Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:47:45 (846)


[15:47]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Herra forseti. Mitt andsvar lýtur að því sem hæstv. ráðherra sagði hér um endurskoðun laganna. Ég harma það, það eru mér vonbrigði, að hæstv. ráðherra skyldi ekki annað tveggja taka undir þá brtt. sem komin er fram um það eða þá a.m.k. gefa skýra yfirlýsingu um hvernig að þessum málum yrði staðið og að um einhvers konar mat á framkvæmdinni yrði að ræða og þá endurskoðun laganna a.m.k. ef tilefni væri til.
    Það er að vísu svo, herra forseti, að þetta frv. mun vera flutt af hæstv. forsrh. og það hefði í sjálfu sér verið alveg jafneðlilegt að beina fyrirspurninni til hans af því að þarna er um bandorm að ræða og málið snertir mörg lög og forsrh. sem ábyrgðaraðili slíks samkrulls í ríkisstjórninni fer með það ef það væri tekið upp til endurskoðunar. En mér finnst það mjög ófullnægjandi að ríkisstjórnin skuli ekki með einhverjum hætti lýsa því hér við lok afgreiðslu málsins hvernig hún hyggst meta framkvæmdina og standa þá að endurskoðun á þessum ákvörðunum ef nauðsyn ber til sem margir fullyrða að muni ekki verða vanþörf á. Mér finnst það mjög ófullnægjandi.
    Ég tók sérstaklega fram að ég væri ekki að gera kröfur til þess að þetta yrði endilega bundið við þá brtt. sem ég legg fram. Ég væri alveg tilbúinn að taka yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn gilda ef hún kæmi hér. En mér finnst það ekki góður frágangur á málinu að þegar spurt er sérstaklega um þetta atriði eða rætt skuli ekki liggja fyrir með eitthvað skýrari hætti en hér kom fram hjá hæstv. landbrh., og við öll vitum að út af fyrir sig geta menn alltaf breytt lögum, það er ljóst.
    En ég held að það væri ástæða til í ljósi óvissunnar að ganga frá tilteknu ferli sem fæli í sér mat á framkvæmdinni á einhverju tilteknu tímabili og þá endurskoðun eða heildarendurskoðun lagaákvæða sem um þetta fjalla. Þannig að ég spyr hæstv. landbrh.: Er ekki hægt að gera aðeins betur en hann gerði í svari sínu áðan?