Bókaútgáfa

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:20:50 (2694)

1996-02-01 17:20:50# 120. lþ. 82.10 fundur 220. mál: #A bókaútgáfa# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:20]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu göfugt markmið ríkisstjórnarflokkanna að ætla að ná ríkissjóðshallanum niður á tveimur árum. Ég hef tekið það fram áður úr þessum ræðustól að ég tel að menn ætli sér fullmikið rétt eins og í fyrra skiptið á árinu 1991 þegar það sama átti að gerast. Nú blása að vísu vindar úr öðrum áttum. Ég tek að sjálfsögðu undir þau markmimð að reyna að ná niður hallanum á ríkissjóði og að grynnka á skuldum ríkisins. Við verðum að hugsa til framtíðar. En eins og ég nefndi áðan eru margar matarholurnar og það er að sjálfsögðu líka mikil þörf á því að skoða í hvað við eyðum peningunum. Að mínum dómi er hægt að taka á mörgu sem ég hef ekki tíma til að tíunda hér eins og t.d. skiptingu ríkisins í ráðuneyti og eins og ég nefndi áðan, hinar gífurlegu upphæðir sem fara til risnu og ferðalaga. Ég vil í því sambandi minna á það að meiri hlutinn í Reykjavíkurborg hefur verið að taka verulega til í sínum hirslum og hefur tekist það vel. Þar hafa einmitt margar matarholurnar fundist og ekki síst risnan. Það er hægt að draga þar verulega saman.

Þetta er auðvitað aðeins eitt dæmi. En þau eru mörg. Ég gæti nefnt breyttar áherslur í heilbrigðismálum o.s.frv., o.s.frv. En það er þrennt sem mig langaði að nefna sem tengist þessari tillögu. Það er fyrst að nefna að ég sakna sárlega hæstv. menntmrh. Ég hefði mjög gjarnan viljað að hann væri viðstaddur umræðuna vegna þess að hér er mjög mikilvægt mál á ferðinni.

Í öðru lagi langar mig að nefna það að við í hv. félmn. fórum í heimsókn til Alþýðusambandsins núna í vikunni. Þeir voru ekki síst að kynna okkur alla þá menntun sem Alþýðusambandið veitir, þ.e. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, með Tómstundaskólanum, með menntun fyrir atvinnulífið og fleira og fleira. Þar vakti athygli mína þegar ég skoðaði plaggið að þeir eru með námskeið í lestri vegna þess að það er staðreynd hér á landi að það er nokkur hópur fólks sem aldrei nær fullu valdi á lestri. Þótt fólk geti hugsanlega bjargað sér vill bregða við eftir að fólk kemur út úr skóla að það lesi aldrei neitt meir. Það sama gerðist fyrr á öldum þegar var verið að reyna að kenna fólki að lesa og skrifa. Þá týndist sú kunnátta niður vegna þess að fólk hafði engar bækur og engan tíma til að lesa. En reyndar er fleira sem þarna kemur inn í sem tengist öðru áreiti sem margir verða fyrir og einfaldlega það að ná bara ekki tökum á lestrinum. Þetta er ákaflega erfitt mál því að það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að fólk sem getur ekki lesið er ekki í sambandi við samfélagið. Það er einhvern veginn utan garðs í samfélaginu. Þetta er ákaflega hættuleg þróun og á þetta hafa menn t.d. bent í Bandaríkjunum. Það kom þeim alveg gríðarlega á óvart þegar könnun leiddi í ljós í Bandaríkjunum hve lestrarkunnátta var þar takmörkuð, hve margir voru ólæsir fyrir utan innflytjendur sem koma frá löndum þar sem þeir höfðu ekki notið skólagöngu. Þetta er því alvarlegt mál og þess vegna ekki síst ástæða til að efla bókina og efla lestur. Ég tek svo innilega undir það sem fram kom frá síðasta ræðumanni að lestur fyrir börn er gríðarlega mikilvægur.

Að lokum, hæstv. forseti, af því að ég átti á síðasta kjörtímabili þátt í því að gagnrýna kvikmyndaleikstjórann Hrafn Gunnlaugsson og reyndar hæstv. menntmrh. þáv., Ólaf G. Einarsson, vegna athafna þeirra, þá langar mig að nota þetta tækifæri til að hrósa Hrafni Gunnlaugssyni og tíunda hér að hann var í viðtali í Ríkisútvarpinu í síðustu viku. Þar var hann að ræða um stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar. Hann benti á sinn mjög skelegga hátt á þessa stöðu sem ég nefndi áðan, að ef við ekki bregðumst við þessu gífurlega flóði utan að sem yfir okkur streymir af kvikmyndum og sjónvarpi og öllum þessum stöðvum sem nú er boðið upp á auk myndbandanna --- er þá vert að minna á þá umræðu um ofbeldi í kvikmyndum sem átti sér stað hér í gær --- ef við ekki bregðumst við fyrst og fremst með því að skapa og framleiða sjálf bækur, kvikmyndir og annað sem sýnir íslenskan veruleika og tengir fólk við það líf sem lifað er í landinu þá vitum við bara ekki hvar við lendum. Viljum við það? Viljum við hanga í einhverju öryggisleysi og týna niður menningu okkar og tungu? Auðvitað eigum við að vera opin, við eigum að þróast. Við eigum líka að varðveita það sem við eigum vegna þess að það er það sem gerir okkur að Íslendingum. Það skapar okkur sérstöðu og þess vegna þurfum við að svara utanaðkomandi áhrifum á okkar hátt með því að efla okkur sjálf.