Þingfararkaup

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 17:51:06 (1005)


[17:51]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir ýmsar ábendingar sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vék að áðan, en mig langar í örstuttu máli að fara almennt orðum um þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til.
    Árið 1992, í árslok það ár, var samþykkt lagabreyting í þá veru að launakjör alþingismanna voru felld undir Kjaradóm. Þessu var ég mjög andvígur á sínum tíma og er enn. Reyndar var ég ekki einn um þá skoðun því að þessu var andmælt af samtökum launafólks almennt, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, BHMR, en ásamt formanni BHMR undirritaði ég fyrir hönd BSRB bréf til Alþingis í októbermánuði 1992 þar sem að gefnu tilefni var áréttuð sú skoðun, með leyfi forseta, svo að ég vitni orðrétt í bréfið: ,,Að Alþingi beri að taka beina ábyrgð á kjörum þingmanna, ráðherra, æðstu dómenda og þjóðhöfðingja.``
    Kjaramál eru pólitísk í eðli sínu. Þar er enginn endanlegur sannleikur til. Í þeim undantekningartilvikum þar sem því verður ekki við komið að stéttarfélög semji um kjörin er nauðsynlegt að pólitískt ábyrgur aðili standi að baki ákvörðunum og sé þá reiðubúinn að standa og falla með gerðum sínum og ákvörðunum í þessu efni sem öðrum. Hugmyndin um Kjaradóm og kjaranefnd er að mínu mati röng og má nefna margar röksemdir sem ég ætla ekki að tíunda hér nú, en nefna má t.d. að óeðlilegt er að Hæstiréttur skipi aðila í Kjaradóm sem ákveður sjálfur starfsreglur og tekur síðan ákvörðun m.a. um eigin launakjör, þ.e. um launakjör dómara. Þetta varð frægt að endemum eins og við munum þegar laun hæstaréttadómara voru leiðrétt á sínum tíma svo að nam háum fjárhæðum, en hæstv. forsrh. viðhafði þá hin fleygu ummæli: Ég deili ekki við dómarann.
    Ég er þeirrar skoðunar að laun flestra þeirra sem Kjaradómur tekur nú til eigi að ákvarðast með lögum samkvæmt tillögu launanefndar sem þannig starfaði á ábyrgð þingsins. Með þessu móti yrði séð fyrir því að pólitísk ábyrgð væri til staðar. Þannig er málum háttað annars staðar á Norðurlöndum. Almennt ráðast launakjör opinberra starfsmanna þar í kjarasamningum, en laun ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara með lögum.
    Grundvallarhugsunin í þeim breytingum sem hér er verið að leggja til er að aðskilja kaup þingmanna og tilkostnað við starfið. Mín gagnrýni er fyrst og fremst sú að ég vil taka kjaramál alþingismanna úr höndum Kjaradóms og færa þau algerlega inn í þingið. Þegar síðan komið er að því að taka ákvörðun á að skoða kjörin að mínu mati með tilliti til almennrar launaþróunar í landinu og kjara almenns launafólks. Ég legg áherslu á að þetta á að vera viðmiðið og er mjög mikilvægt að menn haldi sig við það.
    Með frv. er viðhaldið kerfi sem ég er andvígur. Þess vegna mun ég ekki styðja frv. Ég mun greiða atkvæði gegn þeirri grein þar sem vísað er sérstaklega í Kjaradóm. Um annað mun ég sitja hjá.