Kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:26:05 (2581)

1996-01-31 14:26:05# 120. lþ. 80.5 fundur 236. mál: #A kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:26]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það var lengi svo að í íslenskri löggjöf var ekki að finna nein ákvæði um málefni auglýsinga eða auglýsenda. En fyrir allmörgum árum samþykkti Alþingi þáltill. frá þeim sem hér talar um að setja skyldi slíka löggjöf með sérstöku tilliti til þess að veita börnum og unglingum vernd fyrir innrætandi eða óhollum áhrifum af auglýsingum.

Hæstv. þáv. viðskrh. Jón Sigurðsson brást vel við og samdi frv. til laga um auglýsingamál. Það var lagt fram á þingi í tvígang en náði ekki fram að ganga. Þegar frv. til samkeppnislaga var í vinnslu varð að ráði að fella inn í þau lög ákvæði um augýsingar og sér þess stað í VI. kafla laganna um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum. Þar er sérstök lagagrein, 22. gr., um auglýsingar.

Þar er sérstaklega vikið að því að auglýsingar skuli við það miðast að börn sjái þær og heyri og megi þar á engan hátt misbjóða þeim. Í auglýsingum verði að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau. Enn fremur segir að komi börn fram í auglýsingum skuli þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.

Nú er það hins vegar svo að það viðgengst bæði í sjónvarpi og í kvikmyndahúsum og jafnvel víðar að auglýsingar með atriðum úr bönnuðum ofbeldismyndum eru sýndar. Mér skilst að bæði tilmæli Samkeppnisstofnunar og eins viðleitni umboðsmanns barna til að fá úr þessu bætt hafi komið fyrir ekki. A.m.k. fæ ég ekki betur séð en enn séu af og til að birtast á sjónvarpsstöðvum auglýsingar af þessu tagi, jafnvel á þeim tíma kvölds eða dags sem þess er ekki síst að vænta að börn séu framan við sjónvarpsskjáinn.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í því felist skýlaust lögbrot að sýna ofbeldiskennd atriði úr kvikmyndum, sem eru bannaðar börnum að mati Kvikmyndaeftirlits, í sjónvarpsdagskrá þegar við því er að búast að börn sjái þau. Og ég vitna aftur til þess að auglýsingar skuli miðast við það samkvæmt lögum að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Af þessum sökum vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

,,Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?

Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?``

Auðvitað mætti einnig vísa þessu máli víðar, svo sem eins og til þeirra yfirvalda sem fara með barnaverndarmál. Ég hef einnig á dagskrá síðar fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvað varðar þátt þessa máls í fjölmiðlum. Þetta eru spurningar mínar, herra forseti, til hæstv. viðskrh.