Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:02:21 (851)


[16:02]
     Pétur H. Blöndal (andsvar) :
    Herra forseti. Ef menn ætla að hafa hlutkesti þannig að þetta komi inn með lægri tollum munu allir heildsalar landsins sækja um. Það er undir hælinn lagt hvort Bónus, sem hefur þá stefnu sem hv. þm. nefndi, fái leyfi. Þá mun það nefnilega gerast að leyfin ganga kaupum og sölum. Og þó að Bónus hafi þá stefnu að bjóða lágt vöruverð eru kannski aðrar verslanir með stefnuna að bjóða betri þjónustu eða eitthvað annað slíkt. Maður spyr: Af hverju ætti kaupmaður sem er að selja vöru í sinni verslun á 2.000 kr. að selja hana við hliðina á á 1.000 kr.? Svona aðgangur að svo litlu magni, 3%, getur ekki breytt heildarverðinu. Aftur á móti veita þessi 3% þá nauðsynlegu samkeppni sem að er stefnt með þessum 3% aðgangi og sem landbúnaðurinn þarf nauðsynlega á að halda.