Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:37:23 (931)


[10:37]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Með bréfi dags. 11. jan. 1995 óskaði félmrn. eftir því að Ríkisendurskoðun athugaði tiltekin atriði er fram komu í bréfi stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins til félmrh. þann 31. des. 1994. Ríkisendurskoðun samþykkti að taka við erindinu og ákvað að athugunin yrði hluti af fjárhagsendurskoðun sem fyrirhuguð var á þessu ári. Endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna Brunamálastofnunar ríkisins fyrir árið 1994 barst síðan ráðuneytinu með bréfi dags. 26. maí 1995. Skýrslan var einnig send brunamálastjóra og stjórn Brunamálastofnunar ríkisins.
    Í framhaldi af skýrslunni ritaði ég stjórninni bréf sem var dags. 30. maí sl. og segir þar m.a.:
    ,,Brunamálastjóra mun í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar verða falið að vinna að umbótum í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar. Af hálfu félmrn. er ekki um frekari aðgerðir að ræða og lítur ráðuneytið svo á að stjórn Brunamálastofnunar verði að koma saman að nýju og fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar í sinni endanlegu gerð og taka sínar ákvarðanir í framhaldi af því.``
    Hinn 2. júní sl. ritaði ráðuneytið brunamálastjóra bréf þar sem mælst var til við hann að farið yrði að athugasemdum Ríkisendurskoðunar og ráðuneytinu yrði tilkynnt um framgang þess máls. Ráðuneytinu

barst í gær bréf frá brunamálastjóra þar sem hann tilgreinir hvað þegar hefur verið gert til úrbóta og hver áætlun er um önnur atriði.
    Á fundi sínum 9. júní sl. ákváðu stjórnarmenn, aðalmenn og varamenn, að segja af sér störfum ásamt með skólanefnd Brunamálaskólans. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, skipar félmrh. fimm manna stjórn Brunamálastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn eins og hér hefur komið fram í umræðunum. Einn er skipaður eftir tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna, einn eftir tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga, einn eftir tilnefningu Brunatæknifélags Íslands. Einn mann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Stjórnin skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar og að fylgt sé ákvæðum laga og reglna sem um stofnunina gilda. Brunamálastjóri veitir stofnuninni hins vegar forstöðu og ber ábyrgð gagnvart stjórninni.
    Þar sem stjórn stofnunarinnar hefur nú sagt af sér er ljóst að næsta skref ráðuneytisins er að kalla eftir tilnefningum fyrrgreindra aðila á nýjum aðalmönnum og varamönnum í stjórn. Þar til svar frá þeim hefur borist aðhefst ráðuneytið ekkert. Starf stofnunarinnar mun halda áfram eins og áður þótt stjórn sé ekki starfandi tímabundið. Það liggja fyrir drög að reglugerð um stjórn Brunamálastofnunar ríkisins þar sem leitast er við að skýra nánar hlutverk stjórnarinnar, m.a. með hliðsjón af hlutverki brunamálastjóra. Þess er vænst að sú reglugerð verði sett innan skamms tíma.
    Það kann að vera að óhjákvæmilegt sé að breyta lögum í þessu efni. T.d. er ekki hægt að gera brunamálaskólann að sjálfstæðri stofnun samkvæmt gildandi lögum. Það er sorgin við þetta að þegar lögin um brunavarnir og brunamál voru sett hér á Alþingi þá var upphaflegt frv. skemmt, þ.e. skilin voru skýrari í upphaflegu frv. en hv. félmn., undir forustu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, breytti frv. nokkuð þannig að skilin urðu óskýrari og ég er ekki frá því að nauðsynlegt kunni að vera að breyta lögum um stofnunina.
    Varðandi þá úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á Brunamálastofnun þá virðist mér að þar sé ekki um alvarlegar ávirðingar á brunamálastjóra að ræða. Það er fundið að nokkrum atriðum og brunamálastjóri hefur svarað bréfi sem ég sendi honum í framhaldi af skýrslunni og greint frá því hvað hann gerir til úrbóta og skýrt eitt atriði sem var höfuðglæpurinn sem Ríkisendurskoðun fann að. Það var að tiltekinn starfsmaður Brunamálastofnunar hefði fengið úttektarheimild fyrir föt og þau hefðu ekki verið orðin slitin þegar hann lauk störfum. Þetta hefur verið skýrt með ljósriti af reikningum að um safnreikning var að ræða þannig að fötin gátu verið orðin töluvert slitin. Þar var um að ræða tvennar buxur, sem keyptar voru 6. jan., eina peysu, sem var keypt 26. jan., þrjár skyrtur, sem voru keyptar 25. febr., og einn jakka sem keyptur var 2. apríl en maðurinn lauk störfum á miðju ári og það sjá það allir í hendi sér að kannski hafi ekki öll þessi föt verið orðin gatslitin þegar hann hætti. Þetta mál er sem sagt upplýst og ég tel ekki ástæðu til að áfellast brunamálastjóra sérstaklega. Hann hefur brugðist vel við þeim ábendingum, sem í skýrslunni voru settar fram og ætlar að fara eftir þeim.