Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 13:59:00 (353)


[13:59]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að auðvitað er verið að spyrja ýmissa spurninga víða og umræða er í gangi. Það er einmitt dæmigert að innan Evrópuráðsins fer fram öðru fremur á þeim vettvangi umræðan um hin siðferðilegu vandamál. En það er hins vegar stofnun sem ekki setur lög né reglugerðir eins og Evrópusambandið gerir heldur eru menn þar að spjalla. Menn eru að spjalla þar á sama tíma og þingin um gjörvalla Vestur-Evrópu eru að ganga frá löggjöf sem er mjög brýnt að sé gert, ég er ekki að sakast um það að menn séu að taka á málinu. Það er afar brýnt. En menn þurfa að vanda sig og taka þá auðvitað tillit til þess sem fram hefur komið og er verið að vinna að annars staðar eins og innan Evrópuráðsins. Ég var reyndar með í fórum mínum rit sem er frá Evrópuráðinu komið og er meira að segja til í íslenskri þýðingu, þ.e. samþykktir ráðherranefndar og ráðgjafarþings Evrópuráðsins um lífsiðfræði og hefur verið þýtt og gefið út af heilbr.- og trmrn. í september 1990. Það varðar fyrst og fremst íhlutunina í manninn og fóstur og annað sem lýtur að þeim þáttum og sjálfsagt að líta á það því að við greinum manninn ekkert frá hinu í rauninni. Menn eru að fikta við þetta allt saman.