Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:50:32 (2610)

1996-02-01 11:50:32# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:50]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um þjóðareign á auðlindinni tryggir að Alþingi getur hvenær sem er sett lög um breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu, t.d. afnám aflamarks, án þess að af þeirri lagabreytingu hljótist skaðabótaskylda. Útgerðarmenn sem búa við núverandi kerfi geta ekki farið fram á skaðabætur þótt núverandi stjórnkerfi yrði afnumið og tekið upp annað stýrikerfi en aflamarkskerfið. Ef sú breyting hefði verið gerð á lögum um samningsveð sem hæstv. dómsmrh. lagði til hefði það breytt stöðunni þannig að lánastofnanir, sem fengið hefðu að taka veð í aflaheimildum, hefðu getað gert skaðabótakröfu á ríkisvaldið ef Alþingi hefði breytt lögum, þó svo að útgerðarmenn hefðu ekki getað gert það. Með því að hafa þetta ákvæði ekki inni í lögunum, heimila ekki lánastofnunum að taka veð í aflaheimildum, hefur Alþingi enn frjálsar hendur um breytingar vegna þess að það er í gadda slegið að fiskurinn í sjónum er þjóðareign. Þetta breytir ekki með neinum hætti þeirri aðstöðu sem verið hefur gagnvart veitingu lána til sjávarútvegsins. Þeir sem sjávarútveginum lána verða einfaldlega áfram, hér eftir sem hingað til, að taka þá áhættu að Alþingi kunni að breyta aflakvótakerfinu og afnema það kerfi sem nú hefur verið í gildi við stjórn fiskveiða. Ég mundi telja, miðað við þær yfirlýsingar sem komið hafa nú upp á síðkastið frá ýmsum stjórnmálaflokkum, t.d. Alþb. um afstöðu til breytingar á stjórnun fiskveiða, Kvennalista og mörgum þingmönnum Framsfl., að nú séu meiri líkur en áður á því að þessu fiskveiðistjórnunarkerfi kunni að verða breytt í framtíðinni. En breytingar á afstöðu lánveitenda til sjávarútvegsfyrirtækja hafa á engan hátt orðið með afgreiðslu þessa frv.

(Forseti (GÁ): Forseti verður að taka fram að andsvar stendur aðeins í tvær mínútur.)