Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:51:11 (956)


[11:51]
     Magnús Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Ég stóð að nál. landbn. án fyrirvara. Mig langar rétt aðeins til að ræða um 1. gr. frv. Ég lít þannig á að með því verðjöfnunargjaldi sem þar er fjallað um sé verið að mæta þeim vanda sem nú er varðandi kjötbirgðir í landinu og þetta megi verða til að liðka fyrir sölu á þeim birgðum. Á þeirri forsendu var ég sammála þessu tímabundna verðjöfnunargjaldi.
    Fyrst ég er kominn upp í ræðustól langar mig að fjalla um sölumál sauðfjárafurða. Ég tel að framtíð sauðfjárbúskapar í landinu byggist öðru fremur á því að takast megi að selja afurðir á erlenda markaði. Mér sýnist á þeim upplýsingum, sem komu fram í starfi nefndarinnar, að nú sé að skapast möguleiki á sölu kindakjöts, t.d. til Noregs, og það byggist m.a. á GATT-samkomulaginu. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að innanlandsneysla hefur dregist saman og því frekar er ástæða til þess að vinna markaði erlendis. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði um þessi sölu- og markaðsmál. Hann benti m.a. á að í sjávarútvegi hefur vel tekist til í gegnum árin að selja sjávarafurðir á erlendum mörkuðum og ég held að á sviði landbúnaðar megi horfa til þeirra mála.
    Ég hvet Bændasamtökin og bændur í landinu til að gera verulegt átak í þessum málum í ljósi þess sem ég sagði hér áðan varðandi framtíð þessa búskapar. Ég tel að menn eigi að leita sér aðstoðar eða samstarfs hjá sjávarútveginum því þar hefur áratuga reynsla, góð þekking og góður árangur tekist í þessum málum.
    Sölusamtök sjávarútvegsins hafa verið að selja landbúnaðarafurðir á erlenda markaði og það sýnir kannski enn frekar möguleika á því sem ég hef hér talað um.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja umræðuna lengur en ítreka hvatningu mína til Bændasamtakanna í þessum efnum.