Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:11:46 (2605)

1996-02-01 11:11:46# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 510 liggur fyrir frv. til laga um samningsveð. Frv. er nú lagt fram í fjórða sinn á hinu háa Alþingi. Það var upphaflega lagt fram árið 1993 á síðari hluta 116. löggjafarþings og síðan endurflutt á haustþingum 1993 og 1994, en til þessa hefur ekki náðst að ljúka afgreiðslu þess í þinginu.

Við fyrri meðferð frv. hafa hv. allshn. borist umsagnir frá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu sem láta sig þetta mál skipta. Er þessara umsagnaraðila getið í prentuðum athugasemdum sem fylgja frv. Við frágang þessarar gerðar frv. hefur verið höfð hliðsjón af fram komnum athugasemdum og nokkrar breytingar gerðar á því miðað við fyrri gerð þess. Er þeirra breytinga getið í hinum prentuðu athugasemdum.

Núgildandi veðlög eru sem kunnugt er frá árinu 1887 og fela þau í sér mjög ófullnægjandi ákvæði um samningsveð.

Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna hafa verið sett ýmis lög varðandi samningsveð. Á það einkum við um veðsetningu í þágu lánastarfsemi ákveðinna atvinnugreina. Þróun réttarins á þessu sviði hefur því verið mjög brotakennd og ómarkviss og ólíkar reglur hafa þannig gilt um veðsetningu eftir því hvaða atvinnugreinar hafa átt í hlut. Með frv. þessu er stefnt að því að setja í fyrsta skipti heildarlöggjöf um samningsveð og taka á helstu álitaefnum sem uppi eru, gera löggjöfina samræmda þannig að sambærilegar reglur gildi um veðsetningar, hver sem í hlut á og að hagsmunir þeirra sem lána út á veðsetningar séu tryggðir og jafnræði ríki og hvers kyns mismunun eytt. Jafnframt er verið að rýmka heimildir til veðsetningar og þjónar það í verulegum mæli hagsmunum atvinnuveganna í landinu.

Ónauðsynlegt er að fara í einstökum atriðum um efni frv. og vísast um það til fyrri framsöguerinda með frv. og athugasemdum með því en verði það samþykkt eins og það liggur hér fyrir, yrðu helstu breytingar á gildandi löggjöf þessar:

1. Gildi taka almenn lög sem að meginstefnu til ná til allra samningsveðsetninga, en lagaákvæði um samningsveðsetningar er nú að finna dreifð í ýmsum lögum og eru þau frá ólíkum tíma.

2. Heimildir til veðsetninga í þágu atvinnuveganna verða rýmkaðar til mikilla muna ef frv. verður að lögum. Felast breytingarnar annars vegar í því að heimildin til að veðsetja lausafé með fasteignum atvinnurekstrar sem sérstakt fylgifé verður gerð almenn og tekur til allra þeirra sem atvinnurekstur stunda, en nær ekki til tiltekinna rekstraraðila, eins og nú er. Verður með þessu eytt því mikla misræmi, sem nú ríkir í þessum efnum milli einstakra atvinnugreina. Hins vegar felst breytingin í því að fleiri lausafjárverðmæti verða sett að sjálfsvörsluveði sem heildarsöfn muna en gildandi réttarreglur heimila. Þá verður og heimild til slíkrar veðsetningar hvorki tímabundin né einskorðuð við það að bankar og aðrar lánastofnanir eigi í hlut, heldur á hún við hver svo sem lánveitandinn er.

[11:15]

3. Lögfestar verða reglur um stofnun, réttarvernd og framsal handveðréttinda, en skráð efnisákvæði hefur skort í íslenskan rétt um handverk er frá er talið ákvæði 2. gr. veðlaga.

4. Lögfestar verða reglur um ýmis þýðingarmikil almenn atriði sem sett ákvæði skortir á um í gildandi rétti. Skal í því sambandi t.d. bent á ákvæði frv. um töku arðs af veði, afnotarétt, viðhald og vátryggingarskyldu, áhættu og ábyrgð vegna tjóns á hinu veðsetta, eindögum veðkröfu, framsal og veðsetningu á veðrétti, framsal veðandlags, sameiginlegt veð, útlausnarrétt og afmörkun veðréttar.

5. Eytt verður óvissu um gildandi rétt í dag varðandi ýmis veðréttarleg álitaefni sem gildandi löggjöf lætur ósvarað. Skal í því sambandi t.d. bent á ákvæði í 20. gr. frv. um yfirtöku veðskulda í fasteignakaupum, en í þeim efnum hefur íslensk dómaframkvæmd verið á reiki eins og nánar er rakið í skýringum við þá grein frv.

6. Lögfestar verða réttarreglur um eignarréttarfyrirvara sem í frv. er kallað söluveð, en skráðar réttarreglur skortir hér á landi um þess háttar tryggingarréttindi. Hér er um þýðingarmikil tryggingarréttindi að ræða sem mikið er tíðkað að nota í viðskiptum með ýmsar algengar verslunarvörur og því full þörf á að setja skýrar reglur þar um. Skipar frv. söluveði í flokk venjulegra veðréttinda, með ákveðnum frávikum þó.

7. Lögfestar verða almennar reglur um stofnun og réttarvernd samningsveðs í viðskiptabréfum, almennum fjárkröfum og innlausnarbréfum, en við skráðar réttarreglur í þeim efnum er ekki að styðjast hér á landi nema að takmörkuðu leyti. Er í frv. m.a. tekin afstaða til þess hverra tryggingaráðstafana er þörf þegar kröfuréttindi eru veðsett, en full þörf er á að eyða óvissu í þeim efnum.

8. Frv. gerir ráð fyrir því að lögfestar verði réttarreglur um svokallað ,,factoring`` eða vörureikningsveð sem svo er nefnt í frv., en þar er um það tilvik að ræða þegar rekstraraðili veðsetur þær almennu fjárkröfur sem hann fær í rekstri sínum að aðgreindum hluta rekstrarins.

9. Enn má nefna að í gildandi réttarreglum skortir ákvæði um það að hvaða marki veðþola er heimilt að ráðstafa einstökum munum út úr heildarsöfnum sem löglega hafa verið sett að sjálfsvörsluveði. Þar sem frv. þetta gerir ráð fyrir auknum heimildum til þess að setja heildarsöfn muna að sjálfsvörsluveði er nauðsynlegt að byggja á samræmdum reglum í þeim efnum.

10. Þá er þess loks að geta að í sérstökum kafla frv. er fjallað um samningsveð í fasteignum. Fasteignir eru án efa þau verðmæti sem mesta þýðingu hafa við veðsetningar, en þrátt fyrir það skortir að mestu skráð efnisákvæði um veðsetningar þeirra ef frá voru talin ákvæði þinglýsingalaga um réttarvernd. Er í frv. tekin afstaða til þess hver réttindi yfir fasteignum verða veðsett, hvernig afmarka beri veðréttinn. Fjallað er um veðsetningu í varanlegum afnotarétti til lands og húsa, um veðsetningu aðgreindra eignarhluta og réttarvernd auk þess sem almenn ákvæði I. kafla frv. um útlausnarrétt og skipti á veðskuldum eiga við um fasteignir.

Ég hef hér vikið að aðalþáttum frv. og þeim breytingum sem það felur í sér frá gildandi réttarreglum í höfuðatriðum og hvaða nýmæli eru helst í frv. frá því sem nú er vegna þess að á mörgum sviðum veðréttar skortir nú settar lagareglur.

Eins og ég hef þegar gert grein fyrir er frv. nú lagt fram á Alþingi í fjórða sinn. Ég vísa að öðru leyti til þeirrar umræðu sem áður hefur farið fram um aðalefnisatriði þess. En ég tel sérstaka ástæðu til þess að geta hér um eitt atriði sem allnokkur umræða hefur orðið um, en þar er um að ræða veðsetningu á aflahlutdeild skips. Í fyrri gerðum frv. hefur í 3. mgr. 31. gr. verið við það miðað að veðréttur nái ekki til aflahlutdeildar skips eða veiðiheimildar, eins og það var orðað í frv., nema um það sé samið í veðbréfi. Slíkt samningsákvæði í veðsamningi mundi eðli máls samkvæmt fela í sér takmarkanir á heimild veðþola til að skilja aflahlutdeild frá skipi. Ekki hefur verið sátt um að hafa slíkt ákvæði í frv. Með frv. nú er þetta ákvæði fellt úr frumvarpsgreininni og er þá í engu vikið að veðsetningu aflahlutdeildar skips í frv. En eins og kunnugt er er samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og reglugerð nr. 367/1991 heimilt að framselja aflahlutdeild skips að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Aflahlutdeild getur því samkvæmt þessum heimildum gengið kaupum og sölum og unnt er að leigja hana og getur hún sem slík haft í för með sér mikið verðmæti. Það getur því varðað þann miklu sem veðrétt á í skipi að aflahlutdeild verði ekki frá skipinu skilin, enda sýna dæmin að markaðsverð skipa sem ekki hafa aflahlutdeild er allt annað og miklu lægra en þeirra sem aflahlutdeild hafa. Má því til sanns vegar færa að óheft heimild eiganda skips til þess að skilja aflahlutdeild frá skipi án alls samráðs við þá sem eiga veðrétt í skipinu getur leitt til mjög verulegrar rýrnunar veðsins og skert þá tryggingu sem veðréttinum er ætlað að veita.

Enda þótt lögin um stjórn fiskveiða mæli fyrir um heimildir til framsals aflahlutdeildar skips láta lögin ósagt með öllu hver áhrif það hafi á veðrétt þeirra sem veð eiga í skipi að aflahlutdeildin er framseld. Við þeirri áhættu sem af því leiðir geta lánastofnanir þó að nokkru séð og tryggt hagsmuni sína með sérstöku samkomulagi við útgerðaraðila þannig að framsal aflahlutdeildar sé óheimilt án samþykkis veðhafa og að slíkt framsal feli í sér uppsögn veðsamnings.

Hér er í sjálfu sér um tiltölulega lítið atriði að ræða sem ekki hefur nein veruleg áhrif. Í lögunum um stjórn fiskveiða eins og þau voru samþykkt 1990 er kveðið á um það hvernig fara skuli með veðsetningar skipa og aflaheimilda og ráð fyrir því gert að þeir sem lána útgerðarmönnum út á veð í skipum verði að tryggja stöðu sína með samningum. Það er vissulega svo að í því felst að mínu mati ófullnægjandi öryggi vegna þess að útvegsmenn geta selt aflaheimildirnar frá skipum sínum til annarra skipa og þannig rýrt stöðu lánveitandans. Þess eru þó ekki dæmi svo mér sé kunnugt um að af þessu hafi hlotist neinir alvarlegir árekstrar. Ég þekki ekki dæmi um það þótt það kunni auðvitað að vera. Mín skoðun var sú að þess vegna væri eðlilegra að tryggja með lögum betur réttindi lánastofnana og setja útgerðarmönnum þrengri skorður en verið hefur, en um það hefur ekki náðst samkomulag. Það eru sem sagt fleiri þingmenn sem telja að útgerðarmenn eigi að geta framselt aflaheimildir sem veðsettar hafa verið með skipum og þannig rýrt stöðu lánveitenda. Um þetta má auðvitað deila og eins og kunnugt er hafa ekki komið upp nein alvarleg ágreiningsefni í þessum efnum.

Hér er ekki um að ræða ágreining um það hvort unnt sé að veðsetja veiðiheimildir. Þetta ákvæði laut ekki að því og það að það hverfur úr frv. snertir það mál á engan hátt. Hér var einvörðungu um að ræða atriði sem laut að tryggingu fyrir þá sem lán veita til útgerðarinnar. Það er með öðrum orðum verið að rýmka frá fyrri gerð frumvarpsins frelsi útgerðarmanna til að ráðstafa veðsettum aflaheimildum og takmarka tryggingu lánveitenda. En ég tel ekki að það leiði til neinnar verulegrar röskunar af því að það felur í sér óbreytt ástand sem fram til þessa hefur ekki valdið neinum óróleika á lánamarkaði.

Þess misskilnings hefur nokkuð gætt að slík trygging til lánveitenda hafi með einhverjum hætti áhrif á stöðu fiskveiðistjórnunarlaganna eða kvótakerfisins, en það er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Aukin trygging lánveitenda hefur ekki á nokkurn hátt áhrif á lögin um stjórn fiskveiða eða svokallaða aflahlutdeild. Hún stendur óhögguð hvernig sem ákvæði af þessu tagi eru og löggjafinn getur breytt þeim ákvæðum hvenær sem honum sýnist burt séð frá því hvaða tryggingar við veitum lánveitendum útvegsmanna. Og auknar tryggingar til lánastofnana hvorki veikja né festa þau ákvæði í sessi. Það er þess vegna á misskilningi byggt, kannski vegna þess að einhverjir hafa staðið í þeirri trú að unnt væri að taka veð í aflahlutdeildinni sérstaklega, en það er að sjálfsögðu ekki hægt og væri andstætt fiskveiðistjórnunarlögunum því að aflahlutdeild og aflamark er bundið við skip. Þeir sem lána útgerðarmönnum út á veð í skipi geta þannig tekið veð í skipinu og verðmæti þess án aflahlutdeildar. Þeir geta tekið veð í skipinu og verðmæti þess með aflahlutdeild, en þeir geta aldrei tekið veð í aflahlutdeildinni einni og sér vegna þess að hún er bundin við skip og lögaðili getur ekki fært hana til sín. Það væri algerlega í andstöðu við fiskveiðistjórnunarlögin ef það væri heimilað. Ég hygg ekki að nokkrum manni hafi komið það til hugar, en ég geri ráð fyrir því að misskilningurinn sé kannski í því fólginn að einhverjir hafi haldið að lánastofnanir gætu tekið til sín aflaheimildir með þessum hætti. En það er að sjálfsögðu ekki möguleiki.

Þannig liggur þetta frv. fyrir. Ég hef ekki leynt þeirri skoðun minni að ég hefði heldur talið að það ætti að veita lánastofnunum og lánveitendum frekari lagalega tryggingu þannig að þeir væru ekki einvörðungu háðir því að samningsákvæði yrðu virt í þessu efni. En að sjálfsögðu er það mat meiri hluta þingsins sem hlýtur að ráða því, ef meiri hluti þingsins vill að útgerðaraðilar geti ráðstafað þessum verðmætum án tillits til hagsmuna veðhafanna. Ég ítreka að framkvæmdin hefur sýnt að það er ekki mikil hætta á ferðum í þessum efnum þótt einstök tilvik geti auðvitað komið upp og þess vegna hefði verið eðlilegra að hafa þessi tryggingarákvæði í lögunum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.