Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:45:26 (845)


[15:45]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þau skref sem við erum að stíga með þessu samkomulagi núna hafa verið margsinnis rakin hér í þessari umræðu, þ.e. að breyta frá innflutningshöftum í það að opna fyrir viðskipti. Það er stóra skerfið sem við tökum á þessu stigi. Síðan í framhaldi af því vænti ég þess að þessi samningur hafi áhrif á ýmsa þætti okkar efnahagslífs og með tímanum, þegar við höfum náð að aðlaga okkur að þeim breyttu aðstæðum, þá leiði það væntanlega líka til lægra vöruverðs og betri lífskjara. Ég dreg ekkert úr þeim markmiðum sem hv. 8. þm. Reykn. hefur sett hér fram. Þau verða þá að vera þannig úr garði gerð, framkvæmdin þannig, að það eigi við um alla heildina og við byrjum ekki á því að stíga skref inn í þetta margrómaða frelsi og þetta framtíðarland með því e.t.v. að misbjóða einni atvinnugrein, ég tala nú ekki um ef það hefði þau áhrif eða þær alvarlegu afleiðingar að hún hreinlega hryndi. Ég vona að svo verði alls ekki og ég tel að með þessu máli eins og það liggur hér fyrir þurfum við ekki að óttast það en við séum samt að stíga skref sem landbúnaðurinn verður að bregðast við, verður að vera tilbúinn að horfast í augu við og takast á við og ég hygg að við eigum eftir að sjá það.
    Varðandi hagsmuni einstakra aðila vil ég minna á það að í frv. og væntanlegum lögum er gert ráð fyrir ráðgjafarnefnd sem er ráðherra til ráðuneytis og fulltingis við framkvæmd málsins. Þar eiga fulltrúar sæti bæði fjmrn. og viðskrn. sem er auðvitað það ráðuneyti, eins og hv. þm. benti réttilega á, sem á að fara með málefni neytenda og auðvitað verður hlustað á það og tekið tilliti til þess sem kemur fram í þeirri ráðgjafarnefnd.