Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:59:14 (2831)

1996-02-08 16:59:14# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:59]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir undirtektir við mína ræðu. Það lá við að það brygði fyrir því í máli hans að hann væri mér býsna mikið sammála. Einhvern tíma hef ég skrifað og talað um það að okkur væri mjög mikilvægt að setja á langtímafjárlög. Við gerum það öðrum þræði þegar við erum að gera fjögurra ára áætlanir um framkvæmdir. Ég er sammála hv. þm. um það að við ættum að gera það einnig hvað varðar rekstur og hæstv. núv. fjmrh. hefur lagt ríka áherslu á það að við afgreiðslu fjárlaga sé reynt að líta til lengri tíma. Við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem eru í gildi fyrir þetta ár var einmitt litið mjög til þess og lagðar á borðið upplýsingar um það hvað er fram undan. Hverjar eru skuldbindingar okkar og hvað við þurfum að greiða vegna þess sem við höfum tekið ákvörðun um.

Varðandi það að festa ramma þá er það mjög umdeilt. Ég tel að rammafjárlagagerðin sé mjög krefjandi. Hún gerir miklar kröfur til einstakra ráðherra. En ef gott samstarf er innan ríkisstjórnar um rammagerðina í upphafi, þá tel ég að hún sé heppilegri aðferð og leiði fremur til þess að fjárlög séu haldin og að ráðherrar beri e.t.v. meiri virðingu fyrir fjárlagagerðinni en ella. Þess vegna er ég hlynntur því að rammafjárlagagerð sé viðhöfð og tel að það væri ekki rétt að falla frá þeirri hugmyndafræði.