Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:15:37 (3027)

1996-02-14 15:15:37# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:15]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki auðveldlega útskýrt það sem gerist á markaði eftir að það frv. sem hér er til umræðu verður að lögum, sem ég vona að verði. Ég get ekki lagt mat á það. Hins vegar er alveg augljóst að á hlutabréfamarkaði þar sem innlendir og erlendir aðilar eiga aðgang með þeim takmörkunum sem frv. setur getum við út af fyrir sig ekki spáð hvað gerist. Hvar vilja erlendir aðilar fjárfesta? Verður það áfram í olíufélögum eða verður það í flutningafyrirtækjum eða tryggingafélögum o.s.frv.? Ég þori ekki að spá um hvað gerist en ég vona svo sannarlega að áfram verði það svo að þeir sem fjárfesta á hlutabréfamarkaði sjái möguleika í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum en þeir verða eftir sem áður að laga sig að þeim leikreglum sem lögin setja og ég held að það frv. sem er til umræðu eigi að geta tryggt hagsmuni okkar bærilega. En ég ætla ekki að spá neinu hvað muni gerast. Hins vegar spái ég því að ekki muni verða neinar stökkbreytingar. Það er meginniðurstaða mín. Þetta hefur verið að þróast eins og við þekkjum, e.t.v. örlítið utan laga og reglna. Með því frv. sem er til meðferðar erum við að taka mið af þeim staðreyndum sem eru í dag.