Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:07:09 (833)


[15:07]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. sagði: Við viljum engar kollsteypur. Þetta verður að gerast á aðlögunartíma, en svaraði sér sjálf síðar þegar hún sagði: Það hefur enginn haldið því fram að það ætti að fara kollsteypuleið, að það ætti að opna fyrir tollfrjálsan innflutning. Það hafa allir viðurkennt, enda samningsbundið, að gefa bændum eðlilega tollvernd í upphafi. En kannski er höfuðgallinn, sá langsamlega versti á útfærslu ríkisstjórnarinnar, sá að aðlögunartíminn er ekki nýttur, tollarnir eru stilltir af nægilega háir til þess að koma í veg fyrir viðskipti og eiga ekkert að lækka á aðlögunartímanum, ekki neitt, hvorki að því er varðar almennt 97% hluta af markaðnum né lítilræðið 3%. Þeir eiga ekkert að lækka og það er gert með ráðnum hug að hafa það með þeim hætti. Þess vegna fer tækifærið til þess að nýta þennan aðlögunartíma með lítils háttar fyrstu skrefum í átt til innflutnings forgörðum. Og við vitum það af langri reynslu að einokunarkerfi bregðast ekki við nema með aðhaldi samkeppni. Það hélt ég að þyrfti ekki að kenna hv. þingmönnum Sjálfstfl. og allra síst hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur.
    Að því er varðar málamiðlun, að þetta sé málamiðlun, þá er það einmitt það sem er að, þetta er ekki málamiðlun. Þetta er einhliða ofríki sjónarmiða framleiðenda staðfest af því að það var ekki haft eitt einasta orð í samráði við fulltrúa Neytendasamtakanna samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra þess.