Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 20:33:34 (812)


[20:33]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég sætti mig prýðilega við það að enn hafa menn ekki náð að funda um framhaldið. Það skýrist þá væntanlega á næstunni hvernig því verður fram haldið en ég tek undir það sem hér

var rætt í orðaskiptum forseta og starfandi þingflokksformanns míns að auðvitað þarf að vera einhver niðurstaða í því hvernig þessu verður háttað. Menn hafa átt annríkt og fundað linnulaust ýmist í þinginu eða í nefndum þess á milli og til að mynda var efh.- og viðskn. að funda allan kvöldmatartímann þannig að menn hafa ekki haft margar næðisstundir til að sinna öðrum verkefnum. Ég ætla ekki fara að ræða um það hvað var á matseðlinum en hér er til meðferðar mál sem varðar aðra hluti fæðuhringsins, þ.e. drykki.
    Ýmislegt hefur komið upp í þessari umræðu, herra forseti, sem ástæða er til að staldra lítillega við og sífellt er að bætast í málin því að það líður ekki svo dagurinn og varla svo klukkustundin að ekki berist ný gögn og nýjar upplýsingar í málinu, nú bréf eða nýir þættir sem það varðar. Er ég að vitna nú síðast til bréfaskrifta Áfengis- og tóbaksverslunarinnar og fjmrn. sem ég fékk í hendur og dagsett er í dag og í gær. Verður að telja til nokkurra tíðinda að menn skuli þurfa að standa í stórfelldum bréfaskriftum á milli þessara stofnana, verslunarinnar og fjmrn. sem eru í margra hugum nánast eins og eitt og hið sama.
    Það sem mér finnst sérstaklega umhugsunarvert, herra forseti, er sú staðreynd að þetta skuli vera jafnmikið forgangsmál hjá hæstv. ríkisstjórn og raun ber vitni. Þetta var eins og kunnugt er fyrsta málið sem hin nýja ríkisstjórn lagði fram. Fyrsta stórmálið sem hún hafði fram að færa á þessu nýbyrjaða kjörtímabili var einkavæðing á brennivíninu. Það er skaði að hæstv. viðskrh. má ekki við bindast hér, herra forseti, því að það er eiginlega ómögulegt að ræða þetta mál alveg til loka öðruvísi en það sjáist einhverjar leifar af Framsfl. í salnum. Eins og kunnugt er hefur formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., verið allmikið erlendis og virðist hann ætla að verða ekki síðri ferðagarpur en forverinn og er þá langt til jafnað því að eins og kunnugt er þá dvaldi hæstv. fyrrv. utanrrh. svo missirum skipti í útlöndunum, hafði sér það til afsökunar að hann væri að breyta heiminum, gera mikla samninga og umskapa Evrópu á stjórnmálasviðinu, en núv. hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., er líka greinilega nokkuð liðtækur í þessum málum og hefur nánast ekki sést hér heima á Íslandi síðan hann tók við utanrrn. ( KHG: Er hann nokkuð að breyta heiminum?) Nei, hins vegar mun hann ætla að fara mjög hægt að því að breyta heiminum eins og öðru, fara sér í engu óðslega í þeim efnum enda ekki vani hæstv. ráðherra.
    En ég held að það sé ástæða til þess að ræða það aðeins við Framsfl. hvort þetta sé það sem koma skal í stefnu þess flokks og við eigum að taka það svo sem að einkavæðing á brennivíni sé sérstakt forgangsmál Framsfl. og það sé þannig að í öðrum tilvikum megi búast við því sama, að á borðum þingmanna birtist, óbreytt og hrá, einkavæðingarfrumvörp fyrri ríkisstjórnar.
    Þá langar mig líka til að ræða það aðeins við framsóknarmenn, hæstv. forseti, hvort þetta sé í samræmi við kosningaloforðin og í samræmi við það sem flokkurinn ætlaði að beita sér fyrir þar alveg sérstaklega. Satt best að segja er svipurinn sem er að dragast hér upp af hlutskipti Framsóknar í þessari ríkisstjórn með miklum ólíkindum. Glöggir menn tóku strax eftir því að þegar stjórnarsáttmálinn var settur saman og fyrstu hlutirnir komu á prenti frá hæstv. ríkisstjórn, þá vottaði ekki fyrir því að þar eimdi eftir af kosningaloforðum Framsfl., það vottaði ekki fyrir því.
    Næsta ásjóna Framsóknar í ríkisstjórinni var hinn rauðeygði hæstv. félmrh. þegar hann mælti fyrir póstinum frá Brussel. Það var innkoma Framsfl. á sviði númer tvö. (Gripið fram í.) Svo eru það hér þessi brennivínsmál, einkavæðing á brennivínsverslun. Nei, það er ekki þannig, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem labbar hér fram hjá og er alltaf gaman að sjá hv. þm., herra forseti, að það er ekkert verið að minnast á 12 þús. störf í þessum frumvörpum. Ég er búinn að lesa þetta allt saman. Það er ekki minnst á það einu orði í þessum frumvörpum að það eigi að skapa 12 þús. störf á næstu árum. Það er ekkert verið að tala hér um húsnæðismál, stendur ekki neitt um neyðarástand í húsnæðismálum í þessum frumvörpum né heldur um nokkurn skapaðan hlut af því sem Framsfl. var að lofa hér fyrir kosningar. Það er ekki á dagskrá. Það er hvergi í þinginu. Er það þá þetta? Er það í þessu sem efndir á loforðunum felast? (Gripið fram í.) Að einkavæða brennivín? Að koma því í hendurnar á einkaaðilum að græða á brennivíni? Var það til þess sem ungir menn komu á þing fyrir Framsfl. að standa að því sem sínum fyrstu og mikilvægustu málum? Láta hæstv. fjmrh., sem er frægur stuttbuxnamaður úr Sjálfstfl., teyma sig út í svona ógöngur? ( Gripið fram í: Hæstvirtan.) Hæstv. fjmrh., já, ég sagði það.
    Það er athyglisvert að þetta skuli vera ekki bara fyrstu málin þessi brennivínsfrumvörp, þau eru víst frekar þjrú en fjögur, heldur einu málin sem Framsókn er hér með og það algert forgangsmál. Iðnrh. er ekki með snifsi á þessu þingi.( Gripið fram í: Jú, eitt mál.) Eitt mál, jæja. Það hefur lítið farið fyrir því. ( Gripið fram í: Slifsi, jú.) Hann er með slifsi, já, en ekki snifsi. Það er gott að framsóknarmenn geti glaðst yfir einhverju, þeir hafa ekki af mörgu að má þessa daga.
    Þetta metnaðarleysi Framsóknar í stjórnarsamstarfinu hefur auðvitað vakið mikla athygli, herra forseti, og bætir gráu ofan á svart þegar formaður flokksins stoppar varla dagstund í landinu, liggur í ferðalögum og liðið gengur laust hér heima við þetta ástand. (Gripið fram í.) Já, ég get alveg unnt hæstv. iðnrh. þess að reyna að gleðjast yfir þessu, sjá á þessu broslegu hliðarnar. Hæstv. ráðherra veitir ekki af, en svona er þetta samt. Það er eiginlega óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að fara yfir þessa stöðu, hún er svo með ólíkindum hreint.
    Þess vegna er það, herra forseti, sem þetta furðulega hlutskipti er okkur skapað að sitja hér eða standa yfir þessum umræðum eins og þetta sé það sem mest ríður á á Alþingi Íslendinga á þessum vordögum þegar óðum styttist í Jónsmessuna. (Gripið fram í.) Já, það er ekki þannig að menn séu að leggja á sig stíf fundahöld og langar vökur til að koma fram einhverjum áætlunum í atvinnumálum. Nei, það er

ekki svo. Ég býst við því að menn hefðu ekki talið það eftir sér og gera það kannski út af fyrir sig ekki að heldur, en alla vega ekki ef hér hefðu verið á ferðinni einhverjar tillögur sem máli hefðu skipt fyrir land og þjóð, eitthvert átak í atvinnumálum, einhver vísir að því að skapa þessi 12 þús. störf sem Framsókn lofaði. Ef menn væru með eitthvert átak á ferðinni varðandi neyðarástand í húsnæðismálum sem framsóknarmenn af miklum þrótti útlistuðu fyrir kosningar og tókst það bara mjög vel að draga upp verulega dökka mynd af því ástandi enda út af fyrir sig tilefni til. Nei, það er ekki svo heldur láta þeir framsóknarmenn hafa sig í að að styðja frv. um mál sem er algert aukaatriði í þessu samhengi öllu og þeir töluðu gegn á síðasta kjörtímabili, ágætlega margir hverjir, til að mynda hæstv. núv. félmrh. sem hefur lítið ómakað sig inn í þessa umræðu af einhverjum ástæðum. Það er kannski svo að kompásinn hjá honum hafi eitthvað verið stilltur upp á nýtt í þessu efni eins og fleirum.
    Það er líka, herra forseti, ástæða til að staldra við í þessu máli vegna þess að það tengist þessari einkavæðingarumræðu allri saman. Þetta er auðvitað öðrum þræði og kannski miklu meira en hitt einkavæðingarmál. Mér er vel kunnugt um það að hæstv. fjmrh., og hæstv. ráðherrann getur staðfest það ef svo ber undir á eftir, hefði gjarnan kosið að þetta mál væri rekið á hreinum forsendum sem einkavæðingarmál. En menn hafa verið að blanda tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði í málið af og til og mjög óskýrt.
    Það sem okkur stjórnarandstæðingum og þeim sem voru í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili þykir merkilegt er þetta metnaðarleysi Framsóknar að skrifa upp á þennan þátt málsins alveg hreint hráan. Hæstv. félmrh. hefur lent í miklar skógarferðir þegar hann hefur verið að útskýra þau örlög sín að flytja frumvörp til staðfestingar málum sem hann var á móti fyrir nokkrum mánuðum, þáv. stjórnarandstæðingur. Framsóknarmenn gætu reynt að fara með þá röksemdafærslu, jafnbeysin og hún var, gagnvart þessu máli, þ.e. þeim hluta þess sem tengist Evrópsku efnahagssvæði en ekki hinn þáttinn sem er bara spurningin um það að einkavæða. Ég tel að það eigi að fjalla um þetta mál algerlega tvíþætt. Annars vegar það álitamál, sem menn geta vissulega rökrætt um, hvort líklegt sé að í óbreyttu ástandi að þessu leyti felist brot á skuldbindingum okkar gagnvart EES. Það er sjálfstætt mál og hvernig menn taka þá á því, hvort menn vilja láta það ganga til dómstóla eða beygja sig fyrir fram, gefast upp fyrir fram, jafnmikill metnaður og er nú fólginn í því. Hitt er svo þetta með einkavæðinguna. Vilja menn einkavæða þennan þátt í starfsemi hins opinbera? Er það svo að það sé orðin stefna Framsfl. að einkaaðilar eigi að græða á brennivínssölu á Íslandi? Er það svo? Getur ekki Framsfl. --- þessar leifar sem eru hér eftir af honum, herra forseti, svarað því? Er ekki hægt að fá svar við því? Er Framsfl. búinn að taka upp þá stefnu? Er Framsfl. með þessu fordæmi að skrifa upp á þá einkavæðingarstefnu sem var rekin á síðasta kjörtímabili og Framsfl. í nefndaráliti eftir nefndaráliti, í máli eftir máli barðist gegn? Er það svo? Þetta mál er flutt á nákvæmlega sömu forsendum og önnur slík hvað þetta snertir.
    Það er ekki hægt, herra forseti, að ræða um þessi mál þannig að annar helmingurinn af stjórnarflokknum, að vísu minni helmingurinn af stjórnarflokknum, sé bara í felum eða í útlöndum. Það verða að gera svo vel að koma hér upp einhverjir talsmenn þessa flokks og svara fyrir það hvaða pólitíska ábyrgð Framsfl. ber á þessu máli. Hitt er kunnuglegt. Við þekkjum umræðuna við Sjálfstfl. Hana höfum við farið í gegnum áður og hæstv. fjmrh. sem hefur átt sér þessa miklu hugsjón allt frá því að hann var í stuttbuxna- og eimreiðarhópnum að allur ríkisrekstur sé af hinu illa og hlutunum sé ævinlega betur komið í höndum einkaaðila, líka það að græða á sölu vímuefna.
    Nú er það svo að áfengi er eina vímuefnið sem sala er lögleidd á á Íslandi. Samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum er áfengi vímuefni, sambærilegt við kannabisefni eða önnur slík, ,,per definition``, að skilgreiningu til. Það er vímuefni, en það er löglegt að versla með það með tilteknum hætti. Fáum mönnum hefur að vísu dottið í hug að draga þar með samasemmerki milli verslunar með þessa vöru og einhverjar almennar neysluvörur eins og hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, en hann virtist í umræðunum um daginn leggja að jöfnu verslun með brennivín og strigaskó eða eitthvað því um líkt eins og um það gilti alveg það sama. En hann er sérstaklega hugnæmur eins og kunnugt er og hefur víðfrægar skoðanir í þessum málum en er nú í Noregi, því miður. Við þekkjum að öðru leyti afstöðu Sjálfstfl. í þessu efni.
    Hitt er miklu fróðlegra að fá upp á yfirborðið og til umræðu tengsl Framsfl. við þessi mál. Það er algerlega nauðsynlegt vegna þess sem koma skal vegna þess að það eru mjög margir sem segja að hér sé að yfirgnæfandi líkindum til einungis upphafið á lengra ferli á ferðinni. Það skein í gegn í mörgum viðtölum og umsögnum í efh.- og viðskn. að ýmsir aðilar hyggjast fylgja þessu skrefi eftir. Er Framsfl. líka að skrifa upp á það ferli sem ýmsir telja sig vera að setja í gang með þessum breytingum?
    Það kemur til að mynda fram í umsögn Verslunarráðsins að þeir telja að ekki bara innflutnings- og heildsöluumsvif ÁTVR séu til skoðunar hjá ESA heldur öll starfsemi ÁTVR. Reyndar hljóða bæði kærubréfið fræga og svarbréf ESA upp á það. Menn verða því að átta sig á því að þeir eru ekki endilega að ræða einangrað um þennan þátt heldur hluta af stærra ferli sem þarna getur verið í gangi.
    Herra forseti. Varðandi tengsl þessa máls við samningagerðina um Evrópskt efnahagssvæði þá held ég að það sé nauðsynlegt að fara aðeins betur yfir það mál, m.a. vegna ummæla sem ágæt flokkssystir mín lét falla fyrr í dag. Það virðist ekki vera svo að allir muni alveg hvernig þeir hlutir standa. Sem sagt þannig að það var fullyrt af íslenskum stjórnvöldum einmitt þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var gerður að akkúrat þessu fyrirkomulagi þyrftum við ekki að breyta. Mönnum var seldur samningurinn m.a.

út á það að hann skerti ekki á nokkurn hátt fullveldi okkar og réttindi til að hafa svona fyrirkomulag á. Þar gekk meðal annarra fram fyrir skjöldu hæstv. þáv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson.
    Til að tryggja stöðu okkar enn frekar var gefin út yfirlýsing í samningagerðinni um það af hálfu allra ríkisstjórna Norðurlandanna, þ.e. EFTA-ríkjanna fjögurra, að þessi tilhögun væri hluti af félagsmála- og heilbrigðisstefnu Norðurlandanna og þetta fyrirkomulag yrði varið sem slíkt. Hver er rökstuðningur utanrrh. í greinargerð með frv., eins og það var fram lagt, fyrir því að þessi yfirlýsing sérstaklega sé sett fram? Hver er hún? Jú, það er sagt: Þetta er til að styrkja væntanlegar málflutningsástæður Íslands ef til málaferla skyldi koma engu að síður. Það verður ekki hægt að ráða annað af því orðalagi en þar með hafi menn á þeim tíma verið ákveðnir í því að verja sig fyrir dómi ef ætti að sækja að þessu fyrirkomulagi. Og ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að ég tel að þetta séu svik, þetta séu brigður af hálfu þeirra manna sem báru samninginn fram með þessum rökstuðningi þar sem þetta mál var sérstaklega tekið fyrir og gefin voru fyrirheit um það að yfirlýsing ríkisstjórna Norðurlandanna hefði verið sett til þess að styrkja málflutningsástæður þjóðanna ef til dómstólameðferðar kæmi. Er þá einhver ástæða til að gefast upp fyrir fram og breyta þessu án þess að á það reyni fyrir dómstólunum? Er það svona hræðileg hótun, hæstv. fjmrh., að eitt einasta mál færi fyrir þennan dómstól? Sefur hæstv. fjmrh. ekki út af því á nóttunni að það gæti hugsast að dómstóllinn fengi eitthvað að gera? Til hvers er hann ef eitt og eitt mál má ekki lenda þangað til endanlegrar meðferðar?
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki svona röksemdafærslu. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að vera að veifa þessum draug nema menn séu að segja yfirleitt að Íslendingar muni ævinlega gefast upp fyrir fram. Í hvert einasta skipti sem einhver erlendur aðili, eftirlitsstofnun EFTA eða einhver slíkur aðili, gerir athugasemdir þá muni Íslendingar hrökkva allir í baklás og kuðung og gefast upp fyrir fram, biðjast afsökunar á tilveru sinni og í öllum bænum forða því að nokkurt einasta mál lendi fyrir dómstól. Er það eitthvað til að skammast sín fyrir að láta reyna á það fyrir þessum dómstóli hvort okkur er stætt á því að viðhalda hér skipulagi á þessu sviði sem menn hafa lýst yfir að sé hluti af félagsmála- og heilbrigðisstefnu þjóðarinnar og sérfræðingar á þessu sviði telja að hafi gefist vel og nánast allar almannahreyfingar í landinu sem eitthvað koma nálægt vímuefnavörnum, meðferð slíkra sjúklinga eða uppeldis- og fræðslumálum hafa mælt með að verði viðhaldið? Er það svo voðalega ljótt að láta á það reyna hvort okkur sé stætt á því að hafa þetta fyrirkomulag? Og er það virkilega þannig að mönnum finnist betra að gera sjálfa sig að ómerkingum fyrir fram með því að gefast upp í málinu heldur en láta á þetta reyna? Hvar er hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson? Er ekki hægt að fá hann hér til umræðu og ræða aðeins við hann um bækling sem hann gaf út á kostnað þjóðarinnar? Og hvað stendur í þessum bæklingi? Herra forseti. Hvar er hv. þm.? Er hægt að kanna hvort hann sé í húsinu?
    ( Forseti (StB) : Forseti hefur þær upplýsingar að hv. þm. sé ekki í húsinu.)
    Já, hann gæti verið í einhverjum nálægum húsum er mér kunnugt um. En spurningin er hvort hægt er að reyna að hafa upp á hv. þm. og gera honum viðvart um það að nærveru hans sé óskað því að ég tel að það sé réttmætt að óska eftir því, af því að svo vel vill til eða illa, það verður hver og einn að gera upp við sig hvaða orð hann notar, að hv. þm. og hæstv. fyrrv. utanrrh. er hér enn á þingi. Þá er hægt að eiga við hann orðastað. Það er nefnilega þannig að eitt gagnið sem fylgdi afgreiðslu þessa máls var þessi bæklingur, herra forseti. Þetta er mikill og fallegur litprentaður bæklingur, hefur örugglega verið fokdýr, hæstv. iðnrh. og var gefinn út á kostnað þjóðarinnar og undir hann ritar á fyrstu blaðsíðu Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. hæstv. utanrrh. Það segir í upphafsorðunum, með leyfi forseta:
    ,,Þriggja ára erfiðum samningum um stofnun hins Evrópska efnahagssvæðis er lokið.`` --- Maður heyrir hæstv. fyrrv. utanrrh. dæsa eftir allt erfiðið. ,,Samningurinn tryggir okkur aðgang að stærsta markaði veraldar`` --- og bíðum nú við: ,,samfara fullu forræði í eigin málum.`` Já. Eru það þá ekki eigin mál lengur hvernig brennivíni er dreift í landinu eða hvað? Það ætti að vera í lagi miðað við það sem hér var sagt að við réðum því sjálfir úr því að við hefðum fullt forræði í eigin málum.
    En það er ekki allt búið enn, herra forseti, því að í bæklingnum er með fjálglegum orðum lofað ágæti þessa samnings og er nú ekkert dregið úr því hversu mikill búhnykkur þetta allt saman verði fyrir okkur. Það er t.d. sagt að þetta muni stórlega auðvelda útflutning á fiski og öðrum sjávarafurðum frá Íslandi. Þrem vikum eftir að samningurinn gekk í gildi lokuðu Frakkar fyrir allan innflutning á ferskum fiski frá Íslandi. Það var í fyrsta skipti sem eitthvað reyndi verulega á þetta, þá lokuðust frönsku landamærin um skeið eins og kunnugt er. Síðan er farið yfir það hvað EES þýði og hvað það þýði ekki og þó að það komi ekki fram í þessum bæklingi þá kom fram í umræðum um þessi mál að hæstv. þáv. utanrrh., núv. hv. þm., fór mikinn þegar hann skammaðist út í hræðsluáróður og gagnrýni andstæðinga EES-samningsins og taldi að þar væru menn að fara með blekkingar og einmitt eitt dæmið væri það að menn væru að reyna að ljúga því í þjóðina að EES þýddi að það yrði að leggja niður ríkiseinkasölu á áfengi. Til þess að fullvissa þjóðina um að þetta væri misskilningur, hvað gerði þáv. utanrrh.? Hann gaf út bækling og rakti það að EES þýddi þetta og þetta og þetta, sameiginlegan vinnumarkað, samkeppnisreglur og fríverslun með flestan fisk. En svo þýddi EES ekki aðild að Evrópubandalaginu --- ég vissi ekki til þess að neinn hafi haldið því fram en fyrrv. utanrrh. hefur talið rétt að ganga alveg afdráttarlaust frá því að svo væri ekki --- ekki sameiginlega landbúnaðarstefnu, ekki varnarsamstarf, ekki sameiginlegan gjaldmiðil, ekki tollabandalag, ekki samræmda skatta, ekki aðild að Maastricht-samkomulaginu, ekki afnám ríkiseinkasölu á áfengi. Það var síðasta atriðið sem hæstv. utanrrh. taldi ástæðu til að undirstrika. Og það kom iðulega fram og ítrekað að í þessu fælist að okkur væri stætt á því að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi að þessu leyti.
    Er nú eitthvað að undra, hæstv. forseti, þó að menn vilji aðeins fara yfir þessi mál í ljósi þess sögulega bakgrunns í málinu að það liggja hér fyrir skjalfestar blekkingar borið saman við það sem nú er sagt af hálfu stjórnvalda að nú sé okkur nauðugur einn kostur að breyta lögum og skipulagi þessara mála í hvínandi hvelli ella verðum við dæmdir ómerkingar úti í hinum stóra heimi og allt sé í havaríi og voða. Það sé ekkert annað í húfi.
    Það er ekki bara það að menn segðu þetta meðan verið væri að gera samninginn og menn seldu mönnum hann á þessum forsendum, legðu þessi gögn fyrir Alþingi og vonandi þarf ekki að líta svo á að menn hafi a.m.k. ekki vitandi vits dreift röngum upplýsingum, að ég trúi því ekki að nokkur maður hafi í raun og veru gert það eða verið að þessu gagngert í blekkingarskyni. Við skulum vona ekki. En það er ekki allt búið þar með vegna þess að þessi sama skoðun var við lýði mestallt síðasta kjörtímabil. Þá hélt til að mynda fjmrn., sem hæstv. fjmrh. stýrir, uppi kröftugri málsvörn í bréfaskriftum við EES þar sem fullyrt var trekk í trekk og rökstutt að við þyrftum ekki að breyta þessu fyrirkomulagi. Það stæðust öll ákvæði samningsins um EES. Að vísu hefði kannski mátt gagnrýna vissa framkvæmdaþætti varðandi viðskiptahætti ÁTVR sem varðaði það að tryggja öllum fullkomið jafnræði og sjá til þess að ekki gæti verið um mismunun að ræða á grundvelli þjóðernis, en nú væri búið að kippa því í liðinn með breyttum starfsreglum varðandi innkaup og dreifingu á áfengi og þar með væri það alveg ótvírætt að í þessum viðskiptaháttum fælist ekki mismunun og ekki brot á samningsskuldbindingum okkar. Og þegar hv. þm., að vísu í gervi framkvæmdastjóra Verslunarráðsins, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafði kært Íslendinga og sjálfan sig þar með sem einn af þeim sem stóðu að lagasetningunni á sínum tíma þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var lögtekinn og bréfsefni Verslunarráðsins hafði verið notað til að skrifa eftirlitsstofnuninni 30. des. 1993, hvað gerðist þá? Þá brást eftirlitsstofnunin hart við og spurði Íslendinga snúðugt hvað hér væri eiginlega á ferðinni, hvers konar eiginlega tilhögun þetta væri sem hefði verið kærð. Fyrir svörum varð fjmrn., ráðuneyti hæstv. fjmrh. Og svo merkilegt sem það nú er liggur það skjalfest fyrir að allt árið 1994, sl. ár, stóð fjmrn. undir forustu hæstv. fjmrh. í linnulausum bréfaskriftum við ESA þar sem inntakið var rökstuðningur á því að við þyrftum ekki að breyta neinu. Þetta fyrirkomulag stæði. Er hæstv. fjmrh. ekki sammála? ( Fjmrh.: Fram á þetta ár.) Allt fram á þetta ár. Ég þakka. (Gripið fram í.) Hvað hefur breyst? Er þá nokkur ástæða til þess að vera banginn? Ekki hafa menn verið að skrifa þetta bréf bara út í loftið. Það hlýtur að hafa verið einhver sannfæring á bak við. Ekki skrifa bréfin sig sjálf í fjmrn. og ekki er fjmrn. að senda út bréf, svona ábyrg stofnun öðruvísi en það sé með samþykki fjmrh. enda bréfin sjálfsagt undirrituð ef ekki af ráðherra sjálfum þá a.m.k. f.h.r.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þess vegna skil ég ekki að menn skuli vera svo feimnir við að láta reyna á þá afstöðu sem þeir hafa haft, höfðu við samningagerðina og hafa síðan linnulaust varið og rökstutt allt fram á þetta ár. Hvað er þá að því að láta þetta ganga fyrir dóm? Ég tel að við eigum alveg hiklaust að verja okkur eins og við getum í þessu máli og gera þá frekar einhvern tímann síðar meir og í rólegheitum breytingar á þessu fyrirkomulagi á okkar eigin forsendum ef okkur sýnist svo, en láta ekki hóta okkur til þess. Þetta er ekki bara sagt vegna þessa máls hér, herra forseti, án þess að lítið sé gert úr því vegna þess að hér er á ferðinni prófmál að þessu leytinu til. Þetta er fyrsta meiri háttar klögumálið af þessu tagi sem kemur fram af hálfu þessara eftirlitsaðila varðandi atriði sem við höfum talið að okkur væri stætt á að hafa með öðrum hætti.
    Hvað gerist nú ef sambærilegir árekstrar koma upp til að mynda varðandi, við skulum segja, þær takmarkanir sem við höfum ætlað okkur að viðhafa í okkar sjávarútvegi, til að mynda að þeir verði ekki sammála okkur í sambandi við túlkun á því hvað skuli teljast frumvinnsla sjávarafla? En það er sá fyrirvari sem við höfum að við getum takmarkað umsvif eða komið í veg fyrir umsvif, eftir því sem okkur líkar, útlendinga í veiðum og frumvinnslu sjávarafla. Segjum nú svo að þetta væri klögumál út af einhverju slíku --- því hver veit hvað Verslunarráðinu dettur í hug að kæra næst, hver veit það, nóg er til af bréfsefninu --- mundi þá afstaða íslenskra stjórnvalda vera sú sama að um leið og við fengjum athugasemdir og einhverjar aðfinnslur frá eftirlitsstofnuninni, þá gæfumst við upp og þyrðum ekki að láta reyna á málstað okkar fyrir hinum erlenda dómstóli?
    Það eru þessar grundvallarspurningar í málinu sem við erum að ræða hér, herra forseti. Þetta er nefnilega stórmál. Þetta getur orðið verulegt fordæmi fyrir því hvernig síðari samskipti af þessum toga þróast. Og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það alveg yfirgengilegt metnaðarleysi af íslenskum stjórnvöldum að ætla að bogna í hnjáliðunum fyrir fram og gefast upp í máli sem ætti ekki að vera erfiðara að verja en þetta, að menn væru að verja það sem þeir teldu vera mikilvægan þátt í félagsmála- og heilbrigðisstefnu þjóðarinnar. Og það er ekki eins og við séum að þessu af einhverri taumlausri eiginhagsmunagræðgi eða öðru slíku heldur er hér á ferðinni samkvæmt okkar skilgreiningu félagslegt mál og heilbrigðismál. Hvað þora menn að reyna að verja ef ekki slíka þætti?
    Ég held að menn eigi ekki að komast upp með það að fela þetta mál á bak við einhverjar svona umbúðir eins og hefur verið reynt að gera heldur að setja það í það samhengi sem það verðskuldar. Þessi sögulegi bakgrunnur málsins er mjög stór og hlutur ýmissa aðila í því efni er náttúrlega með miklum endemum, svo sem hæstv. fyrrv. utanrrh. sem skrifar upp á álit meiri hlutans fyrirvaralaust, eðlilega, hafandi þó selt mönnum samninginn og rekið áróður fyrir honum á kostnað hins opinbera í bæklingaútgáfu og með öðrum hætti segjandi hið gagnstæða, að engin ástæða standi til að breyta þessu fyrirkomulagi.
    Síðan er það svo, herra forseti, að þrátt fyrir tilburði til að halda því fram í byrjun að þetta mál breytti engu um stefnu okkar Íslendinga í áfengismálum þá er meiri hlutinn kominn heldur betur á flóttann í því efni. Og nú er boðað að til að friða samviskuna þá eigi að setja einhverja aura í forvarnasjóð og skal ekki lítið gert úr því að fjármunir séu settir í það verkefni en heldur er samhengið nöturlegt. Eins og til að friða samviskuna þá hefur talsmönnum meiri hlutans tekist að særa út úr hæstv. fjmrh., sem er ekki laus á aurana eins og kunnugt er, einhverja fjármuni sem boðað er að verði kynntir við seinni umræðu um annað frv. og eigi að ganga í einhverjar forvarnaaðgerðir.
    Ég vil gjarnan taka hæstv. fjmrh. og hv. meiri hluta á orðinu og samþykkja það í hvínandi hvelli, þess vegna strax í kvöld, að Íslendingar setji eins og 25 millj. á ári til viðbótar í forvarnaaðgerðir gagnvart vímuefnum og þó fyrr hefði verið og meira, en við þurfum ekkert að vera að blanda því saman við þetta mál, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er með öllu ástæðulaust nema menn vilji hafa það þannig, þeir vilji að þetta sé bundið við afgreiðslu þessa máls, sem vonandi er ekki, herra forseti. Það er til ákveðið orð á íslensku yfir slíkt, ef það væri það sem væri þarna á ferðinni. Nei, ef menn telja ástandið í þessum efnum úti í þjóðfélaginu vera þannig að ástæða sé til að gera átak þá er það gott og ég fagna þeim sinnaskiptum. Hæstv. fjmrh. hefur ekki verið mikið á þeim buxunum þau fjögur ár eða á fimmta ár sem hann hefur stjórnað ríkiskassanum og menn telja sig naumt haldna sem eru að sinna starfi á þessu sviði eins og kunnugt er. Frægur er mikill niðurskurður til félagasamtaka sem fara með veigamikið hlutverk í þessum efnum eins og til að mynda SÁÁ sem hafa á undanförnum árum mátt berjast fjárlagagerð eftir fjárlagagerð fyrir, mér liggur við að segja lífi sínu, til að halda sínum meðferðarstofnunum opnum. Það var örlætið hér á undanförnum árum. En nú er allt í einu fundnir aurar til að reyna að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls með mjög, mér liggur við að segja, ósmekklegum hætti.
    Ég tel að langgáfulegasta afgreiðslan á þessu máli, herra forseti, væri sú að vísa því í heild sinni til ríkisstjórnarinnar eins og reyndar er lagt til í okkar nefndaráliti og fela ríkisstjórninni það sem hún er bersýnilega að gefast upp við af miklu metnaðarleysi að verja málstað Íslands út á við í þessum efnum, að verja hann eins og upphaflega var ætlunin og menn settu sér sérstaka fyrirvara í sambandi við og allt hvað er. Ef það kynni að verða niðurstaða manna, eins og ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson höfum verið að kynna, að einhverjar laga- og/eða skipulagsbreytingar væru innlegg í það mál af okkar hálfu gagnvart t.d. því að undirstrika það í löggjöf að öll mismunun gagnvart einstökum aðilum í innflutningi sé ómöguleg að lagaboði þá er sjálfsagt mál að skoða slíkt. Ef hinar nýju reglur, sem reyndar hafa verið samþykktar af fjmrn. og bornar undir eftirlitsstofnun EFTA eru ekki nógu fullkomnar þrátt fyrir það þá má skoða það mál, hvernig sem menn ætla að fara að því að allar heimsins brennivínstegundir geti alltaf verið hér á boðstólum hverju sinni. Það er sjálfsagt nokkuð langsótt að svoleiðis geti það verið. En a.m.k. að tryggja að sambærilegir aðilar fái sambærilega meðhöndlun. Það ríki jafnræði og ekki séu fólgnir í viðskiptaháttunum sjálfum möguleikar á mismunun. Þá er alveg sjálfsagt mál að gera slíkt en annað ekki. Að öðru leyti eigum við að standa á því að við viljum ráða þessum málum sjálf og hafa þau eins og við teljum heppilegast og hyggilegast. Við töldum okkur á sínum tíma hafa rétt til þess og við eigum ekki að láta þann rétt eftir baráttulaust. Það er með miklum ólíkindum ef menn ætla að snúa þannig við blaðinu.
    Herra forseti. Það er að vísu búið að fara ágætlega yfir þann þátt málsins sem snýr að þeim breytingum sem mundu leiða af þessu frv. og þeim sem fylgja. Það hefur verið gert og ég hef svo sem ekki miklu þar við að bæta. Ég vil þó undirstrika að það þýðir ekki fyrir menn að horfa fram hjá tölulegum staðreyndum í umræðum um mál af þessu tagi. Það ber dálítið mikið á því að menn vilji ýta öllu slíku til hliðar. Það að reyna að vitna í það hvernig til að mynda hafi gengið hjá öðrum þjóðum miðað við mismunandi fyrirkomulag að þessu leyti er stundum afgreitt sem eitthvert bull, eitthvert templarakjaftæði sem ekkert eigi erindi inn í málið, eitthvað sem ekki sé í tísku. Það má helst ekki minnast á það til að mynda að árangur Norðurlandanna fjögurra sem hafa viðhaft tiltekið fyrirkomulag og rekið aðhaldssama stefnu í þessum málum, stendur alveg upp úr. Nærtækt er auðvitað að bera saman mismuninn í ástandi áfengismála annars vegar á Norðurlöndunum fjórum sem hafa haft aðhaldssama stefnu og rekið ríkiseinkasölu og hins vegar til að mynda í Danmörku og á Grænlandi. Halda menn að það sé einhver tilviljun að drykkjan er til muna meiri og mest í þessum tveimur Norðurlandanna þar sem miklu meira frjálsræði ríkir og þessi vara er á boðstólum út um allt og í almennum búðum? Það er væntanlega ekki tilviljun vegna þess að þessi reynsla fellur saman við það sem er að finna alls staðar annars staðar í veröldinni liggur mér við að segja.
    Annað mjög gott dæmi er mismunandi ástand þessara mála í Bandaríkjunum þar sem fylkin hafa sjálfræði. Þau eru ekki í neinu EES, þau hafa sjálfræði og þurfa ekki að hlíta neinum boðum ekki einu sinni frá Washington. Þau ráða sér sjálf í því hvaða áfengisstefnu þau hafa innan sinna landamæra. Þannig er það að einstök fylki Bandaríkjanna hafa tiltölulega mjög mismunandi löggjöf í þessum efnum og sum þeirra hafa meira að segja prófað mismunandi fyrirkomulag. Það er því hægt að fara yfir það og bera þau saman, annars vegar þau sem hafa til langs tíma haft eina tilhögun eða aðra og það er líka hægt að fara yfir reynsluna af því hvernig breytingar hafa komið út í einstökum ríkjum, til að mynda í Virginíu, Iowa og víðar þar sem menn hafa farið út í að opna viðskipti með vín og setja þann varning í almennar matvörubúðir. Niðurstaðan er sú að þar hefur sala stóraukist, víndrykkja aukist til mikilla muna. Reyndar svo risavaxið að maður trúir því varla fyrr en maður skoðar það betur.
    Í þeim tilvikum sem menn hafa tekið skref í hina áttina sem eru líka til dæmi um þá hefur það skilað árangri, þ.e. horfið aftur til aðhaldssamari stefnu.
    Þeir eru að vísu að burðast með það að þjóðin fær að ráða þar yfirleitt, það er hægt að kalla fram atkvæðagreiðslur um það hvaða tilhögun menn vilja hafa, fólkið ræður því sjálft. Það fékk ekki hljómgrunn hér þegar EES-samningurinn var kynntur, þjóðin mátti ekki ráða því sjálf í almennri atkvæðagreiðslu því það var beitt hér af fantaskap naumum meiri hluta til að koma í veg fyrir að sá samningur yrði borinn undir þjóðaratkvæði. Manni verður að vísu hugsað til þess að hefði það gerst þá hefðu málskjölin að hluta til verið fölsk sem lögð hefðu verið fyrir því meðmælendur samningsins, ef til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið, hefðu væntanlega haldið fram þeim málflutningi að ekki þyrfti að hrófla við áfengiseinkasölunni þó við gerðumst aðilar að samningnum. En nú er annað upp á teningunum. Kannski hefðu varnaðarorðin mátt sín einhvers og a.m.k. sýndu skoðanakannanir á þeim tíma að oftast var helmingur og reyndar meiri hluti þjóðarinnar andvígur samningnum. En það mátti ekki koma fram, menn máttu ekki kjósa um þetta.
    Ég held að það þýði ekkert annað, herra forseti, enda má segja að meiri hlutinn sé á flótta undan því að reyna að selja okkur það að í þessu frv. felist ekki grundvallarbreyting á áfengisstefnu okkar Íslendinga og til marks um það er nú hinn nýtilkomni áhugi meiri hlutans á forvarnamálum. Þeir átta sig á því að málið er komið í það samhengi sem því ber.
    Herra forseti. Ég nefndi það í byrjun að það væru miklar bréfaskriftir þessa dagana. Þar á meðal er svo komið að það ganga á linnulausar bréfaskriftir milli Áfengis- og tóbaksverslunarinnar og fjmrn. Bréfin eru örugglega boðsend, ég spái því því þau eru fljót í förum. Áfengisverslunin skrifar 12. júní fjmrn. og segir þar, með leyfi forseta, að athygli forstjóra ÁTVR hafi verið vakin á því að meiri hluti efh.- og viðskn. hafi lagt fram tillögur um breytingar á 1. mgr. 2. gr. laganna um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Í tillögu nefndarinnar segi: ,,Þess skal gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum birgjum.`` Þeim finnst þetta nokkuð undarlegt hjá Áfengisversluninni vegna þess að þeir vita ekki betur en að þeir starfi samkvæmt reglum sem staðfestar eru einmitt af fjmrn. og þær hafi verið birtar hvorki meira né minna en í B-deild Stjórnartíðinda, nr. 158/1995. Þar eru þessar reglur eins og kunnugt er um val á áfengi til sölu í reynsluflokka, kjarna og mánaðarflokka og hvað það nú er. Allt saman samkvæmt föstum reglum og svo ræður markaðurinn því hvaða tegundir veljast í hvaða flokka og er það nú ekki markaðurinn sem á að ráða? Ég hélt það. Svo koma að vísu þessar reglur um vín í sérvalsflokki sem er afar flókin vísindi og samkvæmt huglægu mati. Það er talið nánast útilokað að rökstyðja veru einstakra tegunda í þeim flokki með jafnræðisreglu.
    Það kemur jafnframt fram í þessu bréfi að þessar reglur voru bornar undir eftirlitsnefnd, sem gæti átt að vera eftirlitsstofnun EFTA, og voru þar engar athugasemdir gerðar. Spurningin er því sú hvort árétting Alþingis um jafnræði umfram þessar reglur beri að skiljast þannig að reglurnar séu eigi fullnægjandi. Þeim finnst eðlilegt að farið sé betur yfir þessa hluti og út af fyrir sig má taka undir það. Síðan eru í bréfinu lagðar fyrir sérstakar spurningar varðandi aðra þætti sem þeim finnst ástæða til að fá á hreint.
    Varðandi þann þátt málsins hvort þessar reglur séu ekki fullnægjandi þá má sjálfsagt deila um það hvort einhvers staðar sé hægt að finna á þeim veikleika. Eins og ég sagði áður þá teldi ég í sjálfu sér ekkert að því ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að ganga enn þá tryggilegar frá þessu með lagaákvæðum, með enn þá fortakslausari ákvæðum en nú eru í gildi, að gera það. Það getur aldrei sakað að ganga þannig frá því. Með því er ekki verið að segja að fyrri reglur hafi ekki verið góðar og þess vegna fullnægjandi en það má náttúrlega lengi reyna að valda hlutina enn þá betur.
    Síðan er spurt um þátt sem ég gerði lítillega að umtalsefni fyrr í þessum umræðum eða við 1. umr. og mig langar til að fara aðeins betur yfir. Það er spurningin um þá fjárbindingu sem stofnunin getur orðið fyrir með gildistöku þessara breytinga ef af yrði. Það er að vísu spurt sérstaklega um það hvort ÁTVR geti við einhverjar aðstæður lent í því að binda fé vegna vínandagjalds af spíra. Og hvort við mat á rekstrarfjárþörf sé gert ráð fyrir fé til þeirrar greiðslu. Enn fremur er spurt hvort afhending úr tollvörugeymslu sé talin jafngilda því að fá sent áfengi erlendis frá.
    Síðan vekur forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem undir þetta ritar, athygli á því í bréfi þessu, sem ljóst má vera, að hér séu á ferðinni miklar breytingar fyrir fyrirtækið, fyrir tollstjóra og fyrir skattstjóra og það sé ógætilegt að ætla að 2--6 vikur um hásumarleyfistíma þær nægi til nauðsynlegra breytinga. Er þá enn einn þáttur þessa máls kominn hér upp til umræðu sem lítið hefur verið ræddur. Það er gildistakan og það að menn ætla að skella þessu til framkvæmda strax.
    Þegar ég spurðist fyrir um þessi fjárbindingarmál þá fékk ég þau svör, m.a. í efh.- og viðskn., að þessum hlutum væri ætlað að mætast í einum punkti 1. ágúst nk. þegar lögin tækju gildi þannig að þá hæfist innheimta áfengisgjalds og félli niður í staðinn skil Áfengis- og tóbaksverslunarinnar á þeirri álagningu á áfengi sem hefur verið jafngildi áfengisgjaldsins hingað til. Lagerinn á fullu útsöluverði yrði þá væntanlega eign Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. heyrir þetta, herra forseti, honum er margt til lista lagt, hæstv. ráðherranum, en að tala við tvo í einu og hlusta jafnframt á þriðja ræðumann er spurning hversu vel tekst hjá hæstv. ráðherra. En ég teldi ástæðu til að hæstv. ráðherra færi

aðeins betur yfir þá þætti í svörum einhvern tímann síðar í umræðunni sem varða fjárbindinguna og fjárhagslega útkomu stofnunarinnar í þessu samhengi. Þeir spyrja um einn tiltekinn þátt, sem er möguleg fjárbinding vegna spírainnflutnings, en hitt er auðvitað miklu stærra mál að verðmæti lagersins sem er á hverjum tíma að rúlla í gegn hjá stofnuninni með fullu áfengisgjaldi er væntanlega mældur í milljörðum kr. Og til þess að ekki þurfi sérstaklega að koma til fé vegna fjárbindinga á lager sem er þá kominn með fullt áfengisgjald eftir að hafa verið leystur út úr tolli þá þarf stofnunin með einhverjum hætti að hafa sambærilega fjármuni á móti. Ég hef skilið málið svo að þeir eigi að myndast með því að lagerinn, eins og hann stendur við gildistöku laganna, verði þá eign fyrirtækisins á fullu verði og þar standi þá þau verðmæti á bak við sem til þarf. Þannig verði síðan fært úr útsölu af lager jafnóðum fjármunir yfir í það að innleysa úr tolli nýjar birgðir með fullu áfengisgjaldi. Það getur vel verið að þetta gangi allt upp og standist nokkurn veginn á og þá gott og vel. Að hinu leytinu til vísar svo fjmrn. í svarbréf dags. í dag í þau miklu vísindi að ÁTVR sé að vísu í fullri eigu ríkisins og því á færi fjmrn. að ákveða henni rekstrarfé.
    Nú vissi ég ekki til að þeir hefðu sjálfstætt fjárveitingavald í fjmrn. með þeim hætti í sjálfu sér að þeir gætu lagt einstökum ríkisstofnunum til rekstrarfé eftir ,,behag``, en það mætti helst halda það af texta bréfsins. Auðvitað mundi það ekki ganga þannig heldur yrði þá að afgreiða hér væntanlega fjáraukalög eða afla heimilda til fjárveitinga til fyrirtækisins ef til slíks þyrfti að koma.
    En um þennan þátt málsins, sem er nú býsna stór því þarna eru á ferðinni, eins og áður segir, milljarðaviðskipti og lager til að mynda sem sjálfsagt er eitthvað á annan milljarð króna að verðmæti eins og hann stæði á hverjum tíma með fullri álagningu eða fullu áfengisgjaldi, hef ég enga útreikninga séð um það hvernig þetta eigi að mætast eða parast. Það væri þess vegna ástæða til og fróðlegt, herra forseti, ef hæstv. fjmrh. færi betur yfir þennan þátt málsins og upplýsti þetta sérstaklega með tilliti til þess að --- Herra forseti. Ég er aðeins að spekúlera í því hvort við eigum ekki að gera hlé á fundinum þannig að hæstv. fjmrh. geti lokið sínum fundi í hliðarsalnum. Ég er alveg tilbúinn til þess að gera hlé á ræðu minni, fara niður og fá mér kaffi og slappa af og koma hér svo aftur endurnærður þegar hæstv. fjmrh. hefur lokið sínum fundi. (Gripið fram í.) Þá verður hæstv. fjmrh. kannski svo vinsamlegur að koma í salinn og sitja undir þessari umræðu ( Fjmrh.: Maður er ekki skyldugur að horfa í . . .  ) Nei, herra fjmrh. Þú mátt gjarnan horfa ofan í gaupnir þínar.
    Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er of viðkvæmt mál að fara út í það að þetta sé alveg sérstakt prívat áhugamál hæstv. fjmrh. að koma þessum málum í gegnum þingið og það jafnvel svo að hæstv. fjmrh. hafi uppi um það stór orð að hér skuli menn sitja dag og nótt hvað sem tautar og raular yfir þessum málum þangað til þau eru komin í gegn. Það væri fróðlegt að hæstv. fjmrh. upplýsti okkur einnig um hvort það sé rétt að þetta sé sérstakt persónulegt áhugamál hæstv. fjmrh., honum sé þetta eiginlega hugsjónalegt kappsmál að koma þessari einkavæðingu á brennivínsversluninni hér í gegn. Eitthvað hlýtur a.m.k. að valda því að þetta ofurkapp er lagt á málið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að hér eru látnir standa kvöldfundir og guð má vita hvað dögum oftar til þess að reyna að mjaka þessu áfram. Ég held að hæstv. fjmrh. skuldi okkur a.m.k. einhvern rökstuðning á því að svona mikið liggi við, að það sé slíkt ógurlegt áfall ef þetta mál kæmi til einhverrar dómstólameðferðar af hálfu EFTA-dómstólsins að við mundum ekki þola það í sumar. Nú er það væntanlega þannig fyrir þessum dómstóli eins og öðrum að hægt er að gera dómsátt ef mönnum sýnist svo, draga málið út á síðari stigum ef niðurstaða fæst eða samkomulag eða eitthvað því um líkt. Án þess að ég viti nákvæmlega hvernig þetta apparat starfar þá gef ég mér að að þetta hljóti að lúta einhverjum starfsreglum og siðum af því tagi sem algengir eru í slíkum tilvikum þannig að ég get a.m.k. ekki séð að það væri tekin slík óskapleg áhætta þó menn létu á það reyna hvort þeir gerðu alvöru úr hótunum sínum í Brussel.
    Herra forseti. Sá grunur hefur læðst að mér að við séum að einhverju leyti fórnarlömb þeirrar stöðu sem er uppi í þessu Evrópska efnahagssvæði, að þetta átti að verða tveggja stoða kerfi sem átti að standa um langan aldur. Svo gufaði þetta meira og minna upp því að öll ríkin nema tvö gengu inn í Evrópusambandið. Eftir sátu menn með fínar stofnanir, vel mannaðar með hámenntuðum og sprenglærðum eftirlitsmönnum og dómurum á háu kaupi, feiknalegu kaupi og margir íslenskir kratar komust þarna í góð embætti. Síðan hafa menn setið úti í Brussel og meira og minna nagað neglurnar. Þeir hafa ekkert haft að gera. Kærubréfið frá Verslunarráðinu hefur því örugglega komið eins og himnasending enda brugðust þeir skjótt við og voru þó áramót og margir helgidagar þegar erindið kom. En nokkrum dögum seinna var svarið komið um hæl frá Brussel. Það bendir ekki til þess að það hafi legið það langir listar af ofangreindum erindum frá eftirlitsstofnun EFTA þegar kæran kom.
    Herra forseti. Þess vegna hefur læðst að mér sá grunur að við séum fórnarlömb, þessar fínu stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins hafi ekkert að gera og þess vegna hamist þær svona á okkur. Þær þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og menn þurfa að sanna tilverurétt sinn á einhvern hátt og þá er upplagt að standa í svona bréfaskriftum og skaki við Íslendinga út af þessu stórmáli. Er þá ekki allt í lagi að láta það bara hafa sinn gang og láta reyna á þennan dómstól o.s.frv.? Ég veit ekki betur en við höfum sent þangað út þekktan fyrrverandi hæstaréttardómara, gott ef ekki kúplað honum út úr Hæstarétti til að manna plássið vel og í eftirlitsstofnun EFTA er einhver sprenglærðasti ráðuneytisstjóri og opinberi embættismaður þjóðarinnar um langt skeið, stórættaður maður úr Alþfl. Það er því aldeilis ekki í kot vísað hvað varðar mönnun okkar þarna úti. Við skyldum því ætla að við værum sæmilega í stakk búnir til að taka á svona málum þegar þau koma upp. Ég held að það sé þá ágætt að láta á þetta fyrirkomulag reyna.
    Herra forseti. Ég ætla þá að fara að ljúka máli mínu og hef í sjálfu sér að mestu leyti tæmt umræðuefnið að því leyti sem ég ætlaði að fara yfir hluti í þessari ræðu, annarri ræðu í umræðunni, en ég sakna þess alveg sérstaklega að ekki skuli hafa tekist að hafa upp á hæstv. fyrrv. utanrrh., núv. hv. þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Ég get flett upp á númerinu, hann mun vera 9. þm. Reykv. um þessar mundir. Mér finnst eiginlega ómögulegt að láta umræðunni ljúka þannig að við getum ekki náð orðaskiptum við hv. þm. um ábyrgð hans og aðild að málinu á fyrri stigum og þá sérstaklega þessa bæklingaútgáfu.
    Ég hefði líka óskað eftir því, herra forseti, að forseti kannaði hvort ekki væri hægt að fá upplag af bæklingnum og dreifa á borð þingmanna og það er ósk mín til forseta að bæklingnum verði dreift sem fylgigagn með umræðunni. Ég gerði lauslegar athuganir á því hvort hann væri að finna á svæðinu og varð að endingu að fá lánað eintak frá Bókasafni Alþingis. Nú er ekki alveg útilokað að bæklingurinn hafi verið prentaður í það ríflegu upplagi að eitthvað sé afgangs uppi í utanrrn. og þá veit ég að þeir mundu gera það alveg eins og skot að senda okkur 63 eða 62 stykki þannig að það mætti dreifa þessu merka gagni á borð þingmanna. Ég held að það sé ástæða til þess að það liggi fyrir.
    Ber að skilja það svo að hæstv. forseti hafi ekki neinar fréttir af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni þannig að ekki líti út fyrir að ég geti átt við hann orðastað að þessu sinni?
    ( Forseti (StB) : Samkvæmt upplýsingum forseta er hv. þm. ekki í þinghúsinu en það er sjálfsagt að kanna hvort hann er nærri þannig að hann geti komið í salinn. En eins og er þá er hv. þm. ekki í þinghúsinu.)
    Þá verður að sæta því en ég vona að reynt verði að gera gangskör að því að hafa upp á hv. þm. þannig að ég geti átt þess kost að eiga við hann orðastað síðar í umræðunni. Eins er það ef svo skyldi fara að þessi umræða ætti eftir að standa einhvern tíma að fróðlegt væri að vita um ferðalög hæstv. utanrrh., hvort hæstv. forsetar hafa upplýsingar um það hvenær þess sé að vænta að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. verði kominn til þingstarfa. Mér finnst sömuleiðis mjög mikilvægt --- án þess að ég sé að lasta nærveru til að mynda hæstv. iðnrh. og alls ekki að segja að hann sé ómyndugur á nokkurn hátt til þess að svara fyrir Framsfl. --- að forseti mundi góðfúslega kanna undir umræðunni hvað væri að frétta af ferðalögum hæstv. utnarrh. og hvenær hann yrði væntanlegur til þingstarfa. Aldrei er að vita nema þannig stæði þá á að umræðunni væri ekki lokið eða henni væri þá frestað þangað til hann kæmi heim þannig að við gætum átt þess kost að eiga einnig orðastað við hv. formann Framsfl. um þetta mál.