Könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:48:28 (2762)

1996-02-07 13:48:28# 120. lþ. 85.2 fundur 265. mál: #A könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:48]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hefur ekki farið fram könnun á stöðu fatlaðra á almennum vinnumarkaði á vegum félmrn. síðan árið 1990. Þá var gerð könnun og gefin út skýrsla um atvinnumál fatlaðra sem tók bæði til verndaðra vinnustaða og til almenna vinnumarkaðarins. Að þessu verkefni vann fimm manna nefnd á sínum tíma. Í skýrslunni eru settar fram ítarlegar tillögur um að efla þátttöku fatlaðra á vinnumarkaði. Sumar þeirra hafa komið til framkvæmda en aðrar ekki. Árið 1992 skipaði þáv. félmrh. aðra fimm manna nefnd til að útfæra tillögur í atvinnumálum fatlaðra á almennum vinnumarkaði með hliðsjón af lögum nr. 59/1992. Sú nefnd vann að þessu verkefni í þrjú ár og skilað heildarskýrslu í mars 1995 en áður hafði hún skilað áfangaskýrslu. Því miður er ekki að finna upplýsingar í þessari skýrslu um störf fatlaðra á almennum vinnumarkaði. Hins vegar koma fram gagnlegar ábendingar og tillögur frá nefndinni um það sem hún telur að þurfi að gera. M.a. þarf að auka til muna upplýsingamiðlun og áróður til fyrirtækja. Sífellt þarf að minna á rétt fatlaðra á vinnumarkaði, ekki bara atvinnurekendur heldur líka verkalýðshreyfinguna, en báðir aðilar hafa skyldur og mátt í þessum málaflokki. Nefndarmenn vilja einnig taka til umræðu hvort rétt sé að veita fyrirtækjum sem standa vel að atvinnumálum fatlaðra viðurkenningu. Það hefur raunar verið gert og það tel ég mjög jákvæð viðbrögð. Ég minni í því sambandi að á sl. vetri eða á sl. hausti fékk fyrirtækið Þormóður rammi á Siglufirði sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa staðið vel að atvinnumálum fatlaðra. Nefndarmenn álíta að allar stuðningsaðgerðir við atvinnurekendur þurfi að vera einfaldar, skýrar og skilvirkar. Í því sambandi leggur nefndin til að ár hvert verði úthlutað úr Framkvæmdasjóði fatlaðra ákveðinni upphæð til breytinga á almennum vinnustöðum þar sem fatlaðir starfa, sbr. 7. tölul. 40. gr. laga um málefni fatlaðra. Fé þetta verði í vörslu félmrn. og til ráðstöfunar þaðan hvenær sem er ársins til fyrirtækja sem að mati svæðisskrifstofu eða vinnumiðlana eru styrkhæf. Stjórnarnefnd málefna fatlaðra hefur á undanförnum árum veitt styrki úr framkvæmdasjóði til lagfæringa á vinnustöðum þar sem fatlaðir starfa þegar umsóknir hafa borist um slíkt.

Allt frá árinu 1984 hefur ráðuneytið veitt svæðisskrifstofum málefna fatlaðra heimild til að ráða sérstaka starfsmenn til atvinnuleitar fyrir fatlaða. Tekur þetta bæði til almenna vinnumarkaðarins og til verndaðra úrræða. Atvinnuleit svæðisskrifstofa hefur starfað í samvinnu við vinnumiðlunarskrifstofur sveitarfélaga og hefur það gefist vel. Það er ástæða til að nefna í þessu sambandi reglugerð um öryrkjavinnu sem var gefin út í febrúar 1995 af heilbrrn. Samkvæmt reglugerðinni er hægt að gera sérstakan samning við vinnuveitendur um að Tryggingastofnun ríkisins greiði þeim hluta af launum til öryrkja í tiltekinn tíma. Ráðuneytið hefur ekki tekið ákvörðun um hvort gerð verði könnun á stöðu fatlaðra á vinnumarkaðinum. Eðlilegast væri að fela vinnumálaskrifstofu félmrn. að gera slíka könnun í samráði við svæðisskrifstofur og vinnumiðlanir sveitarfélaga svo og aðila vinnumarkaðarins.

Hv. þm. spurði hverjar væru tillögur mínar sérstaklega í málum fatlaðra og vitnaði til viðtals sem Morgunblaðið átti við mig. Ég set nú ekki mikla fyrirvara við margar af tillögum nefndarinnar og hann hefði getað nefnt það að ég tek mjög jákvætt undir suma þætti í tillögunum. Mér finnst þær misgóðar. Sumar eru ágætar og ég vil vinna eftir þeim. Hins vegar tel ég t.d. kvótaaðferð þar sem fyrirtæki eru skylduð til að hafa í sínum röðum einhvern ákveðinn hóp fatlaðra eða ákveðinn fjölda fatlaðra ekki vænlega til árangurs. Ég held að það sé mikilvægast að reyna að laða fyrirtækin að því að ráða fatlaða í þjónustu sína og gefa þeim tækifæri til þátttöku í vinnu á almennum vinnumarkaði. Ég held að það sé miklu æskilegri lausn fyrir þá sem á annað borð geta notað sér hana heldur en verndaðir vinnustaðir. Að sjálfsögðu þurfa þeir þó líka að vera fyrir hendi fyrir þá sem ekki eiga möguleika á almennum vinnumarkaði.