Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:24:46 (3119)

1996-02-19 15:24:46# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:24]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sama hvernig þessu máli er velt upp og hvað sem yfirlýsingum hæstv. ráðherra líður að þetta mikilvæga mál flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna er í stórhættu. Ljóst er að nýjustu útspil ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru eins og blaut tuska í andlit kennarastéttarinnar. Frv. sem dreift hefur verið í dag um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og einnig um lífeyrissjóðsmál eru með þeim hætti að kennarastéttin getur ekki litið öðruvísi á. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Til viðbótar þessu er í burðarliðnum frv. hæstv. félmrh. um vinnulöggjöfina og þegar saman er dregið er ekki að undra að kennarastéttin hafi af þessu áhyggjur. Rétt er að halda því til haga að samningar við sveitarfélögin voru komnir á það stig að bjartsýni ætti að gæta í þeim efnum. Þar liggur fyrir að umtalsverður viðbótarkostnaður verður hjá sveitarfélögunum vegna lagasetningar Alþingis, m.a. um einsetningu grunnskóla og það er enn þá vík á milli vina í þeim efnum. Hver á að bera þennan viðbótarkostnað? Eru það eingöngu sveitarfélögin eða á ríkissjóður með bættum tekjustofnum eða beinum framlögum að koma þar til aðstoðar? Þetta eru mál sem eru langt í frá til lykta leidd.

Hins vegar rifja ég það upp, virðulegi forseti, og rétt er að geta þess að hæstv. fyrrv. menntmrh. hafði um það góð orð í fyrra þegar tilflutningurinn stóð fyrir dyrum að þessi viðbótarkostnaður yrði bættur sveitarfélögunum. Ég vænti þess að hið sama sé upp á teningnum hjá hæstv. núv. menntmrh. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða og ég held að til lengri tíma litið verði þessi tilflutningur til þess að gera skólana betri og þegar til lengri tíma er litið verði kennarastéttin hamingjusamari hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu. Auðvitað verður undirbúningur að vera með þeim hætti að þetta geti gengið snurðulaust fram. Það er því miður ekki, virðulegi forseti.