Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:24:37 (2639)

1996-02-01 14:24:37# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:24]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég set þá skoðun fram að menn hafi minni rök en áður fyrir veiðileyfagjaldi á forsendum þróunar á eignarhaldi auðlindarinnar þegar menn eru sammála um að sameignarákvæðið að auðlindinni hafi styrkst. Það hefur verið áberandi hjá öllum sem tala fyrir veiðileyfagjaldi að þeir gera það til að tryggja að þjóðin eigi auðlindina áfram. Alþb. hefur ekki tekið upp þá stefnu sem felst í veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti. Það hefur verið tekið til umræðu og hefur reyndar áður verið tekið til umræðu í flokknum án þess að það leiddi til þess að flokkurinn gerði það að sinni stefnu. Það liggur því ekkert fyrir um það að Alþb. hafi ákveðið að breyta stefnu sinni og taka upp auðlindaskatt.

Ég vek athygli á að Alþingi hefur ákveðið í framhaldi af meðferð sinni á þáltill. þingmanna Þjóðvaka að líta svo á að umræðan um veiðileyfagjald sé skattamál, ekki mál sem varði stjórn fiskveiða. Það er því aðskilið. Það er pólitískt mat hvort menn vilja leggja á atvinnugreinaskatt, sérstakan skatt á eina atvinnugrein eða á starfsmenn einnar atvinnugreinar umfram starfsmenn annarra atvinnugreina, og ber auðvitað að meðhöndla það sem pólitísk verkefni. Það hefur brunnið við í máli þeirra sem tala fyrir veiðileyfagjaldi að það sé knýjandi nauðsyn að taka það upp til að verja eignarréttinn að auðlindinni en það er rangt.