Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:29:22 (2840)

1996-02-08 17:29:22# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mætti lengja þennan spurningalista. Á að láta fólk sem á við offituvandamál að stríða greiða vegna þess að það hefur ekki gætt sín í mataræði? Á að láta fólk borga sem vinnur á mengandi vinnustöðum og á við öndunarerfiðleika að stríða af því að það valdi sér ekki réttan vinnustað? Svona getur maður lengi haldið áfram. Það er nákvæmlega þetta. Ég skil þetta alveg hárrétt, virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þetta sem Framsfl. ætlar að innleiða hér í hina pólitísku umræðu um heilbrigðismál. Það verður fróðlegt að fylgjast með því og það mun ég gera a.m.k. fyrir mína parta hvernig sú umræða gengur fram. Ég man gjörla eftir þessum tilgreinda lista landlæknis og brást ókvæða við. Ég brást fullkomlega ókvæða við. Ég ætla hins vegar ekki að víkjast undan því, eins og hæstv. fjmrh. og raunar hæstv. heilbrrh. líka, að taka pólitíska og efnislega afstöðu til þeirra hluta sem að okkur snúa. Ég ætla ekki að varpa þeirri ábyrgð yfir á heilbrigðisstéttir eins og mér heyrist hæstv. fjmrh. vilja einna helst þegar kemur að því að raða þjónustu á tilteknar stofnanir og á milli þeirra. Ég misskil hins vegar ekki nokkurn hræranlegan hlut, virðulegur forseti, þegar kemur að þeim hugmyndum sem þegar hafa verið kynntar um stjórnkerfisbreytingar gagnvart heilsugæslu á minni sjúkrahúsum. Ég skil þær mætavel. Og ég spyr, vegna þess að ég veit að hv. þm. Stefán Guðmundsson ætlar að eiga við mig orð um það, hvort hann telji það mjög til bóta að fimm manna nefnd í Norðurl. v. þar sem þrjú sjúkrahús eru, Siglufjörður, Blönduós og Sauðárkrókur, togist á um þessa peninga og útdeili þeim eða hvort ekki sé skynsamlegra að við tökum á okkur hina pólitísku ábyrgð hér og þá undir leiðsögn ráðuneytisins. Við sem berum hina pólitísku ábyrgð vísum þessu þangað sem við teljum eðlilegt, þ.e. heim í hérað, í þessi tilteknu sveitarfélög. Það finnst mér skynsamlegt. Þannig var stefnumörkun okkar alþýðuflokksmanna. Við viljum ekki sjá þetta þriðja stjórnsýslustig. Ég veit að Framsfl. hefur verið að gæla við það annað slagið og nú birtist það á nýjan leik.