Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:51:26 (2827)

1996-02-08 16:51:26# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef grun um að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson séum mjög sammála hvað varðar grundvallaratriði í uppbyggingu og skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. En hann spurði mig hvað ég ætti við þegar ég sagði að nú þyrfti að stokka upp spilin á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Við afgreiðslu fjárlaganna var settur upp ákveðinn pottur sem var gert ráð fyrir að yrði nýttur þegar búið væri koma á auknu samstarfi milli sjúkrahúsanna hér á svæðinu. Ég tel að þegar búið er að ganga frá endurskipulagningu á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sé tóm og færi til að hefja þetta samstarf og ganga í það að skipta upp þessum 200 millj. kr. potti sem m.a. var til ráðstöfunar.

Ég lít svo á að við þurfum að vera stöðugt á verði og skoða stöðu þessara stóru sjúkrahúsa og bregðast við þannig að ef það er augljóst að það verði að gera breytingar, þá komi til greina að færa til fjármuni. En það verður ekki gert fyrr en við afgreiðslu fjáraukalaga eða endanlega við afgreiðslu fjárlaga. Það liggur fyrir hvaða tekjur við höfum og ef það á að færa á milli ríkisstofnana, verður það að gerast innan þess tekjuramma sem ríkissjóður hefur núna.

Varðandi einkavæðingu heilsugæslustöðvanna. Ég hef sett fram þessar hugmyndir. Ég tel að nú sé búið að einkavæða heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu með því að sjúklingar hafa aðgang að sérfræðingum á höfuðborgarsvæðinu. Í rauninni er það þannig að þeir sem ættu e.t.v. að fara til heilsugæslulæknanna, fara beint til sérfræðinga. Ég tel því að það sé miklu eðlilegra að ganga hreint til verks og gera þá endurskipulagningu að bjóða upp á það að sérfræðingar í heilsugæslulækningum sameinist í því að reka slíkar stofnanir með sérfræðingum sem geti veitt meiri þjónustu. Það yrði gerður samningur milli heilbrigðisyfirvalda og slíkra aðila um að veita þjónustu sem heilsugæslustöðvunum er ætlað að veita.