Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:22:59 (3008)

1996-02-14 14:22:59# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á áhættuna að taka lán og segir að það sé auðvelt að fá eigið fé í dag. Það er vegna þess að það gengur vel í útgerðinni í dag. En ef hún yrði fyrir áföllum þá er eigið fé hennar allt of lítið. Og það er eins og við höfum upplifað aftur og aftur að eigið fé er allt of lítið til þess að mæta einhverjum áföllum og áföllin koma reglulega í sjávarútvegi. Þetta er áhættusöm grein. Og þó að vel hafi tekist að fá eigið fé undanfarið á verðbréfamarkaðnum þá eru það því miður allt of fá fyrirtæki sem hafa farið þá leið. Við búum við það að þessi grein er með mjög lítið eigið fé og ef illa gengur þá er það látið bitna á launþegum með uppsögnum og með því að fyrirtækin hætta.