Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:14:04 (3116)

1996-02-19 15:14:04# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda að taka þetta mál hér upp í dag. Það er ágætt að fá tækifæri til að ræða það hér í þingsölunum eins og mál hafa þróast á undanförnum sólarhringum.

Fyrir þingmönnum liggur nú frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Í þessu frv. er tekið af skarið um það hvernig réttindum kennara og skólastjórnenda grunnskóla skuli háttað við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Um þetta frv. er algjört samkomulag á milli allra aðila sem að málinu koma.

Það er forsenda þess lögum samkvæmt að þetta verk verði unnið að slíkt samkomulag liggi fyrir eða a.m.k. að frv. verði flutt af því tagi sem hér hefur verið kynnt. Í öðru lagi er það skilyrði lögum samkvæmt að komast að niðurstöðu um kostnaðarskiptingu á milli ríkisins og sveitarfélaganna og það starf er nú komið á lokastig og sveitarfélögin og ríkisstjórnin hafa skipað viðræðunefnd til að semja um niðurstöðu þess máls. En skýrsla um skiptingu þessa kostnaðar var lögð fram í síðustu viku, réttara sagt 13. febrúar sl.

[15:15]

Það sem síðan hefur gerst eftir að allar þessar niðurstöður liggja fyrir er að ríkisstjórnin hefur ákveðið að ganga til viðræðna við sveitarfélögin um niðurstöður í kostnaðarskiptingunni. Síðan hafa kennarar komið fram og lýst því yfir eins og hv. málshefjandi nefndi að þeir ætli að draga sig út úr samvinnu um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna vegna þriggja mála sem þar eru nefnd, þ.e. frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, drög að frv. til laga um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og drög að frv. til laga um samskiptareglur á vinnumarkaði. Hér er um mál að ræða sem snerta ekki flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og snerta ekki það frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem lagt hefur verið fyrir þingmenn. En tekið er fram í athugasemdum við það frv. sem var kynnt öllum sem komu að málinu að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, væru í endurskoðun og ríkisstjórnin hefði í hyggju að leggja fram frv. til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþinginu 1996. Þetta lá fyrir þegar menn gengu frá frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda við grunnskólann og mönnum var það fullljóst. Það mál er til umræðu núna á samráðsvettvangi lögum samkvæmt. Ég tel að ekki sé öll von úti um að menn komist þar að niðurstöðu sem geti komið til móts við sjónarmið kennara og verði ekki til þess að þeir dragi sig út úr samstarfinu um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.

Varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og breytingar á honum er það mál einmitt til athugunar. Einnig er tekið á því í þessu frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Ef menn fletta upp í frv. í fylgiskjal I sjá þeir að þar er undirritað bréf verkefnisstjórnar um flutning grunnskólans til sveitarfélaga, m.a. undirritað af formanni Kennarasambands Íslands, þar sem fjallað er um lífeyrisréttindin og tekið á þeim málum með þeim hætti að samkomulag varð um það í verkefnisstjórninni. Ég geri mér rökstuddar vonir um að mál gangi fram með þeim hætti sem niðurstaða varð um í verkefnastjórninni varðandi lífeyrisréttindin. Ef litið er á efnisatriði þessa máls og þessarar deilu ef þannig má að orði komast um óskyld mál og þau síðan skoðuð í ljósi flutningsins tel ég að með öllu sé rangt að halda því fram að með nokkru móti sé verið að ganga á rétt kennara við flutninginn til sveitarfélaganna, þvert á móti sé rétturinn mjög vel skilgreindur og tryggður með þessu frv. sem ég vona svo sannarlega að þingmenn ljái lið á vorþinginu og við getum gengið frá þessum málum.

Mjög gott samstarf hefur verið við kennara um öll þessi mál til þessa og ég vona að sú samstaða rofni ekki. Hér hafa orðið deilur um önnur málefni sem þarf að sjálfsögðu að ræða og komast til botns í en það er alrangt að gefa það til kynna að það sem nú hefur gerst eigi að verða til þess að tefja fyrir flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég geri mér vonir um að ég geti átt áfram mjög gott samstarf við kennara um málið og einnig sveitarfélögin og það markmið náist sem samþykkt var í lögunum 25. febr. í fyrra að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst nk.