Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:15:31 (2854)

1996-02-08 18:15:31# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:15]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Mathiesen gerir mér upp orð. Ég sagði aldrei að vandi ríkissjóðs væri bara vegna síðustu ríkisstjórnar. (ÁMM: Jú.) Ég sagði það ekki. Ég tók sem dæmi að á undanförnum fjórum árum í tíð síðustu ríkisstjórnar hefði safnast upp 40 milljarða kr. halli. Ég veit að það hittir hv. þm. í hjartastað þar sem Sjálfstfl. sat þá í ríkisstjórn. En ég tók það sem dæmi. Þetta er gífurlega há tala. Bara á síðustu fjórum árum safnast hér halli upp á 40 milljarða. Að sjálfsögðu er hallinn meiri. Þetta er langtímavandi. Þetta er ekki bara í tíð síðustu ríkisstjórnar en við sjáum hvað vandinn er nálægur okkur. Á síðustu fjórum árum safnaðist 40 milljarða kr. halli þegar Sjálfstfl. og Alþfl. héldu um stjórnartaumana. Þess vegna er svo brýnt að ná þessu niður. Þess vegna tökum við framsóknarmenn þátt með ykkur sjálfstæðismönnum í þessari ríkisstjórn til þess að ná niður hallanum. Það er mitt mat að það hefðu engir flokkar getað það nema Sjálfstfl. og Framsfl. vegna þess að þetta eru tveir sterkustu flokkarnir í landinu í dag með 40 menn á þinginu af 63. Þið sjáið því að engin önnur stjórnmálaöfl hefðu getað tekið á þessum vanda. Við megum því bera höfuðið hátt og vera stolt af því að takast á við þetta vandamál. Enginn annar hefði getað það.

Ég viðurkenni að ég gerði mér sjálf ekki grein fyrir því hvað hallinn er geigvænlegur á ríkissjóði fyrr en ég kom hingað til starfa.