður hafa hlustað illa og skáldað ýmsu upp, m.a. því að ég hefði nefnt að það ættu ekki að vera neinir tollar á innflutningi. Það hefur ekki einu sinni hvarflað að mér að slíkt ætti að eiga sér stað heldur finnst mér að það sem skipti máli í þessari umræðu sé það að í því frv. sem hér liggur fyrir er gengið of langt í tollavernd, tollarnir eru of háir. Við höfum margítrekað það í þessari umræðu að öllum þeim sem hafa skoðað þetta frv. og komið á fund efh.- og viðskn. bar saman um það að þessi útfærsla mundi ekki hafa nokkur einustu áhrif. Það hafði þau áhrif að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. ákvað að koma með brtt. sem vissulega mun hafa einhver áhrif og vonandi verða til þess að ná þeim lágmarksinnflutningi sem stefnt er að. Aðalmálið er það, hv. þm., að við stöndum við gerða samninga, að við séum ekki að gerast aðilar að samningum og ætla svo ekki að standa við þá.