Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:02:41 (2543)

1996-01-30 16:02:41# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið fróðleg umræða og hæstv. sjútvrh. hefur svarað mörgum fyrirspurnum sem hefur verið beint til hans en þó ekki öllum. Áður en ég kem að því sem mér fannst hæstv. sjútvrh. skjóta sér undan með nokkuð ódýrum hætti vil ég segja eitt. Hæstv. sjútvrh. þarf ekkert að skammast sín fyrir það að vera einn af dyggustu stuðningsmönnum aflamarkskerfisins. Það eru rök með því kerfi og það eru rök á móti því. Um þessar mundir vill svo til að margt er að birtast í hafinu sem bendir til þess að aflamarkskerfið hafi meiri kosti til að bera en margir töldu áður fyrr. Ég tel að þá vaxandi þorskgengd sem við verðum nú varir við í hafinu megi nota sem röksemd fyrir því að loksins sjást merki þess að aflamarkskerfið verndi fiskstofnana. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem það hefur gerst þannig að hæstv. sjútvrh. getur vel við unað en hann eins og aðrir menn sem dauðlegir eru gerir ekki alla hluti fullkomna. Það er svo að jafnvel kerfi sem ganga upp hafa sínar skuggahliðar. Það er einfaldlega staðreynd sem hæstv. sjútvrh. á ekkert að reyna að burðast við að neita að aflamarkskerfið hefur þann djöful að draga að það hvetur með vissum hætti, við vissar kringumstæður, til sóunar. Þegar hæstv. ráðherra talaði um að úti í heimi höguðu menn sér verr og fyrir utan lögsöguna höguðu jafnvel íslensk skip sér verr en dæmi eru um innan lögsögunnar, þá eru það engin rök. Ég dreg líka í efa að það finnist miklu verri dæmi um framferði íslenskra skipa utan lögsögunnar en þau sem ég veit um og sennilega hæstv. ráðherra líka, innan lögsögunnar. Staðreyndin er einfaldlega sú að aflamarkskerfið felur í sér við ákveðnar kringumstæður sem hafa ríkt í hafinu vissan hvata til sóunar. Ég er ekki einn um þessa skoðun heldur einnig þeir menn sem hæstv. sjútvrh. hefur kvatt sem vitni fyrir dóminn hér í dag. Ég á við þá menn sem sátu í nefndinni sem fjallaði um skýrsluna um bætta umgengni um auðlindir sjávar. Þeir taka það skýrt fram í skýrslunni. Þegar þeir skila af sér til ráðherrans nefna þeir þá ástæðu sem þeir telja ríkasta fyrir þessari sóun og það er aflamarkskerfið. Þeir segja að lokum: Er þetta að mati nefndarinnar stærsti vandinn sem nú er við að glíma. Vandi sem að öllu leyti stafar af því að það er mismunur á milli aflaheimilda og veiðigetu skipanna.

Herra forseti. Mér þótti sem að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvæði hæstv. sjútvrh. ansi rækilega í kútinn í þeirra fróðlegu orðræðu um meðaflann. Það er einfaldlega svo að hvergi í frv. er tekið á þeim vanda sem felst í meðafla. Mér finnst það vera uppgjöf hjá sjútvrn. Mér finnst það vera uppgjöf hjá þeim mönnum sem hann hefur skipað til verka að reyna að minnsta kosti ekki með einhverjum hætti að taka á þessu. Við vitum t.d. að þorskur sem meðafli er afskaplega mismunandi eftir því að hvaða tegund skipið er að einbeita sér. Við vitum að það eru miklu minni líkur, við venjulegar kringumstæður, á að þorskur komi sem meðafli t.d. þegar menn eru að veiða humar en þegar menn eru að veiða ufsa eða þá ýsu. Mér þótti fróðlegt að heyra hjá hæstv. sjútvrh. að hann væri að beita sér fyrir því að í gang færu öflugri rannsóknir á veiðni veiðarfæra á hinar ýmsu tegundir. Menn hafa beðið eftir þessu talsvert lengi. Það kom mér á óvart en ég fagna því ef að það er svo að hæstv. ráðherra hefur hrundið í framkvæmd tilraunum sem miða að því að skilja þorskinn frá með sérstakri þorskskilju í botnvörpum. Ég hafði ekki heyrt um þetta. Ég hafði svona látið mér detta til hugar að það væri kannski hægt með því að stýra hæð netops í vörpum. Þá mætti reyna að draga úr því t.d. að menn fengju þorsk þegar þeir eru að veiða flatfisk með því að hafa það mjög neðarlega eða með því að draga úr hlutfalli þorsks þegar menn eru að veiða ufsa með því að hafa netopið ofar. Ég hélt það væru ef til vill svona hugmyndir sem menn væru að ræða. Það er alveg ljóst að meðaflinn er mjög mismunandi eftir því hver sú tegund er sem menn eru að einbeita sér að. Þess vegna hefði ég talið að hæstv. sjútvrh. sem stundum er kjarkmikill maður að minnsta kosti þegar hann hafði góða menn sér við hlið, hefði átt að stíga svolítið skref að þessu leyti. En þetta er eitthvað sem hæstv. sjútvn. mun fjalla um.

Það sem hæstv. sjútvrh. skaut sér algjörlega undan að ræða eru þær röksemdir sem liggja til grundvallar 3. gr. frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að vel flestir sem tóku til máls fyrr í umræðunni, hafi gagnrýnt þetta með einhverjum hætti. Tveir af þremur stjórnarliðum gagnrýndu þetta ákvæði. Hæstv. sjútvrh. flutti engin rök fyrir því í sinni framsögu og ekki heldur í svarræðu sinni áðan. Hvers vegna á að banna bátum sem eru undir 20 brúttótonnum að veiða fjóra mánuði á ári? Ég spurði hæstv. sjútrh.: Eru einhver rök sem tengjast öryggi sjómanna sem valda því að þetta er fram komið? Spurning mín helgast af því að í greinargerðinni er alveg ljóst að öryggissjónarmiðin hafa miklu minna vægi en orðrómur sem ráðherrann og hans starfsmenn hafa bersýnilega heyrt um að aflanýting þessara litlu netabáta sé miklu verri en annarra báta. Og ég sagði, herra forseti, það getur vel verið að þetta styðjist við einhver rök en ég vil fá að sjá þessi rök. Ég er líka reiðubúinn til að samþykkja 3. gr. ef hæstv. ráðherra getur sýnt mér fram á það að hún er nauðsynleg vegna öryggissjónarmiða. En það kemur hvergi fram í frv. að einhverjar tölur séu tækar yfir þetta. Þá velti ég fyrir mér hvort það geti verið að vinnubrögðin í sjútvrn. séu svo lök að starfsmenn hæstv. sjútvrh. hafi ekki einu sinni verið settir til þeirra verka að taka saman ,,statistikk`` yfir þetta. Hún hlýtur að liggja fyrir. Ég kann því líka illa, herra forseti, þegar segja má að starfsæra heillar stéttar, þ.e. smábátasjómanna, sé sett undir skugga með því orðalagi sem er að finna í 3. gr. Það er látið að því liggja að þeir nýti aflann illa og þeir komi með lakara hráefni að landi. Þegar menn halda svona fram þá verða þeir að færa einhver rök fyrir máli sínu. Hæstv. ráðherra skaut sér undan því að flytja þessi rök í svarræðu sinni áðan eins og hann var þó beðinn um og hvergi í þessu plaggi koma þessi rök fram.

Ég segi það, herra forseti, að lokum, þessi vinnubrögð eru ekki bjóðandi og þau eru ekki heldur sæmandi hæstv. sjútvrh. sem er þekktur að því að vilja vanda verk sín og vilja styðja sitt mál með þéttum rökum.