Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:22:19 (2959)

1996-02-13 15:22:19# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. væri kunnugt að flugmálaáætlun er í gildi og þegar verið er að tala um að minna fé renni til flugmála en þar er gert ráð fyrir er auðvitað ekki við því að búast að hægt sé að taka inn ný verkefni í stórum stíl. Við erum því að tala um að falla frá framkvæmdum með nýrri flugmálaáætlun sem lögð verður fram en ekki að bæta við.

Í annan stað vil ég einungis vekja athygli á því af því að hv. þm. mismælti sig eins og raunar kom fram síðar í ræðunni að það er framkvæmdaátakið sem er skorið niður um 37% en ekki höfuðborgarsvæðið. Höfuðborgarsvæðið hefur að hluta 18% og að hluta til 37% en hann leiðrétti það síðar í ræðu sinni. Það er rétt sem kom fram að höfuðborgarsvæðið fer verr út úr framkvæmdaátakinu í bili en aðrir staðir en ég vil þá líka minna á að gert er ráð fyrir því eins og málið var afgreitt að framkvæmt verði fyrir þær 350 millj. sem út af standa á árinu 1999 um leið og tekjur vegna framkvæmdaátaksins verða til. Það er með öðrum orðum ekki gert ráð fyrir að taka lán til þess að hraða framkvæmdaátakinu heldur að láta við það sitja að framkvæma fyrir þær tekjur sem til verða á hverju ári. Auðvitað þýðir þetta frestun á framkvæmdum á Stór-Reykjavíkursvæðinu um eitt eða tvö ár ef við lítum á heildina, kannski þrjú í versta falli, en það er ekki eins og neitt stórslys hafi orðið og ég hygg að þroski sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu sé þvílíkur að þeir vilji helst reyna a.m.k. að láta götur standast á þar sem endar mætast milli sveitarfélaga frekar en fara sinn hvern veginn. Þess vegna held ég að þeir hljóti að reyna að vinna saman um það hvernig rétt sé að standa að framkvæmdum hér.