Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 16:03:41 (3039)

1996-02-14 16:03:41# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[16:03]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ráðandi eignaraðild yfir fyrirtæki er 51%. Ég þekki það sem gamall útgerðarmaður að menn sömdu hér áður fyrr oft á tíðum við erlenda uppboðshaldara um lán til að geta gert upp skipin sín, fengið slipptöku, fengið olíu, veiðarfæri og annað slíkt. Það var oft á tíðum gert með þeim skilyrðum að menn lönduðu afla sínum hjá viðkomandi uppboðshaldara í svo og svo mörg skipti eða jafnvel eitt eða tvö ár fram í tímann. Hvað er það? Er það ekki ráðandi? Er ekki einhver sem ræður þá væntanlega gjörðum manns? Ráðandi eignaraðild er lögum samkvæmt 51%, sama hvernig menn vilja snúa út úr því. Ef menn vilja tala um að einhver einn aðili geti haft meiri áhrif en annar dygðu jafnvel tæp 20%, eins og komið hefur fram. Óbein eignaraðild margra aðila getur þess vegna skipt miklu máli þegar rætt er um að einhver aðili geti ráðið meiru en beinni aðild hans að hlutafélaginu nemur samkvæmt prósentuhlut.