Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:35:41 (2910)

1996-02-12 18:35:41# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:35]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur vil ég benda á að hún telur að fólkið sé að verða aukaatriði í umræðunni en fjármagnið aðalatriði. Mér finnst þetta mikill misskilningur og þau frumvörp sem við sjálfstæðismenn flytjum fara öfuga leið. Við erum að reyna að tryggja betri afkomu launafólks með auknu fjármagni.

Ég bendi og hef reyndar gert áður að Danir hafa verið afskaplega framarlega í að opna fyrirtæki sín fyrir áhrifum erlendis frá. Þar hefur að ég hygg gert þeim kleift að borga mun betri laun en aðrir í fiskvinnslu og þeir hafa þótt ótrúlegt megi virðast náð miklu meiri tökum á því en við. Ég minni á að 49% af hluta ríkisins í símanum í Danmörku var seldur á opnum markaði í New York og víðar um heiminn. Þessi sami sími borgar nú einhver bestu laun sem þekkjast á þessu sviði í heiminum. Ef þau eru t.d. borin saman við laun starfsmanna Pósts og síma á Íslandi erum við að tala um allt að þrefalt hærri laun hjá símanum í Danmörku. Mér finnst þetta sláandi dæmi um það hverju þjóðir sem eru opnar fyrir alþjóðasamskiptum og fjárfestingum hafa áorkað þrátt fyrir allt. Mér finnst að hv. þm. sé tiltölulega frjálslynd í skoðunum varðandi þessi mál. Það er nauðsynlegt að sýna dæmi um að það er fólkið sjálft sem græðir mest á því frjálsræði sem við erum að boða.

(Forseti (GÁ): Forseti vill minna þingmenn á að í andsvörum er mjög strangur tími og ber að fylgja tímamörkum.)