Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:55:12 (3034)

1996-02-14 15:55:12# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:55]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að það komi mjög skýrt fram að afstaða mín til tillögu þeirra fjórmenninganna, flokksbræðra minna, byggist ekki á neinni hræðslu. Þetta er ekki spurning um ótta hvort menn eru með eða móti slíkum málflutningi og slíkum tillöguflutningi. Þetta er spurning um það hvað menn telja farsælast og skynsamlegast fyrir eina þjóð sem á bara eina auðlind. Það eru ósannindi að við eigum fleiri auðlindir. Sumir eru að segja að fallvötnin hérna séu auðlind. Það er ekki rétt, a.m.k. miðað við það verðlag sem er á rafmagni eru þau frekar áþján en auðlind.

Það gildir fyrir framtíðina hvernig við förum að og þess vegna ber okkur að fara mjög varlega. Við erum að fara inn í nýtt efnahagsumhverfi, það hefur orðið gerbreyting. Við erum með frjálsan gjaldeyrisflutning, við erum með frjálsa verðmyndun á fiski. Þetta er allt mjög að breytast, allt umhverfi sjávarútvegsins. Því er rétt að mínu mati að við skulum halda okkur við þá skipan að Íslendingar einir eigi rétt á aflaheimildum.

Ég tel að við gætum óhræddir rætt það og farið ítarlega yfir það hvort ekki væri rétt að útlendingar byrjuðu t.d. á því að taka þátt í fiskvinnslu, það gæti orðið þjóðarbúinu mjög til framdráttar. Ég er sannfærður um að eins og málin standa í dag, þá gætu þeir sem bera hag útgerðarinnar og fiskvinnslunnar fyrir brjósti að mjög mörgu leyti komið þar betur að málinu en vera að flytja tillögur um þátttöku útlendinga enda engin þörf á því eins og markaðurinn er. Það eru engin útgerðarfyrirtæki á Íslandi sem þjást yfir því að þau nái ekki inn fjármagni ef þau vilja það. Öll þau sem gera það fá fullnustu sína á markaðnum þannig að þetta er ekki það sem okkur vantar í dag.