Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:22:45 (2867)

1996-02-08 19:22:45# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir minntist áðan á oflækningar. Það var rétt hjá henni, ég tel að nokkuð sé um það og full ástæða til að skoða það. En það er líka þó nokkuð um það að fólk er hætt að fara til læknis. Það er hætt að koma á heilsugæslustöðvar. Þessar upplýsingar komu fram í stjórn heilsugæslustöðvar hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem ég er í stjórn og hafa komið þar fram oftar en einu sinni. Þar segja heilsugæslulæknar mér að stórar, efnalitlar barnafjölskyldur séu hættar að sjást. Þetta finnst mér mjög alvarlegur hlutur. Þetta gerist þrátt fyrir öryggisnetið sem við höfum byggt okkur upp til að grípa inn í þegar þeir sem efnalitlir eru þurfa á þessari þjónustu að halda. Ég tel að við þurfum að staldra aðeins við og athuga hvað hér er á ferðinni og hvort við getum ekki einhvern veginn gripið inn í. Það var rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra í upphafi máls hennar að við eigum hér eitt besta velferðarkerfi í heiminum. En við megum ekki þjarma þannig að því að það geti ekki lengur staðið undir nafni. Við erum með velferðarkerfi sem flokkast undir norræna velferðarkerfið. Það er litið til norræna kerfisins um allan heim sem fyrirmyndarkerfis þar sem allir fá þjónustu óháð efnahag og velferðarkerfið er rekið af skattfé að mestu. Þannig að ég vil aðeins vekja athygli á þessari stöðu og ítreka að í heilbrigðiskerfinu verður að ríkja stöðugleiki. Það verður að gefa fólki vinnufrið til þess að leita hagræðingar. Það er ekki hægt að ganga fram með niðurskurðarhnífinn eins og gert hefur verið, bæði á sjúkrahúsunum og víðar í velferðarkerfinu.