Aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:19:05 (2774)

1996-02-07 14:19:05# 120. lþ. 85.4 fundur 267. mál: #A aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:19]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég var ekki að hrósa mér af neinu í sambandi við þetta. Ég var að lýsa því hvernig ástandið er og svaraði efnislega þeirri fyrirspurn sem lögð var fram. Það kemur fram í svarinu að aðstaða fyrir fatlaða hefur batnað í Þjóðleikhúsinu eins og þjóðleikhússtjóri lýsir í svari sem hann sendi ráðuneytinu af þessu tilefni. Það kemur einnig fram að hún mætti vera betri varðandi þá tvo sali sem hv. fyrirspyrjandi gerði af sérstöku umtalsefni. En í aðalsalnum, eins og hér kemur fram, eru sérstakir staðir sem eru ætlaðir áhorfendum í hjólastólum. Þeir eru við 6. og 7. bekk sem er einn besti staðurinn í salnum. Þar er hægt að hafa samtímis frá fjórum til allt að átta hjólastólum, eftir stærð og gerð hjólastólanna. Starfsfólk leikhússins reynir að aðstoða þessa gesti okkar á sem bestan hátt. Áhorfendum í hjólastólum er t.d. boðið upp á að þeim séu færðar veitingar í hléi á jarðhæðinni þar sem erfitt er að komast upp í Kristalssal eða niður í Leikhúskjallarann meðan lyftan er ekki komin. Síðan er þessu lýst nánar. Þetta er lýsing þjóðleikhússtjóra. Ég er ekki að hrósa mér eða öðrum af þessu máli heldur er verið að lýsa því hvernig þetta er. Einnig kom fram í svari mínu að það er verið að vinna að því að reyna að gera þetta á sem hagkvæmastan hátt. Lyftan sem um er að ræða snertir aðalsalinn. Það þarf að gera allt aðrar ráðstafanir út af Smíðaverkstæðinu og húsi Jóns Þorsteinssonar. Það er verið að tala um aukið og bætt aðgengi að aðalsal Þjóðleikhússins. Auðvitað má gera betur og það er verið að vinna að því að finna hagkvæmustu lausnir í því efni.