Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:37:27 (2597)

1996-02-01 10:37:27# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að það hafa orðið allmiklar deilur í mörgum söfnuðum á landinu þar sem komið hefur í ljós að söfnuðir sætta sig ekki við ýmsar starfsaðferðir sem þar eiga sér stað, einkum og sér í lagi hjá sóknarprestum. Hætta er á því að mínu viti að það ástand geti skapast að í kirkju sé þjónandi prestur sem ekki hafi stuðning safnaðar á bak við sig, þ.e. að þar sé hirðir sem ekki hefur traust þeirrar hjarðar sem hann á að sinna. Ég tel að það eigi að koma til skoðunar í þessu sambandi, vegna þess hversu erfitt það hlýtur að vera fyrir hjörð að hafa hirði sem hún ekki treystir, að gera þær breytingar að ríkið haldi áfram að greiða laun presta og sjá til að þeir hafi öll þau réttindi, þar á meðal lífeyrisréttindi sem þeir hafa í dag, en í staðinn fyrir það fyrirkomulag sem nú ríkir séu þau laun greidd til safnaða sem síðan ráði sér sjálfir prest. Þeir geta þá ákveðið sjálfir með hvaða hætti þeir hafa þá ráðningu, hvort þeir fela safnaðarstjórn eða kjörmönnum að ganga frá henni, ellegar tækju upp prestkosningar eins og áður var. Þrátt fyrir alla galla gera þær það þó að verkum að ganga má út frá því a.m.k. í byrjun að prestur sem ráðinn er með þeim hætti hafi stuðning safnaðarins. Það væri síðan hlutverk safnaðarins að ráða prestinn sem áfram fengi sín laun frá ríkinu. Þá gæti ég vel hugsað mér að söfnuðurinn gæti ráðið því sjálfur hvort hann réði prest með æviráðningu eða til skemmri tíma, svo sem til fimm ára eða svo. Það kæmi svo í ljós hvort söfnuðurinn sætti sig við þann prest sem hann hefur. Það gefur auga leið að það er ekki æskilegt ástand að það komi upp vantraust á milli prests og safnaðar. Ég vil taka fram að mér finnst rétt að í þeirri nefnd sem fær þetta mál til skoðunar, allshn., sem ég sit nú sjálfur í, þá verði þetta mál gaumgæfilega athugað í ljósi þeirra atburða sem nú hafa verið að gerast innan kirkjunnar. Ég tek sérstaklega fram að með þessu er ég ekki að leggja til að kjör, hvorki laun né starfskjör presta, séu á nokkurn hátt skert frá því sem nú er. Ég er heldur ekki að leggja til með þessum orðum að það sé skilið á milli ríkis og kirkju því að kirkjan verður áfram þjóðkirkja og ríkissjóður greiðir áfram laun prestanna. En ég ítreka að ég tel að það komi mjög vel til skoðunar að gera breytingar á ráðningu presta frá því sem nú er þannig að söfnuðurinn hafi meira um það að segja og geti m.a. ráðið hvort hann ræður prest tímabundið til starfa eða til lífstíðar eins og segja má að gert sé með núgildandi aðferðum.

Herra forseti. Ég vil aðeins koma þessu sjónarmiði á framfæri og ég mun beita mér fyrir því í allshn. að þetta mál verði skoðað, m.a. með þessum hætti.